18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (3774)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. fjh.og viðskn. um frv. til l. um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu. Þar sem þessu nál. hefur rétt núna verið útbýtt ætla ég að byrja á því, með leyfi forseta, að lesa það því ekki er víst að hv. þingdeildarmönnum hafi gefist tími til að kynna sér efni þess. Álitið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Minni hl. nefndarinnar telur brýnt að sem fyrst komist skriður á framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu og átelur harðlega að lítið eða ekkert fé skuli undanfarið hafa verið veitt til byggingar hennar.

Minni hl. nefndarinnar bendir á hversu brýna nauðsyn beri til að ljúka þessari byggingu sem allra fyrst, svo að leysa megi óviðunandi aðbúnað höfuðbókasafna landsins, og jafnframt að til skammar er fyrir stjórnvöld hversu lengi hefur dregist að afhenda þjóðargjöfina frá 1974.

Hins vegar telur minni hl. nefndarinnar þá leið, sem farin er í þessu frv. til að fjármagna framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu, með öllu óviðunandi. Þjóðarbókhlaða er hús þjóðarinnar allrar og hana á þjóðin að byggja, ekki eignamenn hennar eins og lagt er til í þessu frv.

Í stað þess að fara þá leið, sem lögð er til í þessu frv., á að veita fé til byggingar þjóðarbókhlöðu á fjárlögum ár hvert beint úr sameiginlegum sjóði landsmanna allra, ríkissjóði. Þá ber þess að geta að ef á að leggja á sérstakan eignarskatt, eins og frv. kveður á um, væri langeðlilegast að sá skattur rynni beint til húsnæðismála og kæmi þeim til góða sem nú eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn, við ólíkt verri aðstæður en næsta kynslóð á undan þeim. Réttmætast er að beita slíkum skatti til að jafna þá kynslóðamismunun sem átt hefur sér stað í húsnæðismálum hér á landi.

Einnig bendir minni hl. nefndarinnar á að frv. þetta kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1987 og að enn er nægur tími fyrir ríkisstj. til að undirbúa fjárveitingu til þjóðarbókhlöðu á fjárlögum ársins 1987. Því leggur minni hl. nefndarinnar til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.

Stefán Benediktsson hefur setið fundi nefndarinnar og er samþykkur þessu áliti.“

Undir þetta nál. ritar Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Eins og þarna kemur fram eru að áliti minni hl. fjh.og viðskn. þrjár höfuðástæður fyrir því að vísa beri þessu máli til baka, til ríkisstj. Þær eru, í fyrsta lagi og það er að mínu viti veigamesta ástæðan - að þjóðarbókhlaðan er hús sem öll þjóðin á. Hún er gullakista þjóðarinnar. Þar á að geyma prentað mál og bækur þær sem nú eru í tveimur höfuðsöfnum landsins, Landsbókasafni og Háskólabókasafni, og að mínu viti á þjóðin sjálf ótvírætt að byggja þetta hús og eiga það en ekki aðeins hluti hennar.

Önnur ástæðan er sú að eðlilegt væri að láta eignarskatt, ef slíkur skattur er lagður á á annað borð, renna til húsnæðismála til að jafna það bil og þá mismunun sem orðið hefur á milli kynslóða í húsnæðismálum hér á landi.

Þriðja ástæðan er sú að ekkert hastar í þessu máli. Frv. kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1987 og langeðlilegast er að málefnum þjóðarbókhlöðu verði gerð skil á fjárlögum næsta árs. Það er enn nægur tími fyrir ríkisstj. til að fjalla um fjárveitingar til þjóðarbókhlöðu á fjárlögum og veita myndarlega til hennar á fjárlögum ársins 1987.

Eins og fram kemur í þessu nál. er ástandið í málefnum Háskólabókasafns og landsbókasafns, þeirra safna sem í álitinu eru nefnd höfuðbókasöfn landsins, afar slæmt. Brýna nauðsyn ber til að þegar verði hafist handa við að ljúka þjóðarbókhlöðunni því að öllu lengur verður ekki unað við það ástand sem nú er í þessum söfnum.

Háskólamenn og aðrir sem láta sig þessi mál einhverju skipta hafa þingað oftlega um þau á undanförnum árum. Í fréttabréfi Háskóla Íslands frá því í nóv. s.l. er m.a. að finna yfirlit og úttekt á ráðstefnu sem haldin var um málefni þjóðarbókhlöðu þann 19. okt. s.l.

Á þessari ráðstefnu hélt Sigmundur Guðbjarnason rektor Háskóla Íslands m.a. erindi. Í erindi hans kom fram, eins og segir hér í fréttabréfi, með leyfi forseta, að „með byggingu þjóðarbókhlöðu og sameiningu Háskólabókasafns og Landsbókasafns hafi verið áformað að leysa bókaþörf Háskólans í heild sinni á viðunandi hátt til frambúðar. Þessi draumur um lausn á vanda Háskólabókasafns er hins vegar að verða að martröð," segir háskólarektor, „því að þarfirnar aukast og breytast og vandinn vex stöðugt.“

Síðan segir háskólarektor: „Við verðum að tryggja gæði háskólakennslu, veita hliðstæða menntun og erlendir háskólar og gera tilsvarandi kröfur um þekkingu og færni okkar nemenda. Mælikvarði á gæði kennslunnar er svo frammistaða og velfarnaður nemenda okkar í framhaldsnámi erlendis. Þar fæst samanburður við heimamenn á hverjum stað. Sá samanburður hefur verið okkur hagstæður.

Annan samanburð fáum við þegar erlendir kennarar starfa sem gistiprófessorar við Háskóla Íslands í misseri eða tvö í senn. Þessir gistiprófessorar hafa gjarnan látið vel yfir nemendum en þeir hafa undrast aðstöðuleysi kennara og verið nánast orðlausir þegar ræða átti aðstöðu bókasafnsins og bóka- og tímaritakost þess. Slík er fátæktin. Enda er svo komið að gestum eru ekki sýnd óhreinu börnin hennar Evu, þ.e. bókasafnið.“

Þannig farast háskólarektor orð um ástand mála í Háskólabókasafni og veit ég af eigin raun, eftir að hafa nýtt þetta bókasafn sem kennari við Háskóla Íslands, að hér er ekki orðum aukið.

Síðan segir háskólarektor: „Ef vonir okkar og áform eiga að verða að veruleika, þá er þörf skjótrar lausnar þess vanda sem Háskólabókasafnið á við að búa. Sú lausn, sem fyrirhuguð er og fyrirheit gefur, er þjóðarbókhlaðan. Er því brýnt að sú von verði skjótt að veruleika.“

Undir þessi orð tek ég í einu og öllu og ítreka hér enn hvílíka nauðsyn ber til að þessu húsi þjóðarinnar verði sem fyrst komið upp og það gert fullbúið til notkunar.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt mál enn við þessa umræðu, sem tengist bókasafnsmálum, þótt það tengist ekki beint því að afla fjár til byggingar þjóðarbókhlöðu. Það er að bókaþjóðin, sem Íslendingar vilja nefna sig, á í raun ekki lengur bækur. Bókakostur okkar er ákaflega fátæklegur og nú er málum svo komið að í Háskólabókasafni er ekki til rannsóknabókasafn nema ef vera skyldi í íslenskum fræðum. Í mörgum greinum, sem kenndar eru við Háskóla Íslands, er ekki til viðunandi kennslubókasafn, hvað þá heldur rannsóknabókasafn. Fjárveitingar til bókakaupa hafa verið af svo skornum skammti undanfarin ár að í óefni hefur stefnt og málum er nú svo komið að vart má telja að við eigum frambærilegan bókakost í velflestum þeim fræðigreinum sem við viljum mennta okkar unga fólk í.

Það er þess vegna ekki nóg að reisa þjóðarbókhlöðu, það þarf líka að kaupa bækur. Ég vil nota þetta tækifæri til að benda á að það er annað heljarverkefni og kostar ekki færri milljónir en það að ljúka við þjóðarbókhlöðuna. Það kostar ekki færri milljónir að ná upp því sem við höfum tapað í gegnum árin og koma okkur upp frambærilegum bókakosti í öllum helstu fræðigreinum. Það verður því ekki of mikil áhersla á það lögð hversu brýnt er að auka fjárveitingar til þessara mála.

Svo ég víki nú að því frv. hæstv. menntmrh., sem hér liggur fyrir, þá kemst ég ekki hjá að gera athugasemdir við ýmislegt sem fram kemur í grg. með frv. Í grg. bendir menntmrh. á að eigi megi lengur dragast að reisa þjóðarbókhlöðu. Þar er ég honum sammála og er það sennilega það eina sem við erum sammála um í þessu máli.

Síðan segir í grg., með leyfi forseta: „Af þeim ástæðum er leitað til þjóðarinnar um lausn bókhlöðumálsins, svo það dragist ekki um ófyrirsjáanlegan tíma að þjóðin geti nýtt sér þessa gjöf.“

Hæstv. menntmrh. er sem sagt að leita til þjóðarinnar um að byggja þetta hús sem er gjöf til þjóðarinnar sjálfrar. Þarna sýnist mér hæstv. ráðh. vera farinn að bíta í skottið á sjálfum sér í röksemdafærslu og minni jafnframt á að Alþingi afgreiðir á ári hverju fjárlög og þar er ráðstafað sameiginlegum fjármunum landsmanna. Þar eru ýmsar framkvæmdir á blaði sem hvorki menntmrh. né öðrum ráðherrum hefur þótt ástæða til að leita til þjóðarinnar sérstaklega til að fjármagna heldur hafa einfaldlega veitt fé til úr ríkissjóði, enda er ríkissjóður sjóður þjóðarinnar allrar.

Ég vil t.d. minna á að á fjárlögum ársins í ár er að finna 300 millj. kr. teknar að láni til að byggja flugstöð suður við Keflavík. Ekki taldi ríkisstjórn Íslands sig þurfa að leita til þjóðarinnar eftir sérstökum fjárframlögum til að byggja þetta hús. Hún tók 300 millj. kr. einfaldlega að láni. Það er svipuð upphæð og þetta frv. á að ná inn í ríkissjóð, eða 360 millj. kr.

Svo ég taki annað samanburðardæmi - þau eru mýmörg - þá er sá vaxtakostnaður, sem við greiðum í ár af lánum sem þegar hafa verið tekin vegna Blönduvirkjunar, nú kominn yfir 200 millj. kr. Það er kostnaður vegna framkvæmda sem er ljóst að við höfum enga þörf fyrir í nánustu framtíð. Ekki þurfti að leita sérstaklega til þjóðarinnar eftir því að fjármagna þessar framkvæmdir.

Ég vek athygli hv. þdm. á því að það er þegar kemur að menningarmálum, þegar kemur að sjálfri þjóðargjöfinni frá 1974, gjöfinni sem þjóðin ætlaði að gefa sjálfri sér í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, að leitað er til þjóðarinnar eftir fjárframlögum. Það er þá, en ekki fyrr. Það er nóg til af fé að því er virðist - og veit ég að það er ekki nóg - til að setja í önnur verkefni. Þá þarf ekki að leita til þjóðarinnar.

Einnig langar mig til að víkja fáeinum orðum að því sem síðan segir í þessari grg., með leyfi forseta: „Ástæða þykir til að viðurkenna það sérstaka framlag, sem frv. gerir ráð fyrir, með því að láta fylgja hverju framlagi sérstaka viðurkenningu. Þar verður tekið fram um greitt fé hvers einstaklings til þjóðarbókhlöðunnar með það fyrir augum að hið góða handtak hvers og eins megi geymast innan fjölskyldna og ætla um ókomnar tíðir.“

Heyr á endemi! Ég spyr: Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eiga eignir sem eru metnar að eignarskattsstofni upp á 1,6 millj. kr. og geta ekki tekið þátt í því að setja fáeinar krónur í þjóðarbókhlöðuna og fengið svona fínt bréf til að láta börnin sín og barnabörnin vita að þeirra handtök voru góð, eins og stendur í grg.?

Mér þykir það til skammar að svona nokkuð sé borið á borð fyrir Alþingi Íslendinga, ekki síst þar sem um er að ræða þetta hús. Þarna er verið að fara inn á braut sem ég gæti trúað að hæstv. menntmrh. hefði fengið eitthvert veður af í öðrum löndum þar sem sums staðar tíðkast að efnamenn gefi til ákveðinna menningar- og mannúðarmála, til háskólabygginga o.s.frv. og fái þess í stað nafn sitt letrað á silfurskjöld í anddyri bygginga eða stofnskrá sjóða og þar fram eftir götum.

Ég hef ekki á móti þessari leið í sjálfu sér séu einstaklingar t.d. að reyna að koma einhverjum þjóðþrifa- og menningarfyrirtækjum á fót. En ég hef á móti þessu þegar um er að ræða sameiginleg menningarverðmæti þjóðarinnar allrar, eins og þjóðarbókhlaðan er, og tel að þarna sé stigið skref í óheillaátt, það skref, að sumir geta talið sig eiga meira undir í sameign þjóðarinnar en aðrir. Því hlýt ég að mótmæla.

Ég ítreka að lokum þá grundvallarskoðun mína að þetta hús eigi að byggja með sameiginlegu fé landsmanna allra, enda sé það eign þjóðarinnar allrar, og að til þess eigi að veita myndarlega á fjárlögum og ljúka því hið bráðasta.