18.04.1986
Efri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4111 í B-deild Alþingistíðinda. (3786)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mig langar til að beina einni spurningu til hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, 11. þm. Reykv. Hvernig skilgreinir hún hugtakið „eignamaður“ og hvar setur hún mörkin, hverjir eru eignamenn og hverjir eru ekki eignamenn, hversu miklar eignir þurfa menn að eiga? Mér sýnist hún setja mörkin ansi neðarlega ef það er þessi eignarskattsauki sem hér er um rætt, þ.e. eign umfram 1700 þús., að alla skuli kalla eignamenn sem eiga, hvað eigum við að segja, meðalstóra íbúð, varla það. Það væri fróðlegt að heyra nánari skilgreiningu þm. á þessu hugtaki. Fyrst hún flytur hér brtt, á þskj. um að þetta skuli heita átak eignamanna er alveg nauðsynlegt að við fáum skilgreiningu á því hugtaki hvernig Kvennalistinn skilgreinir hugtakið „eignamaður“ og hvar Kvennalistinn setur mörkin í þessu efni.