06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

108. mál, Jarðboranir hf.

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. vonaðist til þess að þeir reimleikar sem hér hefðu farið um hús vegna sementsverksmiðjumálsins væru jafnvel fyrir borð bornir. Það má að vissu leyti segja að frv. sem hér er til umræðu sé ekki með öllu ósamlíkjanlegt sementsverksmiðjufrv. Sú starfsemi sem hér er verið að fjalla um varðar langmestan hluta þjóðarinnar, að teknu tilliti til þess að sem betur fer nýtur langmestur hluti þjóðarinnar jarðvarmans. Að því leytinu er þetta málefni hliðstæða við Sementsverksmiðjuna, bæði málin varða stóran hluta þjóðarinnar, en annars ætla ég ekki að fara nánar út í það.

En þó það sé ekki í mínum verkahring að svara hv. þm. Birni Dagbjartssyni, þar sem hann vék að niðurfellingu aðflutningsgjalda og söluskatts, ætla ég að geta þess að ég hygg að hann hafi ekki lesið frv. nægilega vel yfir, einfaldlega vegna þess að slík ákvæði eru í orkulögum og komu inn í orkulög á vordögum 1983, eins og fram hefur reyndar komið.

Það eru örfá atriði sem ég vildi drepa á varðandi frv. sjálft. Það virðist vera meginástæðan fyrir því að þetta frv. er lagt fram að fremur hafi þrengst um starfsemi á sviði jarðborana á síðari árum samanborið við fyrri tíð. Tölur sýna það og m.a.s. línurit, sem eru fylgiskjal með þessu frv., gefa það til kynna. Þar kemur fram að hlutfall verkefna miðað við heildina vaxa töluvert á vegum Reykjavíkurborgar. Ekki meira um það.

Varðandi 5. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir samráðsnefnd Sambands íslenskra hitaveitna og Jarðborana hf., vil ég láta f ljós efasemdir um virkni slíkrar samráðsnefndar. Ég skal viðurkenna að þetta er spor í rétta átt með tilliti til þess að það er auðvitað bráðnauðsynlegt að sveitarfélög víða um land haldi sínum áhrifum varðandi hugsanleg verkefni, verkefni sem munu verða unnin og þarf að vinna á vegum og fyrir sveitarfélögin á næstu árum. Þau verða vafalaust mikil. Mér blandast ekki hugur um það. Ég hygg að slíkum samráðsnefndum hafi verið komið á fót í nokkrum mæli og við hinar ýmsu aðstæður án þess að þær hafi haft nægileg áhrif.

Ég ætla ekki að gera ágreining um að iðnn. skuli ekki fá þetta mál til umfjöllunar. Ég bjóst reyndar fremur við því. Það er hefð fyrir því að um orkumálefni sé fjallað í iðnn. Ég ætla ekki að gera ágreining um það, en ég mælist til þess að nefndin athugi mjög vel um samráðsnefndina. Reyndar kom hv. þm. Karl Steinar Guðnason inn á þetta og ég tek undir orð hans í því efni. Ég skal ekkert um það segja hvort hugsanlegt er að negla þetta samstarf, ef ég má svo að orði komast, í ríkari mæli niður en gert er hérna. Ég mælist til þess að nefndin, sem um málið fjallar, athugi það.

Í frv. er gert ráð fyrir að nýja fyrirtækið standi síður höllum fæti í þessum rekstri en Gufuborun ríkisins og Reykjavíkurborgar og Jarðboranir ríkisins. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirtæki standi betur sameinað en áðurnefnd fyrirtæki. Í sjálfu sér vil ég ekki vefengja það. Hins vegar kveður 6. gr. á um, og menn verða að fara að lögum, að fastráðnir starfsmenn verði hinir sömu og þá sama tala starfsmanna og verið hefur. Þegar talað er um hagkvæmni í rekstri, skipulagsbreytingar, til þess að ná hagræðingu og hagkvæmni fram hefur mér sýnst að iðulega væri gripið til þess að segja upp starfsfólki. Ég vildi víkja að þessu ef hæstv. ráðh. vildi vera svo vænn að hafa um það einhver orð hvernig hann liti á þetta mál, hvort óyggjandi verður við það staðið sem er tíundað í frv.

Virðulegi forseti. Í raun er það ekki annað en þetta tvennt sem ég vildi víkja að. Hér er um að ræða sameiningu tveggja opinberra fyrirtækja og enda þótt einhverjir hafi látið frá sér fara einhvern tíma að það væri fyrir þeim heilagt mál að selja helst öll fyrirtæki sem væru á vegum ríkisins finnst mér óþarfi að vera að minna á það hér, enda þótt skref eins og þetta séu tekin um sameiningu opinberra fyrirtækja.

Hvað snertir þær dagsetningar sem eru á samningum hér skal ég taka undir að það væri e.t.v. geðfelldara fyrir Alþingi að fjalla um slík mál í tíma. Hins vegar minnir mig að það séu allnokkrar hliðstæður þess að ríkisstjórnir undirriti samninga með fyrirvara um samþykki Alþingis, m.a.s. stærri samninga en hér er um að ræða. Er þá ekki úr vegi að minna á hvernig var um álsamninginn á sínum tíma.