18.04.1986
Efri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ekki er mér nokkur leið að átta mig á því hvernig þessi umræða hefur þróast yfir í að ræða um sköpulag manna, en þetta mál er vitanlega þess eðlis að það er allt hið undarlegasta og ekkert mikið þó að ýmsar hugmyndir komi fram í sambandi við það, jafnvel varðandi fyrirsagnir þess. Það væri auðvitað gott að hafa hér orðabók til að fá úr þessu skorið þannig að ekki þyrftu að vera deilur milli hv. 5. landsk. þm. og hv. 11. þm. Reykv. um hvað væri eignamaður, en ég held að ef hv. þm. hefðu viljað breyta þessu virkilega í þessa veru hefðu þeir orðið að fara yfir í stóreignamenn, ef þeir hefðu viljað taka það alveg skýrt fram að þarna væru eingöngu þeir sem ættu miklar eignir.

En hins vegar verð ég að segja að hin almenna merking þessa orðs, eignamaður, er auðvitað sá sem á miklar eignir, býsna miklar eignir. Það er sú almenna skilgreining sem ég hef heyrt á því orði.

Það er vissulega rétt að það verður um býsna betur stætt fólk að ræða sem greiðir þessi gjöld. Það hefði t.d. verið forvitnilegt, af því að þessi skattur var lagður á í fyrra, að vita hvernig sú útkoma hefði verið, hvernig þessi eignarskattsauki hefði komið út, hverjir hefði fengið þennan eignarskattsauka og þurft að borga hann og hverjir ekki.

Það vill svo til að ég veit svolítið um þetta úr mínu byggðarlagi og það er það undarlega að eignarskattsauka þar greiddi ekki best setta fólkið í byggðarlaginu. Ekki veit ég af hverju það stafaði, en svo var að mig undraði í raun og veru ýmsa þá sem báru þennan eignarskattsauka þá og munu gera það samkvæmt þessu nú. Og það ætlaði ég að segja hv. 11. þm. Reykv. að margir þeir sem báru þennan skatt þá og hljóta að bera hann áfram, þennan eignarskattsauka, voru ekki eignamenn, engan veginn möguleiki á að telja þá eignamenn.

Ég tók eftir því núna þegar ég var að líta yfir þetta frv. að eins og venja er til mun ekki vera um það að ræða að örorkulífeyrisþegar séu þarna undanskildir þessum eignarskattsauka. Er það ekki rétt? Það eru aðeins ellilífeyrisþegar. Örorkulífeyrisþegar, sem með einhverjum hætti hafa önglað sér saman í íbúð, eru ekki þarna. Það hefði verið full ástæða að athuga það fyrr hvort það sé virkilega svo, ef örorkulífeyrisþegar hafa verið búnir að eignast húseign áður en þeir urðu öryrkjar og eru þess vegna með talsverðan eignarskattsstofn, þrátt fyrir sína aðstöðu í tekjum og öðru slíku, ef þeir eiga svo að greiða eignarskattsauka. Það er til þess að kóróna allt annað.

Ég skal svo að öðru leyti ekki skipta mér af þessu, hvorki sköpulagi fólks eða öðru. (Gripið fram í.) Nei, það hafa verið skiptar skoðanir um það hér greinilega. Ég segi aðeins að það hefði verið nauðsynlegt, þegar þetta var gert, að kanna nokkuð í hv. nefnd hverjir greiddu eignarskattsaukann í fyrra, hve margir, hve mikill hluti þjóðarinnar greiddi eignarskattsauka, og fá örlitla úttekt á því hverjir það voru í raun og veru, úr hvaða stéttum þjóðfélagsins þeir voru sem greiddu þennan eignarskattsauka.