18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4120 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er vissulega um mikilsvert mál að ræða og ég ætla ekki að fara að ræða það efnislega hér. Sjónarmið hafa komið fram frá meiri og minni hl. nefndarinnar. Ég tek mjög eindregið undir það að ástandið er slæmt í þessum efnum, m.a. vegna þess hversu ábyrgðin er dreifð og þessi málaflokkar, sem varða mengun á hinum ýmsu sviðum, eru undir mismunandi ráðuneytum, heyra undir mismunandi stofnanir.

Það er alveg rétt sjónarmið sem kemur fram hjá minni hl. nefndarinnar að þessu leyti og það er mikið búið að ræða um nauðsynina á að bæta þar um. Alþb. hefur eindregið mælt með því að stofnað verði sérstakt umhverfisráðuneyti sem reynt verði að fella sem flesta þætti umhverfismála undir.

Ég er alls ekkert sannfærður um að það væri til bóta að fara að taka mengunarmálin í heild sinni nú undir heilbrrn., eins og kemur fram hjá minni hl. En um það geta þó verið deildar meiningar og það getur verið ákveðinn hagur í því að hafa mengunarmálin á höndum eins ráðuneytis, þótt heilbrrn. sé. Ég vil ekki andmæla því að það geti verið viss rök fyrir því. Aðalatriðið er þó hitt, að taka á því stóra verkefni að sameina helstu þætti umhverfismála undir einu ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands.

Frv. til laga um Stjórnarráð Íslands var sýnt hér í vetur og rætt við 1. umr. Ekkert höfum við meira af því spurt síðan og það virðist sem ekki sé mikill hugur hjá ríkisstj. að lögfesta það frv., enda skiptir það í rauninni engu máli hvað um það verður því að það fól ekki í sér neinar marktækar breytingar og hafði inni að halda ýmsa augljósa agnúa nánast til verri vegar en nú er, þannig að ekki syrgi ég það.

Hæstv. félmrh. hefur verið talsmaður þess í tíð þessarar ríkisstj. að koma upp umhverfisráðuneyti eða sameina umhverfismálin undir einu ráðuneyti og þá út frá því sjónarmiði, sem fram kom 1978 hjá þáv. ríkisstjórn, að sameina umhverfismálin málefnum félmrn. Gæti það vissulega verið til bóta og kemur fyllilega til álita, ekki síst ef menn ekki vilja stofna strax um þetta eitt sjálfstætt ráðuneyti. Hæstv. félmrh. hefur oft tjáð okkur að þetta væri alveg að koma, það væri í vændum sérstakt frv. um umhverfismál sem gengi út frá þessari stefnu. En árin hafa liðið og mánuðir hafa liðið og ekkert bólar á þessu frv.

Mér þykir það mjög miður hvernig þarna hefur til tekist. Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hér við umræður um þetta mál hvað veldur og hvers er að vænta. Er einhvers að vænta í tíð núv. ríkisstj., þ.e. á núverandi kjörtímabili, í þessum efnum? Ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti greint okkur frá þessu.