18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Snemma vetrar 1978 gaf þáv. hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson út úrskurð um það að umhverfismál skyldu, að svo miklu leyti sem þau ekki falla til sérstakra ráðuneyta samkvæmt sérlögum, heyra undir félmrn. Gunnar Thoroddsen fyrrv. forsrh. var samþykkur þessari afstöðu sem slíkur og á grundvelli hennar voru samin í félmrn. drög að frv. til laga um umhverfismál og umhverfismálastjórn.

Þegar núv. ríkisstj. tók við gaf hæstv. félmrh. yfirlýsingu um að alveg á næstu mánuðum kæmi frv. frá ríkisstj., sem var mynduð 1983, um samræmda yfirstjórn umhverfismála. Á því frv. bólar ekki neitt og þess vegna tek ég hér undir fsp. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

Varðandi efni þessa máls, sem hér er uppi, vil ég segja að ég mun fyrir mitt leyti styðja brtt. hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um að mengunarvarnir falli undir heilbrrn. og mengunardeild Hollustuverndar ríkisins. Fari svo að sú till. falli mun ég engu að síður greiða fyrir því að þetta frv. nái fram að ganga. Ég tel það ekki rökrétta afstöðu að stöðva málið, eins og hv. þm. leggur til, vegna þess að í frv. eru mörg brýn ákvæði sem nauðsynlegt er að leiða í lög.

En ég ítreka spurningu mína og hv. 5. þm. Austurl. til hæstv. félmrh.