18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4122 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

73. mál, varnir gegn mengun sjávar

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það er ekki að undra að í þessum umræðum um mengun sjávar við Ísland og lagasetningu í því sambandi komi upp spurningin um nauðsynina á setningu heildarlöggjafar um umhverfismál hér á landi. Slík heildarlöggjöf hefur aldrei verið sett en á henni er hin mesta nauðsyn. Það mál, sem hér er á dagskrá í dag, er raunverulega aðeins einn angi þessa stóra máls og sýnir hver nauðsyn er á heildarsamræmingu og skipulagningu í þessum efnum öllum.

Sérálit hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur víkur einmitt að því hvernig eigi að haga skipulagi og stjórnsýslu í umhverfismálunum og setur í hnotskurn einn meginvanda sem hér er við að etja, þ.e. að stjórnsýslan er hér nánast á ringulreið. Með umhverfismál er nú farið í níu af ráðuneytum landsins. Það sjá allir í hendi sér hve skilvirk slík stjórnsýsla er og hvern vanda þetta skapar, bæði fyrir ráðuneytismenn, sem að þessu eiga að standa, og aðra sem nálægt þessum málum koma.

Þess vegna er hin mesta nauðsyn á heildarlagasetningu í þessum efnum. Vegna þeirra umræðna, sem hér hafa átt sér stað um það, og ummæla hæstv. félmrh. áðan vil ég ekki láta hjá líða að minna á að á þinginu 1983-1984 flutti ég ásamt nokkrum þm. Sjálfstfl. frv. til laga um umhverfismál sem var að flestu leyti það frv. sem áður hafði verið lagt fram hér á þingi, ég hygg á þinginu 1980-1981, og var að stofni til frv. sem stjórnskipuð nefnd samdi og skilaði til ríkisstjórnarinnar 1978.

Þetta mál á sér því langa sögu og það ber að harma að hvorki fyrrv. ríkisstjórn né núv. ríkisstjórn hefur séð sér fært vegna ýmissa ástæðna, eins og hér kom fram í máli hæstv. félmrh., að leggja frv. fram um þennan mikilvæga málaflokk hér á þingi.

Framtak okkar þm. á þinginu 1983-1984 leiddi ekki til endanlegrar samþykktar þess lagafrv. Ég og meðflm. mínir hugðumst endurflytja það frv. á næsta þingi, 1984-1985. En þá lýsti félmrh. því yfir að ríkisstj. hefði í huga að flytja sjálf frv. um málið. Af sjálfu sér leiðir og þeim verklagsreglum, sem ríkja hér á þingi, að þegar stjfrv. hefur verið boðað um ákveðinn málaflokk taka ekki einstakir stjórnarþm. frumkvæðið í þeim málum, þó svo að þar hefðum við staðið að frv. um þessi efni.

Ég hlýt að taka undir áskoranir manna, sem hér hafa komið fram, til félmrh. um að nú verði mjög hert á sókninni til þess að ná samkomulagi um það frv. sem hann segir að fyrir liggi í ráðuneyti sínu.

Hér er um miklu meira nauðsynjamál að ræða en í fljótu bragði gæti virst og umræðan hér og þetta frv. um mengun hafsins lýsir því mjög glögglega. Við höfum þegar beðið á þessu þingi í þrjú ár eftir stjfrv. um þessi mál og það væri ekki vansalaust ef slíkt frv. sæi ekki dagsins ljós í upphafi næsta þings.