18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Til umræðu er frv. til l. um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Þetta frv. gengur ekki svo langt að það megi ekki kalla mann kennara þó að hann hafi ekki lokið tilskildum prófum. Hins vegar getur hann ekki kallað sig grunnskólakennara og ekki framhaldsskólakennara. Þetta frv. kemur heldur ekki í veg fyrir að slíkir aðilar geti stundað kennslu. Það er endanlega á valdi ráðherra.

Ég skrifaði undir þetta frv. með fyrirvara. Minn fyrirvari lá í því að sem meginreglu hef ég talið að það ætti ekki að lögvernda starfsheiti og ég hef barist gegn því í mínum þingflokki og einnig í ræðustól í Alþingi og vitna þá til þeirrar umræðu sem fór fram um ljósmóðurmenntun á sínum tíma og þær hugmyndir sem þá voru uppi. Ég barðist harkalega gegn því í mínum þingflokki að það yrði t.d. bannað að selja gleraugu í Hagkaupum. Og mér þótti það skrýtið að við sem vorum í samstarfi við frjálslynda aðila, að því er okkur er stundum sagt, sjálfstæðismenn, máttum þola að slík hringavitleysa færi í gegnum þingið að það væri bannað að selja þar gleraugu.

Ég tel að það sé því vel tímabært að menn taki á þessum málum í heild og hef átt þátt í því sem nefndarformaður að afgreiða út úr nefnd till. og mæla með henni, sem hafði þar stutta viðdvöl, þar sem lagt er til að taka á þessum málum sem heild. Það blasir aftur á móti við í dag að venjulegum þm. er stillt upp við vegg á þann veg að hann á kost á því annars vegar að leggjast gegn því sem 75% kennara í landinu vilja eða að standa að því að stöðva þetta frv. sem e.t.v. um 25% kennara hefðu áhuga á. Þeirra rök fyrir því að þetta eigi að samþykkja eru fyrst og fremst þau að það virðist ekki hafa staðið á Alþingi Íslendinga að hleypa áþekkum frv. í gegnum þingið í löngum bunum.

Mér er ljóst að þann veg er háttað launakjörum kennara að það hefur skapað gífurlegan óróleika í öllu skólastarfi. Og þegar núv. hæstv, menntmrh. leggur á það áherslu að koma þessu frv. í gegnum þingið, m.a. í von um að það skapi betri vinnuanda í skólunum, treysti ég mér ekki til að leggjast gegn því. En ég vil undirstrika engu að síður að þó að ég greiði atkvæði með þessu frv. er mín meginstefna óbreytt, að við eigum að hverfa frá því þjóðfélagi sem lögverndar starfsheiti og taka upp mun frjálslegri starfshætti í þessum efnum því að menntunin mun eilíflega veita forgang sé um raunhæfa þekkingu að ræða.