18.04.1986
Neðri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4139 í B-deild Alþingistíðinda. (3824)

285. mál, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Af óviðráðanlegum ástæðum var sá sem hér stendur fjarverandi lokaafgreiðslu málsins frá nefnd og finn ég mig þess vegna tilknúinn að fara um þetta nokkrum orðum. Mér fer eins og öðrum, sem hér hafa talað, að þrátt fyrir ýmsar efasemdir um framkvæmd þessa máls og afleiðingar þess mun ég fyrir mitt leyti styðja það til þess að það verði að lögum þó að til álita hefði komið, miðað við. eðli málsins, að það hefði verið með sólarlagsákvæðum, þ.e. almennum fyrirvara um að lögin skyldu endurskoðuð að fenginni hæfilegri reynslu.

Nóg hefur verið sagt hér til að gera mönnum ljóst að þetta mál eða lögfesting þess vekur að vissu leyti upp ýmsar spurningar sem torvelt er að fá svör við. Mig langar að nefna nokkur dæmi.

Hér á Alþingi Íslendinga hefur verið flutt mál sem margir telja hið mesta réttlætismál sem er það að meta til starfsreynslu í skyldum störfum reynslu heimavinnandi fólks, eins og ber víst að orða það nú til dags, þ.e. grundvallarsjónarmiðið er fyrst og fremst það, ef við lítum til starfreynslu konu sem búin er að koma upp börnum sínum, annast hússtjórn og rekstur í mörg ár, að mönnum þykir eðlilegt að hennar starfsreynsla verði metin til starfsréttinda og launa á vinnumarkaðnum, a.m.k. að því er varðar skyld störf. Ef hér væri um að ræða undanþágulaust ákvæði þýddi þetta mál hins vegar, sem líka er talið vera réttlætismál, að slík kona þætti ekki gildur starfskraftur til þess að annast hússtjórnarfræðslu eða heimilisfræðslu.

Einhver nefndi hér dæmi af prestinum sem ekki mætti segja til í kristnum fræðum. Það er kannske spurning þegar um er að ræða nýjar greinar sem eru að ryðja sér til rúms, eins og t.d. í rafeindafræði og tölvufræðum. Þar er ástandið oft þannig að þeir sem best eru heima í þeim fræðum, ganga upp í þeim af lífi og sál, eru hin ungu „tölvufrík“ sem fyrst og fremst hafa skólað sig í þessu af áhuga, jafnvel utan skólakerfis. Fræg eru mörg dæmi sem hægt er að nefna um hámenntaða menn, sérhæfða frá erlendum háskólum, sem ekki hafa búið sig sérstaklega undir kennslustarf að aðalstarfi en búa oft yfir þekkingu sem er óhjákvæmilegt að nýta í skólastarfi. Gætum við nefnt t.d. menn með doktorsgráður í stærðfræði, eðlisfræði, ýmsum afleiddum vísindagreinum, - afleiddum en ekki afleitum - rafeindatækni o.s.frv. Hvað um tónsnilling, konsertmeistara, sem búinn er að draga sig í hlé frá vígvellinum með mikla alhliða reynslu og menntun þótt ekki hafi hann próf úr kennaradeild tónlistarskóla og hafi þannig réttindi til kennslu í tónlistarskólum ríkisins?

Þannig mætti nefna fjölmörg dæmi og öll eru þessi dæmi raunverulega þess eðlis að spurningin er þessi: Hver á að mennta kennarann? Og þá kemur upp í huga minn sérstaklega eitt dæmi af framhaldsskólastiginu sem er þróun fjölbrautaskóla. Fjölbrautaskólarnir hafa verið að ryðja sér til rúms. Þeim hefur verið að vaxa ásmegin smám saman samkvæmt þeirri hugmynd að æskilegt sé að sameina hinar margvíslegu brautir í framhaldsnámi, að skipta náminu í almennan menntunarkjarna en síðan sérhæfðar brautir innan sömu skólastofnunar og þar með að færa inn í hinn almenna framhaldsskóla marga þætti sem sérskólar hafa sinnt hingað til sem er því sem næst allt hið víða svið iðnmenntunar í landinu.

Oft og tíðum er það svo að engin lögvernduð kennaramenntun er í þessum greinum. Fjölbrautaskóli sem tekur upp kennslu á ýmsum sviðum iðnmenntunar leitar fyrst og fremst eðli málsins samkvæmt til iðnaðarmanna. Í reynd virðist mér það oft vera svo að það er leitað til manna sem kannske eru búnir að ljúka sínum starfsdegi úti á vígvellinum, eru kannske komnir á efri ár, búa yfir mikilli reynslu og þekkingu, en hafa samkvæmt íslenskri löggjöf enga kennaramenntun eða undirbúning til kennarastarfs en til annarra er hreinlega ekki að leita í þeim greinum.

Og þá er spurningin: Á að gera það að skyldu að slíkir menn afli sér þessara kennsluréttinda með einhverju fræðilegu námi í uppeldis- og kennslufræðum? Almennt séð er um það að segja að við rekum okkur á það að þeir hafa ekki inntökuréttindi til háskólanáms. Fjölmargir af þessum aðilum í sérgreinum hafa engin inntökuréttindi til háskólanáms. Hvernig á þá að gefa þeim kost á að afla sér þessarar menntunar?

Almennt má segja að gallinn við kennslu í uppeldisog kennslufræðum sé sá að ef þau fræði eru kennd á einhverjum námskeiðum út frá almennum fræðilegum forsendum en ekki í tengslum við þá sérstöku grein sem menn hafa sérhæft sig í er það mín reynsla - og tala ég þá af 17 ára kennslureynslu og tíu ára skólastjórareynslu - að þetta nám sé ekki eins hagnýtt og það gæti orðið. Það er allt annar hlutur þjálfun út frá kennslufræðilegum forsendum við kennslu með nútímaaðferðum í eðlisfræði en t.d. að því er varðar kannske tungumál eða þjóðfélagsfræði. Ég hef takmarkaða trú á að maðurinn sem hefur starfað lengi sem sérhæfður maður í iðngrein yrði miklu hæfari kennslukraftur fyrir það að fara á einhverra tuga eininga almennt námskeið í Piaget.

Þetta eru kannske prívatskoðanir og skipta ekki meginmáli en að lokum nefni ég eitt dæmi og styðst þar við eigin reynslu. Fyrir u.þ.b. 16 árum var undirritaður sendur forsendingu vestur á firði til þess að leggja þar grunn að stofnun menntaskóla við erfiðar kringumstæður. Fyrstu árin voru vissulega erfið og það var hörð barátta fyrir því að koma þessari stofnun upp. Ef þá hefðu verið í gildi lög sem hefðu verið undanþágulaus af þessu tagi hefði sú tilraun verið gjörsamlega dæmd fyrir fram til að mistakast, þ.e. ég hefði ekki fengið einn einasta kennara til mín - og var að rifja það upp í huganum undir umræðum - sem hefði fullnægt þessum skilmálum. Að vísu vildi það svo til um sjálfan mig að ég álpaðist einhvern tíma á slíkt námskeið að sumarlagi, reyndar fyrir hendingu, vegna þess að það hafði spurst í bænum að prófessor Símon Jóhannes Ágústsson, sem löngum hafði kennt fyrir tómum sal í Háskóla Íslands það sem háskólanemar kölluðu „fílu“, færi nú á kostum í sérstöku kennaranámskeiði þar sem hann væri að útskýra Piaget með vísan til lífsreynslusagna af skemmtilegu fólki norður á Ströndum upp úr aldamótunum. Og ég stóðst ekki að fara á þetta námskeið og var útskrifaður með láði, ég held við annan mann sem nú er skólameistari á Selfossi, með hæstu einkunn sem við höfum hvor um sig nokkurn tíma fengið í háskólanámi. En hvort þetta breytti öllu um það að ég væri fær til þess að stýra Menntaskólanum á Ísafirði, því ætla ég ekki beinlínis að halda fram.

Kannske vega þessi dæmi ekki þungt. Einna þyngst mundu vega í mínum huga þó þau dæmi sem ég hef tekið varðandi vanda hinna iðnlærðu manna þegar ekki er til annarra að leita í fjölbrautaskólanum og þeir hafa ekki, flestir hverjir, rétt til þess einu sinni að bæta úr þessum meinta menntunarskorti með því að leita náms í kennslufræðum á háskólastigi.

Ég sagði í upphafi máls míns að þrátt fyrir það að þetta mál vekti upp í mínum huga fleiri spurningar en svör ætlaði ég ekki að verða til þess að bregða fæti fyrir þetta mál. Og hvers vegna ekki það úr því að á máli mínu má heyra að ég sjái á því ýmsa annmarka?

Rökin fyrir því eru þessi: Í fyrsta lagi er að mínu mati og samkvæmt minni reynslu ólíku saman að jafna þegar við erum að tala um þær kröfur sem við eigum að gera til kennara sem leggja grundvöllinn að námi fólks og annast kennslu á skyldunámsstigi og sér í lagi þeirra sem leggja grundvöllinn að öllu þessu námi og gegna hinu virðulega starfi barnakennarans, barnafræðarans. Ég tel rökin fyrir því að gera hinar ströngustu kröfur að því er þessa kennslu varðar og þennan þátt skólakerfisins gildari en ella. Mér finnst miðað við reynslu að öðru máli gegni þegar komið er að framhaldsnámi og um er að ræða kennslu í sérgreinum sem oft og tíðum, miðað við fámenni íslenskra byggðarlaga, verður ekki sinnt nema leitað sé út fyrir raðir þeirra sem gera kennslu að aðalstarfi, til manna sem eru væntanlega oft vel menntaðir og sérhæfðir menn í sínum greinum, stunda störf sín á því sviði, en geta orðið skólum í sínu byggðarlagi til algerrar bjargar með því að stunda þar kennslustörf af skyldurækni jafnframt. Það er nærri því ósanngjarnt að ætlast til þess að maður, sem er doktor í byggingarverkfræði og tekur að sér kennslu í framhaldsskóla í byggðarlagi þar sem hann er staddur, fari til háskólanáms í uppeldis- og kennslufræðum fræðilegum í heilt ár til þess að gegna slíku starfi.

Nú kunna einhverjir að segja: Þetta eru hártoganir, það eru undanþáguákvæði. Já, ég viðurkenni það. Og það er m.a. forsendan fyrir því að ég tel fært að styðja þetta. Það eru undanþáguákvæði bæði að því er varðar bráðabirgðagreinina og eins þessa vandræðalegu undanþágunefnd, tvískipta, og auðvitað er með því verið að taka tillit til dæma af þessu tagi.

Annað vegur líka nokkuð í mínum huga og það er þetta: Ef þessi löggjöf getur orðið til þess að auka starfsvirðingu kennara og ef hún getur orðið til þess að styrkja stöðu þeirra í kjaramálum og auðvelda þeim baráttuna fyrir bættum kjörum þá tel ég þetta frv. einnar messu virði og vil láta á það reyna hvernig það gefst í framkvæmd vegna þess að fáum er það ljósara en þeim, sem fengist hafa við kennslu og líta til þeirrar breytingar sem orðið hefur á starfsháttum og starfskjörum kennara, að eitt af meiri háttar umbótamálum í íslensku þjóðfélagi er að auka starfsvirðingu og bæta kjör kennarastéttarinnar. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er þjóðfélag örra breytinga. Hér standa menn í þessum ræðustól lon og don og mæla fyrir og lýsa vonum sínum um að það takist að hasla völl nýjum vaxtargreinum í íslensku atvinnulífi. Sumir leggja meiri áherslu á undur tækninnar og mátt sérfræðimenntunarinnar í þeim efnum en aðrir, en alla vega verður ekkert af þessum draumum, þeir verða sér allir til skammar ef við ekki getum tryggt að skólar okkar, þar sem þessi menntun er kennd, séu mannaðir af vel menntuðum, vel sérhæfðum kennurum sem eru ánægðir í sínu starfi og njóta þeirrar virðingar í sínu starfi sem þeim ber. Kannske er það til of mikils mælst að þetta frv. út af fyrir sig geri mikið til þess að breyta því en ég segi að lokum: Ef það getur orðið til þess að leggja kennarastéttinni lið að þessu leyti, þrátt fyrir ágallana, er ég tilbúinn að styðja það með vísan til þess að það verði endurskoðað að fenginni reynslu.