18.04.1986
Neðri deild: 87. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4189 í B-deild Alþingistíðinda. (3844)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að undirstrika það einu sinni enn að aðalatriðið í þessu máli er það að hér erum við að fjalla um frv. sem byggt er á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins með sérstökum hætti. Við verðum náttúrlega að gera ráð fyrir því að þegar stjórnvöld staðfesta slíkt samkomulag sé ekkert óeðlilegt við það að þeir aðilar sem stóðu að þessu samkomulagi og eru höfundar þess komi sínum sjónarmiðum fram í því frv. um breytingu á húsnæðislöggjöfinni sem er aðalatriðið að þeirra mati í sambandi við þetta mál í heild. Þess vegna er ákaflega erfitt fyrir félmrh. eða hvern sem væri úr ríkisstj. að fara efnislega ofan í aðrar kröfur en þar hafa verið settar fram og ég legg mikið upp úr því að gert er ráð fyrir að nefndin, sem samdi þetta frv., komi á fund félmn. á morgun eða þegar þær halda fund og geri grein fyrir hverju atriði sem er í þessu frv. og hvaða rök liggja á bak við þær útfærslur sem koma þar fram.

Ég vil aðeins hlaupa á örfáum atriðum sem hér hafa komið fram. Ég vil fyrst nefna vegna spurningar frá hv. 7. landsk. þm. í sambandi við fsp., sem ekki hefði enn verið svarað en skriflegt svar átti að koma við, fsp. frá hv. 3. landsk. þm., að það svar er í vinnslu og reyndist erfiðara að vinna það heldur en ég gerði ráð fyrir en því verður svarað formlega. Ég þori ekki að fullyrða það hér í ræðustól nú að það nái fyrir þinglok inn á Alþingi en alla vega verður það afhent undir eins og það verður tilbúið.

Varðandi það sem hv. þm. spurði einnig um í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna, en gert er ráð fyrir að fé hans verði aukið um 200 millj. á þessu ári, er því er til að svara að það er búið að ákveða útlán til 1. júlí á þessu ári úr sjóðunum, en eftir er að fjalla um útlánaáætlunina fyrir síðari hluta ársins. Gert er ráð fyrir að þarna verði um tilfærslu að ræða þannig að það geti komið til greina að Byggingarsjóðurinn fái þessa aukningu úr því fjármagni sem um er að ræða.

Í sambandi við fsp. hv. 3. þm. Reykv. vil ég aðeins segja að það er með hann eins og fleiri hv. þm. að þeir virðast ekki hafa heyrt þær upplýsingar sem ég gaf við framsögu í málinu. Ég vil segja við hv. þm. að milliþinganefndin heldur áfram og hún hefur það verk að vinna, eins og ég tók fram í framsöguræðu minni fyrr, að móta framtíðarstefnu í húsnæðismálum. Hún á að vinna úr ýmsum atriðum sem meira að segja koma fram í sambandi við þessa samninga eða samkomulag sem um er að ræða og ég vonast til þess að hún nái saman um að marka stefnu og vinni úr þeim skynsamlegu tillögum sem allir stjórnmálaflokkarnir hafa sent inn til hennar um framtíðarlausn húsnæðismála.

Hv. þm. spurði einnig um það sem ég þóttist hafa svarað. Ég gaf upplýsingar um aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árinu 1980 eða síðar sem var eitt atriðið í þessu samkomulagi. Þar er um að ræða fjármagn upp á 500 millj. kr. og hluti af því er innifalinn í þeim kaupum ríkissjóðs á þessum 925 millj. sem lífeyrissjóðirnir ætla að leggja fram á þessu ári. 300 millj. eiga að koma strax og það hefur komið fram hjá forustu verkalýðshreyfingarinnar að það mun ekki standa á þessu fjármagni til þess að nota í þessu skyni.

Ég gaf þær upplýsingar áðan að það eru um 1000 umsóknir sem hafa borist um þessi viðbótarlán frá því að ráðgjafarstofnunin fór að vinna að þessu í vetur og í gær var búið að afgreiða rúmlega 400 umsóknir, að fjárhæð um 70,5 millj. kr. sem búið er að greiða út af þessu fjármagni. Núna eru í vinnslu 493 umsóknir sem verður reynt að hraða. Ég gaf einnig upplýsingar um það að tekið var í notkun nýtt húsnæði - einmitt í samræmi við þetta samkomulag - sem ráðgjafarstofnunin er flutt í og búið að auka mannafla til þess að hraða mjög afgreiðslu þessara mála.

Í sambandi við lengingu lána í 10 ár minnst, eins og lögð er áhersla á í þessu samkomulagi, gaf ég upplýsingar um það að áður hefði verið búið að semja við bankakerfið, um að skuldbreyta allt að átta árum, sem hefur gengið mjög greiðlega fyrir sig. Síðan hefur verið unnið að því að fá bankana til að viðurkenna formlega þessa lengingu í a.m.k. 10 ár. Fyrir nokkru síðan sendi ég formlegt bréf til viðskrh., sem sendi það aftur til bankakerfisins, um það að fá skýr svör um þetta, þannig að hægt væri að birta það opinberlega að bankakerfið hefði viðurkennt það að lengja þessa fyrirgreiðslu í tíu ár. Sumir hafa þegar gert það eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá stofnunum.

Könnun á þörf á leiguíbúðum var atriði sem Húsnæðisstofnun fékk strax fyrirmæli um að setja í gang og eftir þeim upplýsingum sem ég hef var öllum sveitarfélögum landsins gefinn ákveðinn frestur til að gefa upplýsingar um þessa þörf og síðan verður tekin ákvörðun um það, þegar þau svör fara að berast, hvort aðrir aðilar en Húsnæðisstofnunin sjálf og hennar mannafli verða fengnir til að vinna úr þeim svörum eða setja þau upp á skipulegan hátt, þannig að hægt sé að taka ákvörðun út frá því sem verður bitastætt um stefnuna í þeim málum. Í sambandi við húsnæðisafsláttinn eða breytingu á skattalögum, eins og kemur fram, eitt mikilvægt atriði í þessu samkomulagi, kom fram í því sem ég skýrði frá í framsögu í dag að þessi nefnd undir forustu hagstofustjóra er þegar farin að vinna að mótun hugmynda um það hvernig með þetta atriði eigi að fara og gera ákveðnar tillögur um það og eins og kom fram í bréfi nefndarinnar til ríkisstj. og bréfi forsrh. til nefndarinnar er gert ráð fyrir að hraða þessu atriði sérstaklega. Þetta er mikilvægt og reynir sjálfsagt á afstöðu ýmissa aðila hvernig menn vilja breyta þessu atriði.

Í sambandi við fsp., sem hv. 2. landsk. þm. bar fram og eru hér á þremur blöðum, vil ég vísa til þess sem ég sagði fyrr, að ég tel að réttast væri að taka þetta upp við nefndina, ýmis svona atriði, eins og hvernig með þá á að fara t.d. sem hafa verið í hlutastarfi og greitt í samræmi við það í lífeyrissjóði og eins í sambandi við skipti milli sjóða og þá sem kunna að vera utan við sjóði. Ég geri alveg ráð fyrir, eins og ég sagði í framsögu, að þetta sé vandamál sem þurfi að athuga alveg sérstaklega, hvort um þetta er að ræða, að það sé fólk í þjóðfélaginu sem verður utanveltu við þetta nýja samkomulag. Það er ekki gert ráð fyrir því og það verður að reyna að finna lausn á því.

Í sambandi við fólk með sérþarfir, sem hv. þm. spurði um, held ég að gæti dálítils misskilnings og ég vona að nefndin muni þá útskýra það nánar fyrir félmn. Í 23. og 24. gr. gildandi laga eru ákvæði um sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir. Þar er gert ráð fyrir að þetta fólk fái lán sem er komið til viðbótar lánum samkv. aðalreglunni. Og eftir því sem ég túlka þetta geta þessi lán, í þessum tilfellum, sem fara til fólks sem vissulega þarf að fá alveg sérstaka fyrirgreiðslu, numið miklu hærri upphæðum en kemur t.d. til greina með 2,1 eða 1,5 millj. eða hvernig sem það yrði. Það yrði viðbótarlán. Það er í samræmi við 23. og 24. gr. gildandi laga ef menn lesa þær nánar, þannig að það þarf að skoða það og ég held að það mæti þessu alveg.

Í sambandi við stærðarmörkin, sem kom einnig fram hjá hv. 5. þm. Reykv. og 2. landsk. þm., get ég verið alveg sammála um það. Ég er í vafa um það hvort stærðarmörkin í frv. eru rétt sett og get lýst því yfir að ég tel að það sé sjálfsagður hlutur að skoða það nánar. Við lögðum mikla vinnu í það á árinu 1984, bæði með skipun opinberra nefnda og ýmissi annarri vinnu í stofnuninni sjálfri, að setja nýjar stærðarreglur sem takmörkuðu mjög rétt manna til að byggja eins og þeim sýndist miðað við það að taka opinber lán og ég er vel inni á því að það þurfi að skoða það nánar.

Varðandi þessar nýju hugmyndir eða tillögur Alþfl. í sambandi við kaupleiguíbúðir get ég tekið undir það að þarna sé um merkilegar tillögur að ræða og ég hef sagt það áður að ég tel að það þurfi að skoða þær vel. En það er eitt sem þarf þá að gera sér grein fyrir: Við höfum ekki rúm fyrir allar þessar hugmyndir undir félagslega kerfinu og ég mundi telja að miðað við þessar hugmyndir og útlistun á þeim frá hendi flytjanda komi til greina að þær eigi þá að leysa af hólmi verkamannabústaðakerfið. Mér sýnist að það sé beinlínis stefnt að því að þetta eigi að koma í staðinn fyrir það.

Hins vegar get ég sagt það að ég er löngu kominn á þá skoðun að það sé e.t.v. rétt að fara að stokka húsnæðiskerfið þannig upp að það sé einn byggingarsjóður en fleiri útfærslur á félagslegri aðstoð við fólk séu þá settar í löggjöf og ekki þurfi að hafa þessa tvískiptingu. Mér sýnist aðilar vinnumarkaðarins að vissu marki, a.m.k. miðað við áhersluatriðin, jafnvel ganga út frá því að þarna sé byrjun á því að breyta þessu kerfi.

En að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um þetta nú en ég sé í þessu kerfi með kaupleiguíbúðir að þar er vissulega athyglisvert mál á ferð. Það verður þá að gera upp við sig um leið breytingar á verkamannabústaðakerfinu.

Í sambandi við byggingu þjónustuíbúða fyrir aldraða vil ég benda á að í gildandi lögum, í 15. og 16. gr., eru möguleikar á því að koma mjög til móts við þetta fólk og ég veit að Húsnæðisstofnun, að minni kröfu frá því fyrr í vetur, er að athuga með nýjar útlánareglur til þess að mæta þörfum þessa fólks þar sem svo stendur á að ef það getur losnað við íbúðir sínar verði hægt að veita því sérstaka fyrirgreiðslu til þess að komast í hentugra húsnæði eða koma sér fyrir í þjónustuíbúðum sem mörg sveitarfélög vilja byggja með sérstökum hætti og leysa þannig vanda þessa fólks. Það eru einmitt mörg sveitarfélög sem eru að gera það og að mínu mati þarf að lagfæra lánakerfið til þess að auðvelda þetta á sérstakan hátt. Það er einmitt það sem Húsnæðisstofnunin er að taka ákvörðun um og ég vitna þar í mjög merka tilraun sem þeir hafa gert og framkvæmt t.d. á Seltjarnarnesi, og í nokkrum sveitarfélögum eru framkvæmdir í gangi.

Herra forseti. Ég held að ég fari ekki nánar út í þetta en vísa á það sem ég sagði áðan að á fund nefndanna kemur einmitt nefndin og hún á að geta útskýrt, og menn þá tekið afstöðu til þess, hvort þarf að breyta ýmsum þáttum til þess að tryggja að ekki verði einhverjir og margir út undan í þessu kerfi því það hefur ekki verið meiningin að mínu mati.