19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4193 í B-deild Alþingistíðinda. (3847)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti sjútvn. um frv. til l. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem liggur fyrir á þskj. 766 og nál. á þskj. 957 og brtt. á þskj. 958.

Nefndin hélt alls sex fundi um málið og var sá háttur hafður á að sjútvn. Nd. var einnig á þeim fundum þegar tekin voru viðtöl við hagsmunaaðila. Fengnir voru til viðtals fulltrúar eftirtalinna aðila: Fiskifélags Íslands, Fiskveiðasjóðs, tryggingafélaga og sjútvrn., enn fremur forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem var formaður nefndar þeirrar er undirbjó frv. Einnig bárust skriflegar ábendingar frá Fiskifélagi Íslands, sjútvrn., félögum sjómanna og skipstjóra á Norðurlandi, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum grásleppuhrognaverkenda og Samvinnutryggingum.

Í umfjöllun nefndarinnar var lögð rík áhersla á það að bakgrunnurinn að þessu frv. væri sá að hér væri um samkomulag að ræða um stóru atriðin í frv. milli hagsmunaaðila og þess vegna væri ekki rétt að brjóta upp það samkomulag í meginatriðum, enda var ekki ágreiningur í nefndinni um meginefni frv. sem, eins og fram kom í framsögu, er að meginefni um það að einfalda sjóðakerfi sjávarútvegsins og leggja niður þær millifærslur sem þar er um að ræða.

Eigi að síður gerði nefndin tillögur um breytingar á frv., sem að vísu eru ekki stórvægilegar í sniðum en allnokkrar breytingar þó, og þær brtt. liggja fyrir á þskj. 958. Ég vil geta þess að af misgáningi hér í gær féllu niður tvær greinar úr þessum brtt. Þeim verður dreift eftir augnablik og mun ég gera grein fyrir þeim í þessari framsögu. Áður en ég geri grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til vil ég geta þess að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

1. brtt. sem nefndin leggur til er við 8. gr. frv., að 1.- 3. tölul. orðist svo:

1. Að 48% sé greitt til lífeyrissjóða sjómanna.

2. Til greiðslu iðgjalda af slysa- og örorkutryggingu skipverja, sams konar þeim sem samið er um í heildarkjarasamningum sjómanna og útvegsmanna, þar á meðal vegna grásleppuveiða, svo og af vátryggingu báts og eiga þessi ákvæði við allar veiðar smábáta, einnig við grásleppuveiðar, samkvæmt reglum sem sjútvrh. setur.

3. Til Landssambands smábátaeigenda, þar með vegna grásleppuveiða.

Breytingin sem þarna um ræðir er sú að þarna er getið sérstaklega um að þessar greiðslur séu vegna grásleppuveiða og er það í samræmi við ábendingar og óskir þeirra aðila. Í nefnd þeirri sem vann að frv. áttu sæti allir helstu hagsmunaaðilar innan sjávarútvegsins utan Landssambands smábátaeigenda og Samtaka grásleppuhrognaframleiðenda. Þau samtök töldu að lítið hefði verið haft við sig samráð í þeirri nefnd sem vann frv. Þess vegna ræddi nefndin ítarlega þeirra sjónarmið og kallaði þá fyrir.

Landssamband smábátaeigenda var stofnað í desember s.l. og það hefur sýnt sig að víðtæk samstaða er innan samtakanna þó að þau séu ekki komin enn á fullt skrið, m.a. vegna þess að þau hafa ekki enn þá fengið það fjármagn sem þau þurfa til starfsemi sinnar. Það átti að tryggja félaginu þetta fjármagn með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum með lagabreytingu sem enn er í meðförum Alþingis. Með þessu frv. er lagt til að þau lög falli úr gildi, eða lögin um útflutningsgjald, og þar sem búast má við því að samkomulag geti orðið með þessum aðilum, þessum samtökum um sameiginlega hagsmuni, félagsmálastarfsemi og fleira, þá þykir rétt að hækka framlag til Landssambands smábátaeigenda úr 3% í 5% og taka það beinlínis fram í greininni að grásleppuveiðar heyri þar undir og taka þar af allan vafa.

Nefndin flytur brtt. við 10. gr. frv. sem mun verða dreift hér, en hún féll niður úr þessari prentun í gær og ég vona að ég megi, með leyfi forseta, fara yfir þá till. við þessa framsöguræðu. 10. gr. í frv. hljóðar svo:

„Lífeyrissjóður sjómanna skal annast skiptingu þess fjár, sem inn kemur skv. 1. tölul. 8. gr. og 1. tölul. 9. gr. á reikning hvers skips, til hlutaðeigandi lífeyrissjóða í hlutfalli við iðgjaldsskyldan aflahlut skipverja.“

Það hefur komið fram ótti um það að þetta leiði til þess að þetta fé safnist saman á einum stað í einum stórum sjóði, Lífeyrissjóður sjómanna geymi þetta fé t.d. í banka hér í Reykjavík. Þess vegna þykir rétt að orða greinina þannig að það sé skýrt að þessar greiðslur mega ganga beint í banka á viðkomandi stað, en Lífeyrissjóður sjómanna hafi eftirlitshlutverk með þessum greiðslum, að þær fari fram, og að greinin orðist svo:

„Lífeyrissjóður sjómanna skal hafa yfirumsjón með því að fé, sem inn kemur skv. 1. tölul. 8. gr. og 1. tölul. 9. gr., sé skipt og greitt inn á reikning hvers skips til hlutaðeigandi lífeyrissjóða í hlutfalli við iðgjaldsskyldan aflahlut skipverja.“

Við 15. gr. er brtt. þar sem a-liður hennar orðist svo: „Til fiskvinnslufyrirtækja í hlutfalli við áætlaða uppsöfnun söluskatts til hverrar vinnslugreinar, en í hlutfalli við fob-verðmæti útflutningsframleiðslu til hvers fyrirtækis innan greinar eftir reglum sem sjútvrh. setur í samráði við Samtök fiskvinnslufyrirtækja. Heimilt er að verja hluta af þessu fé til greiðslu árgjalda til Útflutningsráðs Íslands með samþykki hlutaðeigandi fiskvinnslufyrirtækja.“

Hér er kveðið á um fjármögnun útflutningsráðs en frv. um það lá hér fyrir þessari hv. deild og var nýlega afgreitt til Nd. með þeim fyrirvara að tekjuliðinn af útflutningsgjaldi, sem reiknað er með í frv., verði að endurskoða. Hér er lagt til að um sinn eða á þessu ári verði fjármögnunin leyst á þennan hátt með hluta af endurgreiðslu söluskatts til fiskvinnslufyrirtækja en með samþykki þessara fyrirtækja og í samráði við þau.

Við 17. gr. er flutt eftirfarandi brtt., að við 1 mgr. bætist:

„Þá er sjútvrh. heimilt að fella niður útflutningsgjald af fóðurlýsi sem framleitt er og/eða flutt út frá ársbyrjun 1986 til 15. maí 1986. Enn fremur skal ekki innheimta útflutningsgjald af þeirri skreið sem flutt er út eftir 1. jan. 1986 en framleidd var fyrir 1. des. 1984.“

Þessi liður er til kominn vegna þess að hér hefur verið til umfjöllunar frv. til l. um breytingu á lögum nr. 52 28. apríl 1983, um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það liggur hér fyrir samhliða þessu frv.

Samþykkt þessa frv. felur í sér að það þarf að huga að þeim heimildum sem eru í fyrra frv. um útflutningsgjald af fóðurlýsi og útflutningsgjald af skreið það sem af er árinu. Það er talið eðlilegt að ákvæði þessa efnis komi inn í þetta frv. en þessi ákvæði eru til komin vegna þeirra erfiðleika sem hafa verið í þessum greinum.

Þá er örlítil breyting á lokalið þessarar greinar sem er nú til komin vegna þess að nafn Fiskifélags Íslands féll niður úr prentun. Það er lagt til að lokaliður greinarinnar orðist svo: „Til þess að auðvelda framkvæmd ákvæða þessarar málsgr. skulu allir framleiðendur sjávarafurða skyldir að senda Fiskifélagi Íslands sérstakt yfirlit yfir birgðir sjávarafurða miðað við 14. maí 1986.“ En nafn Fiskifélags Íslands féll niður úr prentun frv.

Þá eru breytingar á ákvæði til bráðabirgða. Þar er lagt til að c-liður orðist svo:

„Af eignum Tryggingasjóðs fiskiskipa, sem eftir standa þegar skuldbindingum hans samkvæmt lögum nr. 52/1983, með síðari breytingum, og reglum settum samkvæmt þeim, er lokið, skal verja 12 millj. kr. til öryggismála og björgunaræfinga sjómanna á fiskiskipum í samráði við öryggismálanefnd sjómanna og samtök sjómanna og útvegsmanna.“ - Þarna kemur inn að þessu fé á að verja í samráði við þá öryggismálanefnd þingmanna sem starfar í þessum málefnum, og í samráði við samtök sjómanna og samtök útvegsmanna. - „12 millj. kr. til undirbúnings byggingar sjávarútvegshúss í Reykjavík samkvæmt tillögum byggingarnefndar hússins er sjútvrh. skipar fyrir árslok 1986," - breytingin frá frv. er sú að lagt er til að sjútvrh. skipi byggingarnefnd hússins og ég vil segja fyrir árslok 1986 þannig að það sé ákveðinn aðili og liggi fyrir ákveðinn samningur og áætlun um byggingu þessa húss og séu ábyrgir aðilar þar í forsvari áður en þetta fé er reitt af hendi. - „og 3 millj. kr. til Landssambands smábátaeigenda, m.a. til að ljúka skuldbindingu Samtaka grásleppuhrognaverkenda við Landsbanka Íslands, sbr. lög nr. 79/1984.“ Þetta ákvæði er komið inn vegna þess að hluti útflutningsgjalds, sem ganga átti til Fiskveiðasjóðs, gekk til þess að jafna skuld grásleppuhrognaframleiðenda í Landsbankanum, en sú skuld var til komin vegna fjárfestingar í Frakklandi sem skilaði sér ekki og lentu stjórnarmenn í samtökunum í persónulegum ábyrgðum fyrir þessum skuldum. Þetta mál var leyst með sérstökum lögum héðan frá Alþingi og var útflutningsgjald látið ganga til greiðslu á þessari upphæð. Það þykir rétt að ljúka þessu máli í tengslum við þessa lagasetningu þannig að möguleikar skapist til þess að Landssamband grásleppuhrognaframleiðenda geti gengið inn í Landssamband smábátaeigenda á jafnréttisgrundvelli og þessi skuld komi ekki í veg fyrir samstarf þessara aðila. - „Eftirstöðvar eigna Tryggingasjóðs skulu renna til Fiskveiðasjóðs Íslands.“

Þá er að d-liðurinn orðist svo:

„Af eignum Úreldingarsjóðs fiskiskipa, sem eftir standa þegar skuldbindingum hans samkvæmt lögum nr. 52/1983, með síðari breytingum, er lokið, skal verja 8 millj. kr. til varðveislu sjóminja og sjávardýra að fengnum tillögum þjóðminjavarðar og 4 millj. skulu renna til Fiskimálasjóðs til að styrkja rannsóknar- og tilraunastarfsemi í sjávarútvegi á þessu ári. Eftirstöðvar eigna Úreldingarsjóðs fiskiskipa skulu varðveittar á bankareikningum og í skuldabréfum með bestu kjörum þar til sett hafa verið ný lög um starfsemi hans og ákvæði um Aldurslagasjóð fiskiskipa í II. kafla laga nr. 37/1978, um samábyrgð Íslands á fiskiskipum, hafa verið endurskoðuð.“

Þarna eru tvær breytingar. Framlag til varðveislu sjóminja er hækkað um 2 millj. og bætt inn að þarna sé um varðveislu sjóminja og sjávardýra að ræða, en þar eru höfð í huga sædýrasöfn og þau söfn þar sem sjávardýr, lifandi dýr eru varðveitt eða höfð til sýnis. Í öðru lagi er sú breyting að ákveðið er að 4 millj. skuli renna til Fiskimálasjóðs til þess að Fiskimálasjóður geti haldið áfram starfsemi sinni út þetta ár og staðið við skuldbindingar sínar.

Þá er það að e-liður orðist svo:

"Sjútvrh. staðfestir lokauppgjör Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, Tryggingasjóðs fiskiskipa og Úreldingarsjóðs fiskiskipa.“

Þess má geta að þessum sjóðum hefur nú þegar verið skrifað og þeir beðnir um að staðfesta stöðu sína nú og lokauppgjör þeirra verður síðan staðfest af sjútvrh. ef þessar brtt. ná fram að ganga.

Ég hef lokið við að fara yfir og gera grein fyrir þeim brtt. sem nefndin flytur við frv. Hér er um mjög stórt mál að ræða og allflókið vegna þess að hér er verið að leggja niður og breyta verulega viðamiklu kerfi. Nefndinni hafa borist erindi frá Skipstjórafélagi Norðlendinga, Sjómannafélagi Eyjafjarðar, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sjómannafélagi Ólafsfjarðar, Verkalýðsfélaginu Vöku, Verkalýðsfélagi Þórshafnar og Verkalýðsfélagi Skagastrandar vegna launagreiðslna til áhafna á frystitogurum sem eru á bolfiskveiðum. Þær telja sig búa við skarðan hlut samkvæmt frv. en það hefur verið staðfest af fulltrúum sjómannasamtakanna að hér hafi verið um samkomulag að ræða og millifærslu milli þeirra sem eru á frystitogurum sem stunda bolfiskveiðar og til þeirra sem stunda rækjuveiðar og annarra togara. Þetta mál verði síðan að taka upp aftur í tengslum við kjarasamninga þar sem hér sé um ákveðið samkomulag að ræða sem ekki sé rétt að brjóta upp. Þess vegna leggur nefndin ekki til að þarna verði gerðar breytingar á.

Ég tel rétt að geta þess að Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hafa skrifað útgerðarmönnum eftirfarandi erindi sem ég vil lesa upp, með leyfi forseta:

„Til þess að unnt væri að einfalda núgildandi sjóðakerfi, eins og fram komið frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins gerir ráð fyrir, var skiptaverðmæti á frystiskipum á botnfiskveiðum ákveðið 70% af fob-verðmæti. Nú er þetta hlutfall 72,25% af fob-verðmæti auk þess sem greiddar eru verðbætur af afla þessara skipa sem koma til skipta.

Ljóst er að þar sem verðbætur falla niður og skiptaverð til sjómanna lækkar frá því sem nú er samkvæmt frv. koma tekjur sjómanna á frystiskipum til með að lækka verulega. Þrátt fyrir að samhliða breytingum á sjóðakerfinu falli verðbætur og bætur Aflatryggingasjóðs niður fær útgerðin til sín útflutningsgjaldið sem nú er 5,6% af fob-verðmæti. Við þessa breytingu er því ljóst að útgerðin heldur sínu en sjómenn á þessum skipum bera skarðan hlut frá borði. Mikil óánægja er meðal sjómanna á þessum skipum með þá tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir, sem eðlilegt er.

Með þetta í huga fara Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands fram á það við útgerðir þessara skipa að þær hækki álag á aflahlut sjómanna á þessum skipum samkvæmt grein 5.26 í kjarasamningi í 13,5% á skipum undir 500 brúttólestum og í 12,5% á skipum yfir 500 brúttólestum til þess að þeir haldi óskertu skiptahlutfalli eftir að einföldun sjóðakerfisins hefur átt sér stað. Með því væri komið í veg fyrir megna óánægju á þessum skipum.“

Ég tel rétt að láta þetta erindi koma fram hér en nefndin leggur ekki til að breytingar verði gerðar hér á. Það voru gerðar skriflegar athugasemdir við tryggingakaflann í frv. þar sem eitt tryggingafélag, Samvinnutryggingar, eins og hefur komið fram í nál., telur það ekki eðlilegan gang mála að tryggingafé renni inn á reikning hjá LÍÚ og sé greitt þaðan aftur til þeirra félagsmanna. Nefndin telur það vera mál félagsmanna í LÍÚ hvernig þeir standi að þessum málum og leggur ekki til að það sé gerð breyting þar á.

Ég vil að lokum geta þess að nefndinni hefur borist erindi frá Félagi rækju- og hörpudisksframleiðenda. Þar sem mér barst þetta erindi ekki fyrr en málið var komið hér á dagskrá og fundur hafinn legg ég til að sjútvn. Nd. fái það til meðferðar og kanni það mál.

Rækju- og hörpudisksframleiðendur gera athugasemdir í þremur liðum. Í fyrsta lagi telja þeir að rækju og hörpudisksframleiðendur hafi undanfarið fengið mun minna fjármagn úr þeim sjóðum sem nú á að leggja niður en fyrirtæki í öðrum greinum fiskvinnslu. Af þeim sökum fögnum við fram komnu frv. í flestum atriðum, segja þeir.

Í öðru lagi: „Í bráðabirgðaákvæði í frv. kveður á um að hráefnisverð skuli vera 58% hærra en það verð sem gilt hefði óbreytt í maíbyrjun 1986 að meðtöldum helmingi verðbóta úr verðjöfnunardeild Aflatryggingasjóðs. Þetta er of mikil hækkun á rækju og hörpudiski. Stafar það af því að nú eru greiddar uppbætur á allar tegundir sjávarafla utan rækju og hörpudisks. Þessar uppbætur eru 6%. Miðað við samanburð á hráefniskostnaði vinnslugreina skv. rekstraráætlunum sem fylgja frv. kemur fram að hækkun frá núgildandi lágmarksverði verðlagsráðs er áætluð 58% í rækjuvinnslu, en 63-64% í öðrum greinum. Því ætti bráðabirgðahækkun rækju og hörpudisks að vera 52-53 % .

Í frv. er gert ráð fyrir endurgreiðslu söluskatts. Samkvæmt áætlun virðist eiga að viðhalda misrétti sjóðakerfisins og halda hlutfalli á greiðslu til rækjuvinnslu mun lægra en til annarra greina. Við vonum að þér sjáið yður fært að vinna leiðréttingu á þessu misvægi við afgreiðslu frv.

Það má að lokum geta þess að útreikningar á afkomu rækjuvinnslu gefa ekki rétta mynd að raunverulegri stöðu vinnslunnar.“

Ég tel rétt að láta þetta koma fram við umræðu málsins, en að þessi atriði séu tekin til athugunar í framhaldsvinnslu frv.

Ég tel að ég hafi nú gert grein fyrir þeim breytingum sem nefndin leggur til, en einstakir nefndarmenn munu gera grein fyrir þeim fyrirvörum sem þeir hafa við einstakar brtt. að gera við umræðu málsins.