19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3848)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég mæli þau reyndar fyrir hv. 4. þm. Vesturl. sem hefur fjarvistarleyfi. Hann átti hlut að því, hv. þm. Skúli Alexandersson, að semja þetta frv. og gerði auk þess rækilega grein fyrir sjónarmiðum sínum í heild við 1. umr. þessa máls. Eins og kemur fram í nál. er hann samþykkur þessu frv., meginefni þess, af eðlilegum ástæðum.

Við þessa umræðu bað hann mig að koma á framfæri athugasemdum við tvö atriði eða áréttingu við annað og athugasemd við hitt.

Annað atriðið varðar 2. brtt. á þskj. 958, síðustu setninguna þar. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta: „Heimilt er að verja hluta af þessu fé til greiðslu árgjalda til Útflutningsráðs Íslands með samþykki hlutaðeigandi fiskvinnslufyrirtækja.“

Hér þykir honum í raun gengið þvert á megintilgang þessa frv., þarna sé nýr millifærsluangi að skjóta upp kollinum til að bjarga framgangi annars frv. hér að Alþingi, þ.e. frv. um útflutningsráð, þannig að það komist klakklaust hér í gegn.

Hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson vildi koma andstöðu sinni við þetta atriði á framfæri og koma þeim boðum til virðulegs forseta að láta greiða atkvæði sér í lagi um þessa setningu, þ.e. lokasetningu 2. brtt. við 15. gr., „heimilt er að verja hluta af þessu fé til greiðslu árgjalda til Útflutningsráðs Íslands með samþykki hlutaðeigandi fiskvinnslufyrirtækja.“ Kem ég því hér með á framfæri.

Í öðru lagi vill hv. þm. koma öðru að. Það er varðandi 3. lið 7. gr. frv. Það er í sambandi við miðlun á því fé sem haldið er eftir skv. 5. gr. Þar segir í 3. lið, með leyfi forseta: „2% af hráefnisverði greiðist inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa“, svo skemmtilegt orðalag sem er nú á þessu.

Hann vill láta koma fram að það hafi mjög skýrt verið tekið fram í nefndinni og hann skilji væntanlega framkvæmd þessa svo að Fiskifélag Íslands skuli hér eftir sem hingað til annast um þennan þátt, hafi öll gögn til þess, alla burði til þess, enda hafi Már Elísson forstjóri Fiskveiðasjóðs sérstaklega beðið um það í nefndinni að „bikar þessi yrði frá þeim tekinn“, svo orðrétt sé vitnað til þess sem hv. 4. þm. Vesturl. vildi láta kom hér fram.

Annað erindi átti ég ekki í þennan ræðustól og vona að skilaboð hafi komist á framfæri með viðunandi hætti.