19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3850)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Þetta mál er, eins og síðasti hv. ræðumaður lýsti, mjög þýðingarmikið fyrir sjávarútveginn og það er raunar merkilegt hversu víðtæk samstaða náðist um það í vinnu þeirrar nefndar sem undirbjó málið. Ég lýsti því yfir í 1. umr. að ég vildi fá að skoða þetta mál vel og ég tel mig hafa gert það á sex nefndarfundum. Þó er eflaust eitthvað enn sem hugsanlega mætti betur fara. Ég hef reyndar fengið um það ábendingar nú. Það verður þó að álykta að þeir hv. þm. sem voru í undirbúningsnefndinni hafi verið vel á verði um það hvað þinglegt væri og talið allt með felldu að því leyti. Ég get ekki dæmt um það. Ég efast ekki um að þetta mál eins og svo mörg önnur þurfi endurskoðunar við og þegar til framkvæmdanna kemur þá kemur ýmislegt í ljós sem menn hafa kannske ekki gert sér grein fyrir um framkvæmdaatriði.

Auðvitað er ekkert mál öllum að skapi. Menn hafa gert athugasemdir við það og séð eftir því að hin almenna deild Aflatryggingasjóðs skuli vera lögð niður. Menn komu fram með athugasemdir við okkur nefndarmenn um miðstýringu vátryggingarfjár í gegnum Landssamband ísl. útvegsmanna. Það hafa komið fram ábendingar um að Úreldingarsjóður og Aldurslagasjóður væru vissulega skildir eftir í nokkru tómarúmi. Reyndar hefur verið bent á að Aldurslagasjóður eigi ekki heima í þessum lögum þó ekki sé nema aðeins minnst á að sett skuli ný lög um starfsemi hans, og ákvæði Aldurslagasjóðs í II. kafla laga nr. 37/1978, um samábyrgð á fiskiskipum, þurfi endurskoðunar við.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, en ég vil aðeins segja að í nefndinni var samstaða um að frv. næði fram að ganga og að greiða fyrir því á þeim stutta tíma sem eftir er.

Ég skildi það svo að þeirri brtt. sem nefndin varð sammála um að flytja við 10. gr. hefði verið dreift. Hún kemur þá eflaust til atkvæða með öðrum brtt.