19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3851)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka sjútvn. fyrir góð störf í sambandi við þetta stóra mál. Hér er um viðamikið mál að ræða og liggur alveg ljóst fyrir að það hefði verið betra að hafa lengri tíma til að vinna að því, en nefndin hefur unnið mjög vel að málinu og er ástæða til að þakka henni sérstaklega fyrir það.

Vegna spurningar Karls Steinars Guðnasonar, hv. 7. landsk. þm. , vil ég benda á að ég sagði í minni framsögu að ég sæi ástæðu til þess að athugað yrði hvort og með hvaða hætti aflatrygging ætti sér stað í framtíðinni í samvinnu við hagsmunaaðila í sjávarútveginum. Jafnvel þótt við höfum haft Aflatryggingasjóð og hann hafi getað leyst oft áður fyrr ýmis mál vegna aflabrests er að mínu mati aldrei hægt að tryggja sig algerlega fyrir slíkum skakkaföllum sem fylgja aflabresti. Aðalatriðið er að sjálfsögðu að ganga skynsamlega um þá auðlind sem hafið er og þeir fiskistofnar sem þar eru. Það er mikilvægasta aflatryggingin að veiðunum sé stjórnað með þeim hætti að menn geti bærilega treyst því að ekki þurfi að verða verulegur aflabrestur þó að náttúran stjórni mestu í því sambandi að sjálfsögðu.

Ég vildi aðeins vitna til þessara ummæla í minni framsögu, en eins og málum er komið þegar frv. þetta hefur verið samþykkt, ef að lögum verður, sem ég vænti að muni gerast næstu daga og sé enga ástæðu til að ætla annað, fellur þessi trygging niður og í reynd hefur hún ekki verið nú s.l. tvö ár. Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið nein sérstök vandamál vegna þess.

Það er engin launung á því að margir treystu á það hér áður fyrr að fá bætur úr Aflatryggingasjóði og hugsuðu þar af leiðandi ekki nógu vel um sína útgerðarhætti. Það er gallinn við allar tryggingar og samhjálp, sem er að sjálfsögðu nauðsynleg, að það eru alltaf einhverjir sem verða til þess að misnota hana og verður sjálfsagt aldrei komið í veg fyrir það.

Ég get ekki svarað þessari spurningu betur en ég hef nú gert, en vildi aðallega vitna til ummæla minna í framsögu með málinu.