19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

409. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Frv. þetta hefur legið fyrir hv. fjh.- og viðskn. og verið þar rætt allítarlega og niðurstaðan hefur orðið sú að nefndin flytur við það brtt., en mælir síðan með samþykkt frv. Brtt. er í því fólgin að fella burt 1. og 2. gr. frv. Þar er um atriði að ræða sem komin voru inn í frv. um sjóði í fyrra og sem eru sameiginleg varðandi sjóðina alla sem frv. nú fjallar um, sjóðafrv. sem menn þekkja en ekki fær afgreiðslu á þessu þingi. Það var talið eðlilegt að þessi tvö atriði biðu þess hvað yrði um sjóðina í heild og þess vegna leggjum við til að þær greinar falli niður og frv. fjalli þá í rauninni einungis um hina svokölluðu tryggingadeild útflutningslána. En það atriði var einnig komið inn í sjóðafrv. í fyrra og er í núverandi frv.

Síðan hefur hv. þm. Ragnar Arnalds flutt brtt. þar sem vikið er að ríkisábyrgð á þessum útflutningslánum og mæli ég með samþykkt þeirrar brtt. og þeir nefndarmenn aðrir sem ég hef náð til. Flestir eru mér a.m.k. sammála um það. Ég get getið þess að bæði hæstv. fjmrh. og eins forráðamenn Iðnlánasjóðs eru samþykkir því að orðalagið verði eins og hv. þm. Ragnar Arnalds leggur til.

Þá vil ég geta þess að Stefán Benediktsson sat fund nefndarinnar og er samþykkur nál. þar sem mælt er með samþykkt þessa frv. með áorðnum breytingum.