19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3858)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Svo sem fram kom í máli hv. 4. þm. Austurl. skrifaði ég undir þetta nál. með fyrirvara. Minn fyrirvari er fólginn í því að ég tel að þetta mál sé ekki mjög vel undirbúið. Þetta er frv. sem er nánast kastað inn í þingíð þegar ljóst er að Happdrætti Háskólans og forráðamenn þess bera mikinn ugg í brjósti vegna þess frv. sem hér var samþykkt og varð að lögum í gær um talnagetraunir og hafa þess vegna óskað eftir heimild til að fá að reka víðtækari happdrættisstarfsemi en happdrættið rekur nú. Ég tel að allt þetta mál hefði þurft að íhuga miklu betur og hefði mönnum verið sæmra og skynsamlegra hefði það verið að athuga þetta mál betur og í samfellu en afgreiða þessi frv. eins og hér hefur verið gert og auðvitað umhugsunarefni hvernig af hálfu ríkisstj. er hér staðið að verki. Ég tel hins vegar ekki stætt á því að neita Happdrætti Háskólans um þessa heimild fyrst óskað er eftir. Ég bendi hv. þingdeildarmönnum á að áreiðanlega líður ekki á löngu þar til t.d. Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna óskar eftir sams konar heimild til happdrættisreksturs. Það er heldur ekki stætt á því að neita því um slíka heimild. En ég mun greiða atkvæði með þessu máli af þeim ástæðum sem ég hef nú rakið. Ég tel að það væri ósanngjarnt að neita Happdrætti Háskólans um heimild til að færa út starfsemi sína. En allt þetta mál er Alþingi til heldur lítils sóma og skal ég ekki rekja það frekar en ég gerði hér í gær í minni ræðu um svokallaðar talnagetraunir.