19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Með tilvísun til þess mikla áhuga sem nú er hér á landi fyrir fiskeldi, sem m.a. hefur komið fram í fjölmörgum till. til þál. sem fluttar hafa verið á undanförnum þingum, ákvað ég á s.l. sumri að skipa nefnd til að fjalla um þau mál og gera tillögur til ríkisstj. um opinberar aðgerðir og lagasetningu sem nauðsynleg kann að vera í þessu sambandi. Í nefndinni sitja þrír hv. alþm., Eyjólfur Konráð Jónsson, Kjartan Jóhannsson og Stefán Valgeirsson. Í nefndinni eru einnig Bjarni Guðmundsson, aðstoðarmaður landbrh., Finnur Ingólfsson, aðstoðarmaður sjútvrh., Jónas Matthíasson frá Sambandi fiskeldisstöðva, Árni Ísaksson, deildarstjóri á Veiðimálastofnun, og Gunnlaugur M. Sigmundsson viðskiptafræðingur sem er formaður nefndarinnar.

Nefndin hefur unnið mikið. M.a. var hér lagt fyrir og er orðið að lögum frv. um veðhæfni eldisfiska. Hún hefur fjallað um fjármagn í þessu skyni. Ég hygg að um 350 millj. verði til útlána til fiskeldis á þessu ári. Mér var tjáð síðast í gær að það virðist vera nokkurn veginn það sem nauðsynlegt er þegar tekið er tillit til þess sem fæst eftir öðrum leiðum, m.a. beint erlendis frá.

En eitt allra mikilvægasta málið eru sjúkdómar og því hefur nefndin sérstaklega fjallað um það. Hefur reyndar verið um það fjallað með bæði sérfræðingum á Keldum og yfirdýralækni og fjölmörgum öðrum. Ég vil ekki lengja umræður mjög, en eftir mikla vinnu og umræður um það mál varð niðurstaðan sú að leggja fram hér á hinu háa Alþingi frv. til l. um rannsóknadeild fisksjúkdóma. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að koma á fót sjálfstæðri deild við Tilraunastöð Háskólans í meinafræðum að Keldum sem annist eingöngu rannsóknir á fisksjúkdómum, leiðbeiningar á þessu sviði og ráðgjöf hvers konar sem þurfa kann. Í þessu frv. er deildin eðlilega tengd embætti yfirdýralæknis og sömuleiðis fisksjúkdómanefnd og þar er að finna ástæðuna fyrir því að ég flyt þetta frv. Tvö ráðuneyti eiga hér hlut að, þ.e. menntmrn. með tilraunastöðina að Keldum og landbrn. með embætti yfirdýralæknis og fisksjúkdómanefnd.

Þetta mál fékk greiðan gang í gegnum Nd. Þar var það enn skoðað í nefnd og náðist samstaða um nokkrar breytingar. Það er von mín að svo verði einnig hér að þetta mál fái greiðan framgang. Það er ákaflega mikilvægt fyrir þessa grein sem væntanlega, það er sannfæring mín, verður ekki síður mikilvæg hér en hún er orðin t.d. í Noregi þar sem fiskeldi hefur vaxið um 40% á ári undanfarin ár og veitir nú milljarða í þjóðartekjur.

Það er ákaflega mikilvægt að vel sé að þessum þætti búið því að þarna liggja mestu hætturnar. En ég má ekki lengja fundinn með því að rekja það mál allt þó að það væri mjög áhugavert. Læt ég því þessari framsögu lokið, en legg til, virðulegi forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.