19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3874)

387. mál, þjónustu- og endurhæfingastöð sjónskertra

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Víst er um það að þessi hv. deild mun ekki taka á þessu máli af neitt minni skynsemi heldur en þeir í neðra, það er öldungis víst.

En ég skal játa það að ég hef haft nokkrar efasemdir um ágæti þessa máls. Nefndir störfuðu saman, menntmn. beggja deilda að nokkru leyti að athugun málsins. Þær efasemdir mínar, sem ég hafði, hafa nokkuð minnkað, ekki horfið með öllu, við þá athugun.

Það er skýrt á um það kveðið að þeir sem ekki öðlast rétt eða hafa rétt til að nota þetta starfsheiti, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari svo sem kveðið er á í lögunum, geti aflað sér þessara réttinda með því að sækja til Háskóla Íslands 30 námseiningar í uppeldisog kennslufræðum sem mundi vera hverjum meðalmanni drjúgt vetrarverk eftir því sem okkur var tjáð. Nú er ég ekki öldungis sannfærður um það, og það er bara mín persónulega skoðun, að allir verði betri kennarar þótt þeir afli sér þessara 30 eininga í Háskóla Íslands. Ég leyfi mér raunar að hafa nokkrar efasemdir um það. Það getur vel verið að það geri einhverjum gott en ég er ekki sannfærður um að það geri öllum gott.

Vildi ég nú spyrja hæstv. menntmrh. hvort þeim kennurum, sem starfað hafa, verði gert það auðveldara að afla sér þessara réttinda t.d. með einhverjum skammærri sumarnámskeiðum, þannig að þeir þyrftu ekki að taka sér leyfi eða orlof frá störfum og setjast á skólabekk. Ég er viss um, eins og launakjörum kennara er háttað, að fæstir þeirra sem komnir eru á fullorðinsár og búnir að stofna fjölskyldur og heimili og hafa þær fjárhagsskuldbindingar sem slíku fylgir geta leyft sér þann munað að setjast árlangt til náms í uppeldis- og kennslufræðum. Á ekki með einhverjum hætti að gera mönnum þetta auðveldara? Ég viðurkenni að sumar af mínum efasemdum eru enn til staðar, einkum að því er varðar framhaldsskólastigið.

Við getum nefnt ýmis dæmi í verkmenntakennslu eða verknámi í iðnskólum og verkmenntaskólum þar sem eru við störf iðnlærðir menn sem hafa ekki þessa uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands. Við getum nefnt að mér sýnist t.d. að sóknarprestar, sem víða kenna kristinfræði í grunnskóla, þurfi til þess að mega kenna börnum hin kristnu fræði, að setjast á skólabekk í Háskóla Íslands að nýju og ég fæ ekki séð að þetta sé með neinu móti réttlætanlegt. Í þriðja lagi gætum við hugsað okkur mann sem hefði lokið doktorsprófi í háskóla í Bandaríkjunum. Mér er raunar kunnugt um slíkt dæmi, um mann sem hafði stundað nám í sjö ár í Bandaríkjunum í hagnýtri stærðfræði og tók síðan til við kennslu hér að loknu doktorsprófi og auðvitað er framhaldsskólum mikill fengur að slíkum mönnum. Þeir eru þarfir menn í sveit. Hann má ekki kenna samkvæmt þessu og mun sjálfsagt snúa sér að öðrum störfum. Þannig hefur þetta ýmsa annmarka sem ég efast um.

Hins vegar, og það vegur þyngra í mínum huga og þess vegna mun ég greiða þessu máli atkvæði, held ég að þetta mál muni skapa meiri frið í skólum landsins en þar hefur verið að undanförnu og þar af leiðandi betri starfsskilyrði, betri námsaðstöðu fyrir nemendur - skólarnir eru jú til nemendanna vegna - og betri starfsaðstöðu kennara. Það eru mjög eindregnar óskir kennara að þetta verði samþykkt og ég held að þetta muni horfa til aukins friðar í skólunum og þar með betra skólastarfs. Þess vegna mun ég greiða þessu frv. atkvæði enda þótt ég hafi nokkrar efasemdir baka til í mínu hugskoti, m.a. af þeim toga sem ég hef rakið, en hitt vegur þyngra, að skapa frið í skólum landsins og ég held að þetta sé spor í þá átt.