19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4212 í B-deild Alþingistíðinda. (3875)

387. mál, þjónustu- og endurhæfingastöð sjónskertra

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Frú forseti. Ég er ekki undrandi á viðbrögðum ræðumanna, eins og þeim sem komu fram hjá hv. 5. landsk. þm. Ég er fullur efasemda og hef verið og eitt átaksversta mál sem ég hef komist í tæri við eru réttindamál og starfsaðstaða kennara í framtíðinni nú sem ég hef tekið við þessu embætti menntmrh. Ég er með öllum hætti að reyna að átta mig á með hvaða móti tekið verði skynsamlega á málum og bætt úr því ófremdarástandi sem ríkir. Ég held að það sé alveg frumskilyrði að þeir sem stjórna og sitja að ráðum, í framkvæmdavaldinu, trúi því og skilji að hér erum við í vanda og háska staddir. Þetta eru ekki neinar kröfur offorsmanna sem settar eru fram af hálfu kennarasamtakanna þótt þær kannske séu að sínu leyti ekki vænlegar til árangurs eins og það að krefjast þess að tvöfalda laun.

Margt má athuga, upp á mörgu má fitja til úrbóta, en við erum, og það er alveg nauðsynlegt að hið háa Alþingi geri sér grein fyrir því, í háska staddir, bara beinlínis í háska staddir, vegna þessarar stéttar. Þetta er stéttin sem tekur við og hefur tekið við að ala upp börnin okkar. Við þurfum að leggja okkur fram. Ég finn andúð, einkennilega andúð, og skilningsleysi á þessum kjörum hjá félögum mínum í stjórnmálum. Það er náttúrlega ekki von á góðu þegar menn mæta og steyta hnefann og segja á hinu háa Alþingi: Þessi stétt er óþörf, þessi stétt skal verða sett niður, hún er óþörf. Þessi hnefi sem ég steyti er bara eftiröpun. Ég kem engu fram, hvorki að þessu leyti né öðru nema fá atfylgi hins háa Alþingis.

Ég verð að segja það í hreinskilni að mér finnst að ég tali fyrir of daufum eyrum. Ég get vel játað að kröfugerðin er ekki skapfellileg og ekki vænleg til árangurs þegar spurt er: Hvernig á að bæta um hjá ykkur í kaupi? - og þeir svara rakleiðis: Með því að tvöfalda launin. Ég var einu sinni verkalýðsforingi og hefði aldrei sett þetta fram og ekki haldist það uppi. En hér er stigið að mínu viti líka of skammt skref vegna þess að ef t.a.m. menntmrh. vildi svo vera láta ynnu þeir ekkert á með þessu frv. Þeir ynnu ekkert á vegna þess að það er í hendi hans að hafa þetta með sama hætti. En þetta þrýstir á um réttindi kennara. Ég vil svara hv. 5. landsk. þm. með þeim hætti að það eina sem ég setti fjarkennslunefndinni minni fyrir var það með hvaða hætti við gætum séð fram úr eða ráðið þessa gátu um réttindakennslu og endurmenntun kennara.

Ég get ekki lagt of þunga áherslu á að við bætum ráð okkar varðandi þessa uppalendur. Ég get það ekki. Mér er óskaplega þungt í sinni út af þessu vegna þess að ég veit ekki með hvaða hætti ég á að taka á því. Ég finn ekki lausnina enn þá. En skref eins og þetta er þó í áttina, mundi auðvelda mér framhaldið. Þess vegna bið ég og segi að hin hv. deild hér muni verða jafnviðtalsgóð um framkvæmd málsins eins og í neðra.