19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

423. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Bara fáein orð um þá sérstöðu mína sem frsm. allshn., hv. 5. landsk. þm., gat um áðan að ég hefði haft, þá afstöðu í nefndinni að telja réttara að hafa frv. í sínu upphaflega formi. Ég hygg að það sem gengur þeim meirihlutamönnum til í allshn. sé þetta gamla, að rétt sé að færa valdið nær fólkinu með þessum hætti, því fólki sem við þetta á að búa og þarf að taka ákvarðanir um það. Það eru út af fyrir sig nokkur rök í þessu máli og ekki hægt að neita því, en tvíbent er þetta vald alveg tvímælalaust. Ég kann ekki við að fara að rekja dæmi úr mínu næsta nágrenni frá s.l. sumri varðandi mál af þessu tagi en mér var það auðvitað alveg ljóst af þeirri reynslu við meðferð þessa máls að ekki væri þetta til bóta, þ e. sú breyting sem hér er á gerð. Það er alveg ljóst. Ég tel líka að eitt veigamesta atriðið í öllu þessu sé að sami aðili, sem í þessu tilfelli á að geta verið hlutlaus aðili, þ.e. lögregluyfirvaldið eða sýslumaðurinn eða bæjarfógetinn, hafi vald til leyfisveitingar og einnig vald til leyfissviptingar gagnvart þessum aðilum. Mönnum finnst náttúrlega það vera ósköp saklaust að setja vínveitingaleyfi til einhvers aðila á einn stað og ég veit að þeir sem telja að hér eigi að fara sem frjálslegast með alla hluti, þeir telja það af hinu góða, en tvíbent er það nú einnig og ætla ég ekki að fara nánar út í það.

Ég held hins vegar að þær ábendingar, sem við fengum frá áfengisvarnaráði, hafi verið býsna réttmætar og ég efast ekki um að hvað sem menn vilja segja um skoðanir þeirra manna, sem þar standa fyrir því góða ráði, þá er það áreiðanlega ljóst að þeir byggja á meiri reynslu og meiri upplýsingum en velflestir aðrir um ástand þessara mála. Af þeirri ástæðu einni held ég að menn ættu nú að fara varlega og taka visst tillit til ábendinga þeirra sem voru einmitt í þá áttina að frv. ætti að vera óbreytt.

Af þessum atriðum öllum sýnist mér það einsætt að valdið sé endanlega hjá sýslumanni, bæjarfógeta, lögregluyfirvaldi að fenginni þeirri umsögn sveitarstjórnar sem upphaflega frv. gerir ráð fyrir.