19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3881)

423. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. dómsmrh. í sambandi við hugsanlega eða raunverulega fíkniefna- og eiturlyfjaneyslu á veitingastöðum, þá vil ég minna á að á þskj. 969 í d-lið brtt. segir:

„Skylt er lögreglumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingastaða sem hafa leyfi til áfengisveitinga. Telji lögreglustjóri að veitingamaður brjóti gegn settum skilyrðum eða fullnægi þeim ekki lengur ber honum að tilkynna það sveitarstjórn, sem tekur ákvörðun um sviptingu leyfis.“

Í öðru lagi, að ef lögregla verður þess vör að eiturlyfja- eða fíkniefnaneysla á sér stað á veitingastað, þá hygg ég að lögreglan hafi ýmis úrræði önnur gagnvart rekstri staðarins heldur en vínveitingaleyfið eitt. Ég held að það skipti engu höfuðmáli í þessu sambandi með að berjast gegn neyslu vímuefna eða eiturlyfja á þessum stöðum hvar þetta vald liggur. Ég held að það hafi komið fram í nefndinni þegar þetta mál var til umræðu að lögreglan gæti látið loka stöðum þar sem þetta kæmi upp. Ég held því að þessi röksemd hæstv. ráðh. vegi nú ekki þungt, alla vega ekki í mínum huga.

Hæstv. ráðh. óskaði eftir því að þessi till. yrði dregin til baka. Ég segi nú fyrir mig að mér finnst það ekki eðlilegt að till. sé dregin til baka á þessu stigi. Hins vegar finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að umræðunni verði frestað nú eða innan skamms og nefndin, að beiðni ráðherra, íhugi þetta atriði sem hann tiltók og umræðan haldi síðan áfram að nýju á fundi deildarinnar, t.d. á mánudag, og málið verði þá látið ganga til atkvæða í ljósi þeirrar niðurstöðu sem nefndin kann að komast að við framhaldsathugun málsins. Þannig að ég legg til virðulegi forseti, að umræðunni verði frestað svo að nefndin geti farið að ósk hæstv. ráðh. og athugað þetta aðeins nánar.