19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. meiri hl. (Jón Sveinsson):

Hæstv. forseti. Landbn. hefur haft til umfjöllunar frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja jörðina Streiti í Breiðdal í Suður-Múlasýslu sem flutt er af þm. Jóni Kristjánssyni og Agli Jónssyni. Nefndin hefur rætt frv. á fundum sínum og leggur meiri hl. nefndarinnar til að jörðin verði seld á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Minni hl. skilar hins vegar séráliti á þskj. 841 og mun gera sérstaka grein fyrir því.

Rökin sem helst er fram að færa í sambandi við þessa jarðarsölu eru í fyrsta lagi þau að segja má að ef ekki er fyrir að fara sérstökum hlunnindum eða öðru á jörðum ríkissjóðs eða um að ræða sérþarfir hans sérstakar, þá mæli ekkert sérstakt með eignarhaldi ríkisins á slíkum eyðijörðum ef einstaklingar vilja nýta sér þær til búræktar og hafa eignarhald þeirra og umráð. Er hagsmuna ríkisins vel borgið í 3. málsgr. 1. gr. frv. þar sem undanskilið er nauðsynlegt land vegna vegagerðar í landi jarðarinnar, svo og land undir vita í Streitishorni.

Í öðru lagi er ljóst að umsækjandi ber umhyggju fyrir jörðinni vegna tengsla ættmenna sinna þó að segja megi að ýmsir geti vafalaust bent á svipuð eða lík rök. Jafnframt liggur fyrir yfirlýsing hans hér á sérstöku fskj., fskj. I með frv., þar sem fram kemur að hann hyggst nýta hana til æðarfugls, kanínuræktar, garðræktar og fleiri búsnytja.

Í þriðja lagi hefur ekki til þessa komið neitt það fram um áhuga annarra hreppsbúa eða enn annarra aðila á jörðinni sem slíkri og mælir því ekkert sérstakt hvað þá snertir gegn þessari ráðstöfun.

Í fjórða lagi liggur fyrir hér á sérstöku fskj. samþykki hreppsnefndar Breiðdalshrepps um þessa ráðstöfun og í fimmta lagi liggur jafnframt fyrir hér á sérstöku fskj. samþykki jarðanefndar Suður-Múlasýslu, þó að með ákveðnum skilyrðum sé.

Síðan í sjötta og síðasta lagi er hér nánast aðeins um heimildarlög fyrir ríkisstjórnina að ræða.

Í ljós á því eftir að koma hvort samkomulag tekst um verð og greiðslukjör. Kemur þá jafnframt í ljós hvort unnt er að ganga að skilyrði jarðanefndar um aðrar landsnytjar sem jarðanefnd nefnir sérstaklega. Þannig að með frv. sem slíku og lögum, sem í kjölfar þess fylgja ef frv. verður samþykkt, þá reynir að sjálfsögðu á það hvort unnt verður að ganga að þeim skilyrðum sem jarðanefndin setur.

Undir nál. meiri hl. skrifa Egill Jónsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Jón Sveinsson og Þorv. Garðar Kristjánsson.