19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Hér er á ferðinni hið einkennilegasta mál. Hér á að fara að selja ríkisjörð, nánar tiltekið Eydala-kirkjujörð, Streiti í Breiðdal í Suður-Múlasýslu. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. landbn. sem er andvígur þessu frv. og mun greiða atkvæði gegn því. Minni hl. er andvígur frv. af eftirgreindum ástæðum m.a.:

Það liggur ekkert fyrir um að þessi væntanlegi kaupandi ætli að flytjast á jörðina og setjast þar að. Það liggur ekkert fyrir um það. Í fskj. kemur fram að viðkomandi einstaklingur hyggist nytja jörðina fyrir æðarfugl, angórakanínur, garðrækt o.fl. Það hefur ekkert komið fram sem bendir til að þessi jörð henti sérstaklega vel til þeirra nytja. Af þeirri litlu staðarþekkingu sem ég hef á Austurlandi hygg ég einmitt að þessi jörð sé ekki sérstaklega fallin til garðræktar en aðrir eru mér fróðari um þau efni.

Minni hl. telur eðlilegt að sá háttur sé hafður á, ef einstaklingar óska eftir að kaupa ríkisjarðir sem nú eru í eyði, að slíkar jarðir séu ekki seldar eða leigðar undir hefðbundinn búrekstur, enda nóg af slíku í bili svo sem alkunna er, og ef einstaklingar óska eftir að hefja þar búskap í nýjum búgreinum, þá fái þeir jarðirnar leigðar, að þeim verði seldar jarðirnar á leigu uns séð er hver alvara felst í áformum þeirra.

Ein af þeim röksemdum, sem hv. 5. þm. Vesturl. rakti hér áðan, var sú að viðkomandi einstaklingur, sem óskar eftir að fá þessa jörð keypta, ætti til sérstakra tengsla að rekja við þessa jörð. Það kemur fram hér í frv. að móðir þessa manns er fædd á þessari jörð og ólst þar upp. Það eru þau persónulegu tengsl sem hann er talinn hafa við jörðina. Sá sem þetta mælir gæti allt eins óskað eftir því að fá umrædda jörð keypta og borið við tengslum, þar sem hann dvaldist í sveit á næstu jörð við. Það eru ósköp viðlíka tengsl, en ég hef nú ekki hugsað mér að óska eftir því. Hins vegar er eitt atriði í málflutningi hv. 5. þm. Vesturl. Hann sagði að ekkert hefði komið fram um áhuga einstaklinga í sveitinni, Breiðdal, til að fá þessa jörð keypta. Þetta er rangt. Í landbrn. liggur fyrir ósk frá ábúendum á Felli í Breiðdal, sem hafa nytjað þessa jörð að hluta, um að fá jörðina keypta. Á maður að trúa því að meðan sú ósk liggur fyrir í landbrn. þá séu keyrð hér í gegnum Alþingi lög um að selja einstaklingi búsettum hér suður í Garðabæ þessa jörð? Ja, það ber þá nýrra við hjá þeim hv. framsóknarmönnum ef það er ný stefna að flytja eignarhald af jörðum úr sveitunum í þéttbýlið, eins og hér er verið að gera. Það hefur ekkert komið fram um að sá einstaklingur sem hér um ræðir ætli að flytja á þessa jörð og setjast þar að. Ekkert. En fyrir liggur í landbrn. beiðni frá ábúendum á Felli í Breiðdal um að fá þessa jörð keypta. Það er það fólk sem hefur nytjað jörðina að hluta að undanförnu. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Alþingi samþykki sölu á þessari jörð hingað suður meðan fyrir liggur beiðni úr hreppnum. Það er þá mörkuð ný stefna í jarðasölu og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi, en ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að þessu máli verði ráðið þannig til lykta að þessi jörð verði seld, eignarhald hennar flutt hingað suður meðan fyrir liggur þessi beiðni í ráðuneytinu.