19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ekki ætla ég nú að setja á langa tölu um þetta mál. Þetta mál hefur verið sótt af miklu kappi af viðkomandi aðila sem fram á þetta fer og hann leitaði til okkar allra þm. Austurl. um það að við flyttum þetta mál hingað inn í þingið. Mér þóttu á því ýmsir meinbugir að gera það og ég veit að það var viss efi einnig í hugum þeirra flm., hv. 4. þm. Austurl. og hv. 11. landsk. þm. um að flytja þetta mál. Og því er það nú svona síðkomið vegna þess að þegar í fyrra hafði þessi aðili uppi mikla ásókn í að kaupa þessa jörð. Ég benti honum þá á það að sjálfsagt væri hægurinn hjá fyrir hann að fá leigurétt á jörðinni, ef hann ætlaði að setjast þar að, og ná svo þeim rétti á þann veg að geta keypt jörðina seinna samkvæmt jarðalögum. En hann taldi það af og frá að það mundi hann gera. Hann yrði að fá jörðina keypta til að láta þessa draumsýn sína rætast, sem hér var lýst áðan, um það að búa þarna úti á Streiti - sem er nú svo sem kannske ekki nein vildarjörð eða neitt eftirsóknarverð eftir því sem manni sýnist, það getur verið að hún sé það hérna sunnan séð í einhverjum hillingum að vísu - búa þar með æðarfugl, kanínur og rækta gúrkur og annað því um líkt eða eitthvað á þann veginn eða hvað það var nú. (Gripið fram í.) Já, einhver æðri garðrækt átti þetta nú að vera.

Ég hef aldrei efast um það að hugur þessa viðkomandi aðila sé einlægur í þessu máli og hann virkilega langi til að eignast þessa jörð og hann langi virkilega til að gera henni eitthvað til góða. Ég hef aldrei efast um það og þetta er hinn geðugasti maður og líklegur til þess að hirða vel um æðarfugl sinn og fara vel með kanínur sínar. Það þykist ég nokkurn veginn fullviss um.

En hitt er svo annað mál að þegar málið er orðið á þann veg, sem hv. 5. landsk. þm. lýsti réttilega, að aðili í hreppnum, í sveitarfélaginu, Breiðdalshreppi hefur formlega sent umsókn til landbrn. um kaup þessarar sömu jarðar, þá held ég að það verði að staldra við og skoða málið örlítið betur.

Ég hef staðið að því nokkrum sinnum að ríkisjarðir væru seldar, seldar bændum til þess að búnytjar þeirra yrðu betri og hagur þeirra vænkaðist á ýmsan veg. Hér hefur verið um eyðijarðir að ræða fyrst og fremst og ég hef staðið að því með öðrum þm. Austurlands að þær yrðu seldar. Þetta tel ég sjálfsagt. Í mínum huga er þetta atriði sem við þurfum að skoða miklu betur þegar utanaðkomandi aðili kemur aðvífandi og vill fá jörð keypta með þessum hætti, en þó tekur nú fyrst steininn úr varðandi efa í mínum huga þegar innansveitaraðili leitar eftir þessu og ég hygg, án þess að vilja fullyrða það, að það sé mikil spurning um hvort hægt sé að líta á bæði samþykktir hreppsnefndar Breiðdalshrepps og samþykkt jarðanefndar frá því í fyrra í ljósi þeirrar nýju umsóknar sem þarna hefur komið fram. Ég stórdreg það í efa. Þess vegna vil ég nú biðja menn um að athuga þetta mál a.m.k. milli 2. og 3. umr. og leita jafnvel til þessara sömu aðila aftur sem ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig eftir að sú nýja staða kom upp að innansveitaraðilar hafa óskað eftir því að fá jörðina keypta.