06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég kæri mig ekki um að liggja undir þeim hálfsögðu og alsögðu ásökunum að við talsmenn kvenna viljum standa gegn því að kjör kvenna séu bætt. Það finnst mér rangtúlkun. Ég hef reyndar ekki enn þá vanist því á þeim skamma tíma, sem ég hef setið á hv. Alþingi, hve fúsir menn eru að misskilja og rangtúlka það sem sagt er. Vitanlega viljum við leiðrétta kjör fiskvinnslukvenna. Við viljum stórbæta kjör þeirra. Ég lagði einmitt áherslu á það að það væri mikið að í okkar þjóðfélagi að starfsfólki í undirstöðuatvinnuvegi okkar skuli ekki vera greidd sómasamleg laun og að við skulum láta viðgangast að fiskvinnslufólk sé tilneytt að leggja á sig ofurmannlega vinnu til að hafa í sig og á, sem gerir það oftlega heilsulaust löngu fyrir aldur fram.

Ég sagði þetta í ræðu minni s.l. mánudag, að vísu í miklu færri orðum en hv. karlkyns þm. sem hér hafa talað - ég veit ekki hvort þetta er vísbending þess að þeir skilji ekkert nema það sé sagt í þeim mun lengra máli. Ég er ekki jafnfljúgandi mælsk og sumir hv. þm. hér en ég hlýt að gera þá kröfu að þeir skilji fáorðar yfirlýsingar þótt þeir þurfi sjálfir mörg orð til að skýra mál sitt.

Mér finnst ekki skipta nokkru máli hvort fólk, sem hér starfar á hv. Alþingi, er háskólaborgarar eða ekki. Ég tel fólki það heldur til tekna ef það hefur aflað sér menntunar en ég skammast mín heldur ekkert fyrir að vera ekki háskólaborgari, því að það er ég reyndar ekki. Og mér finnst ekki verra að hafa reynt það á eigin skrokki hvernig er að vinna hin algengustu störf í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, m.a. í frystihúsi og við síldarsöltun. Mér þætti reyndar gaman að vita hvort hv. flm. þessa frv. hafa reynslu af algengustu störfum kvenna í fiskvinnslu.

Ástæða þess að ég lýsti andstöðu við þá leið sem lögð er til í þessu frv. er þessi og þessi ein: Ég tel óeðlilegt og óæskilegt að ríkið greiði niður laun fyrir atvinnurekendur og þeirri skoðun hef ég lýst áður. Ég hafna algerlega þeirri túlkun að þessi afstaða sé andstaða gegn bættum kjörum kvenna. Ég frábið mér slíka einkunnagjöf. Mér finnst fáránlegt að þeir sem hér tala rjúki upp með rifrildistón, fólk sem hefur nákvæmlega sömu markmið þótt það greini lítillega á um leiðir. Ég viðurkenni fúslega og lýsi því hér yfir að ég gæti aldrei greitt atkvæði gegn þessu frv. þótt ég lýsi andstöðu við þessa leið, það er annað mál. (Gripið fram í.) Ég er sannarlega sammála því að okkur beri að hækka skattleysismörkin almennt. Það er m.a. leið - vegna þess að ég heyrði eitthvert hljóð hér úr horni.

En kaup fiskvinnslufólks verður að hækka og það hefur sýnt sig að fiskverkendur telja það borga sig að bjóða ýmsar kjarabætur til að fá konur til fiskvinnslu, jafnvel um hálfan hnöttinn. Þess vegna ættu þeir líka að sjá sóma sinn í að greiða íslenskum konum betri laun.