19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Frsm. meiri hl. (Jón Sveinsson):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér ekki mjög miklu við það að bæta sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Ég vil þó segja eitt varðandi það sem hv. þm. Eiður Guðnason nefndi áðan varðandi ættartengsl umsækjanda og tengsl hans sjálfs við þá jörð sem hér um ræðir. Ég mundi fyrir mitt leyti fagna því sérstaklega ef Eiður Guðnason sæktist eftir jörð í Austurlandskjördæmi og flytti úr Vesturlandskjördæmi með allt sitt. En það er aftur annað mál.

Síðara atriðið skiptir meginmáli. Það sem hann benti á og ekki kom fram í umræðu um málið í landbn. er sú fullyrðing hans að fyrir lægi ósk ábúenda á Felli um kaup á þessari jörð. Það mun þá vera nýkomin ósk um það til landbrn. ef slíkt er rétt. Dreg ég alls ekki í efa að hv. þm. fari með rétt mál. Af því tilefni finnst mér full ástæða til þess að málið verði skoðað á milli umræðna. En að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði fyrr.