19.04.1986
Efri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Hv. frsm. hefur skýrt viðhorf meiri hl. landbn. Ed. Alþingis og eru skýringar hans á afstöðu nefndarinnar alveg fullnægjandi. Greinilegt er að það skilja leiðir í þessu máli og að sjálfsögðu metur hvor nefndarhlutinn fyrir sig hverra viðbótarupplýsinga hann kýs að afla sér í þessum efnum.

Hv. 2. þm. Austurl. hafði hér orð um afstöðu mína til þessa frv., að það hefðu verið einhverjar sérstakar efasemdir í mér um flutning frv. Að sjálfsögðu hefði ég alveg treyst mér að koma skoðunum mínum hér á framfæri án hjálpar og allra helst hefði ég líka viljað að hugsanir mínar og skoðanir væru túlkaðar eins og ég best veit sjálfur um hverjar þær eru. En ég tel mjög mikilvægt ef einhver góður maður vill taka að sér að búa á Streiti og hreinsa þar til. Satt að segja er ekki hirðan með þeim hætti að jörðin og ásjón hennar sé til fyrirmyndar þótt hún sé í eigu Heydalakirkju. Þessi jörð er reyndar landmikil jörð, með landmeiri jörðum þarna á ströndinni. Það er alveg óhætt að fullyrða að það verður pláss fyrir þann nautpening sem þangað hefur verið rekinn frá Felli þó að jörðin væri seld þeim sem eftir henni sækir.

Það er rétt að það hefur komið fram bréf í landbrn. og landbrn. hefur sent mér afrit af því bréfi þar sem óskað er eftir því af þeim sem hafa jörðina núna til leigu, reyndar ekki núna fyrr en á síðustu tímum, ég man ekki hvort bréfið er frá mars eða apríl, að fá jörðina leigða vegna þess að hún sé nýtt fyrir nautkálfa sem illa séu þokkaðir í nánd við þéttbýlið á Breiðdalsvík. Það finnst mér að væri hægt að gera eftir sem áður.

Ég vil líka benda á að það verður ekki hvort tveggja gert í senn að leigja þessa jörð og selja. Ég held að ég fari ekki rangt með að frsm. minni hl. hafi talið eðlilegt að jörðin yrði leigð. Það kom a.m.k. oftar upp í nefndinni. Ég þori ekki að fullyrða hvort ég hef þetta rétt eftir. Ég held að ég muni það þó alla vega rétt að hv. 2. þm. Austurl. hafi lagt málið upp með þeim hætti og ef það er skilningur manna að það eigi að leigja jörðina þeim sem nú leitar eftir kaupum verður hún heldur ekki seld ábúendunum í Felli.