19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3899)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Haustið 1984 samþykkti ríkisstj. að í samráði við útflytjendur og samtök þeirra yrði hafist handa um heildarendurskoðun á útflutningsmálum og með hvaða hætti æskilegt væri að ríkisvaldið stæði að þeim málum. Hér var m.a. átt við hvort ekki væri rétt að ein og sama stofnunin, útflutningsmiðstöð, annaðist aðstoð við útflytjendur þar sem fulltrúar frá öllum greinum útflutningsins ættu aðild að ásamt fulltrúum ríkisvaldsins í sérstöku útflutningsráði.

Viðskrh. ber samkvæmt réttarreglum um Stjórnarráð Íslands stjórnskipulega ábyrgð á utanríkisviðskiptum og skipaði fyrrv. viðskrh. nefnd til að athuga og gera tillögur um fyrirkomulag útflutningsmála og þá sérstaklega með hvaða hætti mætti efla samstarf útflytjenda og stjórnvalda á sviði útflutnings. Formaður nefndarinnar var skipaður Ólafur Davíðsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. iðnrekenda. Nefndin skilaði svo tillögum til mín í lok desembermánaðar og voru þær tillögur lagðar óbreyttar fyrir Ed. Alþingis, sem hefur haft þetta frv. nokkurn tíma til meðferðar, og þar var gerð á henni smávægileg breyting varðandi stjórn útflutningsráðs þannig að iðnrh. og sjútvrh. tilnefndu varamenn í stjórn útflutningsráðs og varð samkomulag um þá till.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessa ræðu ítarlegri, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.