19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4223 í B-deild Alþingistíðinda. (3904)

401. mál, söluskattur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hafa fallið tveir hæstaréttardómar með stuttu millibili á þann veg að lög sett af Alþingi hafa ekki staðist stjórnarskrána. Það er ekki óeðlilegt undir þeim kringumstæðum að menn velti fyrir sér af og til þegar frumvörp koma hér fram hvort þau standist stjórnarskrána.

Þegar það er eitt af grundvallaratriðum stjórnarskrárinnar að skattar séu lagðir á með lögum, en undantekningaratriði að það sé þannig frá því gengið að ráðherra hafi mjög rúmar túlkunarheimildir, þá hljóta menn að velta fyrir sér hvort nýafstaðinn dómur Hæstaréttar varðandi skattheimtu af þungaflutningabifreiðum eigi ekki að vera þinginu viss viðvörun í þeim efnum að gá örlítið að sér þegar þessi klásúla er sett í lög: Ráðherra má gera það sem honum sýnist. Þetta var sú stefna sem fór nánast inn í fyrsta frv. um stjórnun fiskveiða og það virðist vera sem fjh.- og viðskn. hafi gefist upp við að ganga þannig frá lögum sem þessum að réttur hins almenna manns eigi að byggjast á neinu öðru en túlkun ráðherra.

Ég segi fyrir mig að mér finnst þetta léleg lagasmíð og mér finnast þetta dæmigerð vinnubrögð fyrir sérfræðinga í þjónustu ráðuneyta sem helst vilja ganga þannig frá lögum að innihaldið í þeim sé nánast ekkert annað en það: Ráðherra er heimilt að gera það sem honum sýnist. Og mér finnst það galli þegar lög eins og þessi koma fram og það liggur fyrir hæstaréttardómur á þann veg að menn þurfi að lýsa því yfir fyrir fram, ef þeir eigi að fá bætur fyrir yfirtroðslu framkvæmdavaldsins, að þeir áskilji sér allan rétt. Þá vaknar sú spurning hvort menn á næstu árum þurfi að staðaldri, ef þeir inna af hendi greiðslu t.d. á söluskatti, að taka skýrt fram að þeir áskilji sér allan rétt til að fá endurgreiðslu ef dómur Hæstaréttar félli þannig að lögin stæðust ekki.

Ég vil ekki, herra forseti, tefja störf deildarinnar á þann veg að menn taki ekki efnislega afstöðu til þessa máls. Ég segi fyrir mig að miðað við þær forsendur sem ég hef getið hér um, að það hefur verið kveðinn upp af Hæstarétti dómur þann veg að það hljóti að vera miklum takmörkum háð hvað eðlilegt sé að skattheimta sé sett mikið inn í reglugerð í staðinn fyrir að hún eigi að vera í beinum lagakvæðum, þá hlýt ég að hika við að greiða atkvæði með frv. þar sem ekkert tillit er tekið til þessa dóms heldur vaðið áfram eftir sömu leikreglum.