19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

401. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir þær yfirlýsingar sem hann gaf hér áðan. Það er bersýnilegt að ef hæstv. fjmrh. fær að leggja söluskatt á þjónustu ríkisspítalanna t.d., þá væri ráðherrann að ganga í blóra við nefndina, eða meiri hluta hennar, og þá skoðun sem hv. 2. þm. Norðurl. v. lýsti hér fyrir hennar hönd og ég fagna því. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. sjái sóma sinn í að gæta þess vandlega að fara eftir þeim forsendum sem nefndarmenn að meiri hluta til hafa haft þegar þeir afgreiddu málið. Ég mun hins vegar, þar sem hér er um mjög opna heimild að ræða, ekki greiða atkvæði með þessu frv. en ekki leggjast gegn því, þar sem það er óhjákvæmilegt að eyða óvissu og koma í veg fyrir að ríkissjóður verði fyrir stórfelldu tekjutapi í framhaldi af þeim úrskurði ríkisskattanefndar sem nefndur hefur verið hér í þessari umræðu.