06.11.1985
Neðri deild: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég tók til máls fyrr í þessum umræðum, sagði nokkur orð, og ég hélt að ég hefði talað skýrt. Þær Kvennalistakonur og aðrar konur hér í hv. deild sem hafa að undanförnu lagt sig í líma við að reyna að koma þessu góða frv. fyrir, sem fjallar einfaldlega um það að reyna að bæta örlítið kjör þessa láglaunafólks, þær hafa auðvitað ekki hlustað á önnur rök en sín eigin. Þær hlusta eingöngu á sjálfar sig og hafa þess vegna af eðlilegum ástæðum lítið upp úr krafsinu. Það er ekki nóg með að í ræðum þessara kvenna hafi komið fyrir alls kyns þvæla sem þær hafa borið fram fyrir fákunnáttu sakir, en þær halda áfram að endurtaka sama ruglið og taka hvorki sönsum né rökum, því miður. Hversu oft hafa ekki þessar konur, sem hafa einar allra þingmanna reynt að berjast á móti kjarabótum þessara kvenna, ekki talað um hina lægstlaunuðu? Og hversu oft hefur vinkona okkar, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, ekki skrifað upp á hvert plaggið af öðru þar sem lögð er sérstök áhersla á að bæta einmitt kjör hinna lægstlaunuðu? En þegar möguleikinn er til, þó að í litlu sé, haga þær sér þvert ofan í það sem þær segja.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði að fiskvinnslan er erfið og sú vinna unnin við erfiðar aðstæður, og bónuskerfið er vissulega slítandi. Ég gat ekki heyrt betur á þessum hv. þm. en að hún vildi leggja bónuskerfið niður. Ekki gat ég skilið hennar orð öðruvísi. Hún vill sem sagt hafa af þeim þann tekjumöguleika líka og þá verður lítið eftir. Þetta er ósköp einfaldlega það sem sagt er. (GA: Þetta sagði ég ekki.) Fólk verður að átta sig á hvað það þýðir sem það er að segja. (Gripið fram í: Gott að hafa kennslustund í því.) Já, það er vissulega kominn tími til að hafa nokkrar kennslustundir fyrir þetta fólk á nær öllum sviðum.

Hvernig stendur á því að þetta fólk heldur ræður um að það vilji bæta kjör fiskverkunarfólks en stendur svo gegn þeim kjarabótum sem í boði eru. Hvað segir ekki í heilagri bók: „Það góða sem ég vil gjöri ég ekki, en hið illa sem ég ekki vil það gjöri ég.“ Mér er nær að halda að það hafi verið Páll sem sagði þetta í einu af sínum bréfum, svo skynsamlegt er það.

Umræðan um kjaramál er dálítið sérkennileg. Hér er verið að tala við fólkið sem stendur undir lífi í þessu landi og allt er of gott fyrir það, en þegar hálaunahópar koma með sín mál inn á þingið standa upp þær sömu konur og segja að 60 eða 65 000 kr. á mánuði sé bara lítið sem ekki neitt og enginn sé ofhaldinn af því og vilja gráðugar hækka það í 100 000 kr. á sama tíma og þær veitast þannig með ósæmilegum hætti að þessu fólki sem vinnur í fiskvinnslu. Það er kominn tími til þess að upplýsa þjóðina um það til hvers þetta fólk er komið hingað á þing.

Í sambandi við kvennadaginn, kvennaverkfallið, eða hvað það hét - það er kannske skömm að því að vera að nefna það hér - var því mikið haldið á lofti að konur ættu í styrjöld við karlpeninginn í landinu, það væri karlmönnunum að kenna hvernig launakjörum þeirra væri nú komið og hefði verið lengi. En það er auðvitað rangt. Þeir sem konur þurfa nú að berjast við eru þær konur sem hafa verið kosnar á þing. Svo hörmulegt er það. Það er auðvitað staðreynd. (Gripið fram í.) Það er ekki nóg að segja eitt og gera annað.

Ég talaði um það fyrr í umræðunni hvernig möguleika fiskvinnslan hefur til að greiða sínu fólki. Sú staða er afar erfið eins og stendur. Undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar er rekinn með bullandi halla og það er auðvitað stjórnvalda að koma því svo fyrir að undirstöðuatvinnuvegurinn hafi einhvern rekstrargrundvöll. Aldrei hefur maður heyrt þessa þm. nefna slíkt. Hvað varðar þá um staðreyndir?