19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3913)

320. mál, fasteigna- og skipasala

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli þingheims á brtt. varðandi þetta frv. til laga um fasteigna- og skipasölu eins og þær birtast hér á þskj. 906. Þessar brtt. eru tvær, við 6. gr. og við 14. gr.

Það sem ég vil gera að umtalsefni eru brtt. við 14. gr. sem hljóða svo, seinni málsliður: „Honum [fasteignasala] er heimilt að áskilja sér þóknun fyrir tímabundna vinnu við tilraun til að selja fasteign eða skip.“

Og í 2. málsgr., þar er fyrst kveðið á um að ekki megi áskilja sér þóknun sem fari fram úr 2% af kaupverði, en síðan segir: „en rétt er fasteignasala að áskilja sér aukalega greiðslu fyrir útlagðan auglýsingakostnað enda hafi eign verið auglýst eftir beiðni eiganda.“ Síðan er áréttað: „Þóknun skal yfirleitt vera lægri ef makaskiptum er til að dreifa.“

Mínar athugasemdir eru þessar: Ég á bágt með að trúa því að það sé samhljóða brtt. þeirra ágætismanna sem sitja í allshn. að upp skuli taka þá reglu að fasteignasala skuli heimilt að áskilja sér þóknun fyrir tímabundna vinnu við tilraun til að selja fasteign eða skip. Fasteignasala er að sjálfsögðu áhættuviðskipti og mér finnst með öllu fráleitt að leiða inn í lög þá reglu að fasteignasala skuli heimilt að áskilja sér þóknun fyrir umsýslu, tíma eða fyrirhöfn vegna fasteignar sem hann ekki selur. Það á að vera þáttur í hans áhættu. Og sama máli finnst mér gegna að því er varðar auglýsingakostnað. Auglýsingakostnaður er einn meginþáttur í starfsemi fasteignasölu - og reyndar alkunna að fasteignasalar eru blómlegustu viðskiptavinir Morgunblaðsins og greiðslur þeirra fyrir auglýsingar vafalaust einn af máttarstólpum þess blaðs - það er partur af þeirri þjónustu sem þeir inna af hendi, partur af þeirra rekstrarkostnaði, partur af þeirrar rekstraráhættu. Og mér finnst með öllu fráleitt að leiða nú í lög að fyrir utan þá söluþóknun sem hefð og lög kveða á um, þá skuli fasteignasala heimilt að taka þennan kostnaðarlið og velta honum yfir á neytendur, og sér í lagi með öllu óviðunandi að honum skuli heimilað að áskilja sér þóknun fyrir sölu sem ekki fer fram. Ég trúi ekki öðru fyrr en ég tek á því en að þetta hafi með einhverjum hætti farið fram hjá nefndarmönnum því ég geri því ekki skóna að menn hafi orðið ásáttir um það einróma að þetta skuli í lög leiða.