19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3919)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér heimild til þess að leyfa öðrum aðilum en Áfengis og tóbaksverslun ríkisins að framleiða áfenga drykki á Íslandi, en fram til þessa hefur Áfengis- og tóbaksverslunin ein haft leyfi til þess að framleiða hér áfenga drykki. Þetta hefur haft í för með sér að einstaklingar og fyrirtæki, sem áhuga hafa haft á að koma upp atvinnustarfsemi af þessu tagi, hafa ekki getað komið þeim áformum fram og eitt dæmi er um það að íslenskt fyrirtæki hefur orðið að setja upp framleiðslu af þessu tagi erlendis en hefur nú áhuga á að koma þessari framleiðslu heim og skapa atvinnutækifæri hér á Íslandi.

Þetta frv. er flutt til þess að gera hér breytingu á. Það er ráð fyrir því gert í 1. gr. frv. að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé áfram heimilt að framleiða áfengi en jafnframt gert ráð fyrir því að fjmrh. sé heimilt að veita öðrum aðilum leyfi til að framleiða áfenga drykki, enda sé slík framleiðsla ætluð til útflutnings eða sölu í útsölum Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Ekki er þó gert ráð fyrir því að Áfengisverslunin sé skyldug til að selja áfengi sem framleitt er hér innanlands samkvæmt þessum heimildum. En samkvæmt greininni er gert ráð fyrir því að Áfengisversluninni sé heimilt að hafa samstarf við aðila sem fá leyfi til að framleiða áfengi hér innanlands og gerast eignaraðili að slíkum fyrirtækjum.

Með þessu frv. er ekki stefnt að því að breyta á nokkurn veg einkarétti Áfengisverslunarinnar til þess að selja og dreifa áfengi né heldur að því er varðar innflutning á áfengi til landsins. Fyrst og fremst og eingöngu er verið að opna hér heimildir sem geta leitt til þess að hér skapist fleiri atvinnutækifæri og við getum framleitt þessa vöru til útflutnings og á þann veg bæði fjölgað störfum í iðnaði og aukið gjaldeyristekjur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni frv. en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.