19.04.1986
Neðri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4240 í B-deild Alþingistíðinda. (3932)

412. mál, dráttarvextir

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Meginákvæði íslenskra laga um dráttarvexti er 5. gr. laga frá 1960 um bann við okri, dráttarvexti o.fl., sbr. lög frá 1965. Lög frá 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., hafa einnig að geyma ákvæði um dráttarvexti af verðtryggðum skuldbindingum, sbr. 39. gr. þeirra laga.

Skv. þessum tveimur lagaákvæðum gildir sú meginregla hér á landi að Seðlabankinn ákveður dráttarvexti og gilda ákvarðanir bankans bæði innan og utan innlánsstofnana. Auk þessara lagaákvæða er að finna ýmis sérákvæði í lögum um dráttarvexti. Má þar einkum nefna lög um dómvexti, en þau lög gilda einungis um vexti af kröfum sem dómstólar dæma og þá aðeins fyrir tímabilið frá birtingardegi stefnu til greiðsludags kröfu.

Í íslenskum rétti hafa lengi verið ákvæði um dráttarvexti, en fyrstu raunverulegu ákvæðin er sennilega að finna í tilskipun frá 1859 um leiguburð af peningum o.fl. Þetta ákvæði tilskipunar gilti áfram sem hin almenna regla um dráttarvexti þar til tilskipunin var afnumin 1933, en þau lög hétu „Lög um bann við okri, dráttarvexti o.fl.“ Ákvæði þessara laga um dráttarvexti hélst óbreytt til ársins 1965, er lögtekin var breyting á ákvæði 5. gr. laganna frá 1960. Það ákvæði hefur nú að geyma meginreglu íslenskra laga um dráttarvexti.

Á liðnum árum hafa ýmis atriði valdið vafa og jafnvel deilum varðandi dráttarvexti. Má þar nefna hæð dráttarvaxta, en í lögum er t.d. ekki nein ákvæði um það við hvað Seðlabanki Íslands skuli miða dráttarvaxtaákvarðanir sínar og hafa ákvarðanir bankans borið þess merki að mismunandi sjónarmið hafa ráðið ríkjum frá einum tíma til annars. Þess ber þó að geta að ákveðnar umbætur hafa orðið í þessu efni að undanförnu. Það orkar jafnframt tvímælis að gera mun á því eftir tegundum krafna hversu háir dráttarvextir falli á kröfu.

Einnig vantar reglur um margvísleg álitamál sem risið geta varðandi upphafstíma dráttarvaxta, svo og reglur um dráttarvexti að því er varðar kröfur í erlendri mynt.

M.a. með hliðsjón af þessum atriðum er nauðsynlegt að setja lagareglur um dráttarvexti og eru settar fram í þessu frv. tillögur að slíkum lagareglum. Frv. er samið að Benedikt Sigurjónssyni fyrrv. hæstaréttardómara, og Viðari Má Matthíassyni hdl. í náinni samvinnu við starfsmenn viðskrn. og Seðlabanka. Við samningu frv. var nokkur hliðsjón höfð af frv. til laga um verðgildisbætur og dráttarvexti sem samið var af Jóni Steinari Gunnlaugssyni og Baldri Guðlaugssyni hæstaréttarlögmönnum. Jafnframt var litið til erlends réttar á þessu sviði, einkum danskra laga um dráttarvexti.

Ég ætla ekki að fara yfir einstakar greinar frv. þó að það hefði að mörgu leyti verið full þörf á því. En í lokaákvæði frv. er gert ráð fyrir að felld verði úr gildi 5. gr. laga nr. 58/1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., sbr. lög nr. 71/1965 um breytingu á þeim lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að lög um dómvexti verði felld úr gildi. Þá verður einnig nauðsynlegt að breyta ýmsum öðrum lögum þegar frv. þetta hlýtur samþykki Alþingis. Hér er um að ræða lög um lausafjárkaup, víxillög, tékkalög, lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lög um vátryggingarsamninga. Er þess að vænta að á næsta þingi verði þessi frv. lögð fram í samvinnu við hlutaðeigandi fagráðuneyti.

Herra forseti. Ég hef aðeins lítillega farið yfir þetta frv. sem hér er lagt fram. Mér er ljóst að til þess vinnst ekki tími að afgreiða það á þessu þingi en í samvinnu við formann fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar lagði ég á það áherslu að frv. færi hér í gegnum 1. umr. þannig að nefndin gæti sent það til umsagnar nú í sumar og tekið þá mið af því þegar ákvörðun verður tekin um framlagningu málsins að hausti.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.