19.04.1986
Neðri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4242 í B-deild Alþingistíðinda. (3939)

265. mál, verslun ríkisins með áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. á þskj. 980 varðandi frv. til l. um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf á þskj. 498. Þetta er tillaga um breytingu á lögum. Flm. eru þeir Karl Steinar Guðnason og Eiður Guðnason í Ed. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en fékk þá ekki afgreiðslu og er flutt óbreytt.

Breytingin er í því fólgin að fella brott úr niðurlagi 2. mgr. 1. gr. laganna orðin „svo og vindlingapappír og eldspýtur“ og þá fara menn að skilja um hvað málið snýst. Þetta er hið svokallaða eldspýtnamál og felur í sér að afnumin verði einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með þennan varning.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir það nál. skrifa Páll Pétursson formaður, Ólafur G. Einarsson, Halldór Blöndal, Kristófer Már Kristinsson og Guðmundur H. Garðarsson auk þess sem hér stendur.