07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

14. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sjálfsagt mælir því enginn í mót að störf þeirra sem eru heimavinnandi eru þjóðfélaginu, heimilinu og fjölskyldunni mjög mikilvæg þó þau séu ekki að sama skapi metin að verðleikum. Á herðum þeirra sem sinna eingöngu heimilisstörfum, sem oftast eru konurnar, hvílir meginþunginn af öllum daglegum heimilisrekstri og uppeldi uppvaxandi kynslóðar, en það er eins og ávallt sé litið á hin mikilvægu störf inni á heimilum sem sjálfsagðan hlut sem engin réttindi fylgja er öðrum þykja sjálfsögð sem önnur störf vinna. Já, sumir líta meira að segja svo á að ekki sé hægt að telja heimilisstörfin til vinnu.

Hér skulu sagðar ein eða tvær dæmisögur:

Á ráðstefnu sem Samband Alþýðuflokkskvenna gekkst fyrir á árinu 1983 var fulltrúi vinnuveitenda, sem þar var mættur til að sitja fyrir svörum um launamál kvenna, spurður að því hvort hann teldi ekki réttlætanlegt að meta bæri starfsreynslu við heimilisstörf meira til launa þegar um skyld störf á vinnumarkaðnum væri að ræða. Fulltrúi atvinnurekenda taldi sig til að svara þessu fyrst þurfa að vita hversu myndarleg húsmóðirin væri. Hann þyrfti að sjá heimilið og vita hvernig hún skilaði því af sér, og hann bætti við: Sú kona sem verið hefur heima, ég vil segja í iðjuleysi, ein kona sem er að væflast á heimili, e.t.v. með öldung eða eitthvað slíkt, ætli hún geri mikið? sagði þessi fulltrúi vinnuveitenda. Jafnframt taldi hann að ekki ætti að meta mikið starfsreynslu sem lítið álag fylgdi.

Annað dæmi sem sýnir mat uppvaxandi kynslóðar á heimilisstörfum ætti að vera okkur umhugsunarefni. Kona nokkur úti á landi hafði haft það að starfi á sinni ævitíð að hugsa um heimili og ala upp sex börn. Á heimilinu var oft mannmargt því jafnframt því að ala upp sín sex börn og hugsa um öll venjuleg heimilisstörf hafði hún iðulega gegnum árin í fæði og húsnæði bæði unglinga sem ekki áttu heima á staðnum en sóttu skóla þar á veturna og aðkomumenn sem stunduðu tímabundna vinnu á staðnum. Nú er orðið rólegra hjá þessari konu, börnin komin til manns og ára og barnabörnin orðin fjölmörg. Barnabörnin koma í heimsókn til ömmu sinnar og ræða við hana um sín áhugamál, heiminn og tilveruna. Og eitt af því sem amman verður að svara barnabörnum sínum oft og iðulega þegar þau koma í heimsókn er spurning sem segir meira en margt annað um viðhorfin til starfa heimavinnandi fólks: Af hverju hefur þú aldrei unnið, amma? spyrja börnin í forundran. Af hverju þarft þú ekki að vinna eins og aðrir?

Till. sú sem hér er mælt fyrir á þskj. 14 um réttarstöðu heimavinnandi fólks, sem ég flyt ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, Eiði Guðnasyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sjö manna nefnd sem hafi það verkefni að meta þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa og gera úttekt á hvernig félagslegum réttindum og mati á heimilisstörfum er háttað samanborið við önnur störf í þjóðfélaginu. Skulu niðurstöður og tillögur til úrbóta liggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. janúar 1986.“

Með leyfi forseta vil ég lesa þá stuttu grg. sem till. fylgir, en hún hljóðar svo:

„Öllum er ljóst í orði þjóðhagslegt gildi starfa heimavinnandi fólks. Má í því sambandi benda á ummönnun ungra barna og aldraðra á heimilunum sem ella tækju pláss á stofnunum sem ríki og sveitarfélög reka. Einnig má benda á uppeldislegt gildi sem ekki verður metið til fjár þegar til lengri tíma er litið. Störf heimavinnandi fólks hafa því í för með sér beinan fjárhagslegan sparnað fyrir þjóðfélagið.

Ýmis félagsleg réttindi, sem öðrum þykja sjálfsögð, eru ýmist mjög takmörkuð fyrir heimavinnandi fólk eða alls engin.

1. Ekki liggur ljóst fyrir um hve stóran hóp þjóðfélagsþegna er að ræða sem eingöngu vinnur heimilisstörfin, en á árinu 1982 voru 80% kvenna 16 ára og eldri með einhverja vinnu utan heimilis.

2. Heimavinnandi fólk hefur ekki aðgang að lífeyrissjóði og því mjög takmörkuð lífeyrisréttindi.

3. Störf heimavinnandi fólks eru eina vinnuframlagið í þjóðfélaginu sem ekki eru greidd laun fyrir og sjálfsögð félagsleg réttindi eins og orlof, lögskipaður hvíldartími o.fl. fyrirfinnst ekki.

4. Heimavinnandi fólk situr ekki við sama borð hvað varðar skattlagningu og aðrir þegnar þjóðfélagsins, og lýsir það sér m.a. í því misrétti að heimili með eina fyrirvinnu ber hærri skatta en þar sem tekjur heimilisins eru afrakstur vinnu tveggja.

5. Heimavinnandi fólk þarf að tryggja sérstaklega á skattskýrslu og er eini hópur þjóðfélagsins sem slíkt gildir um.

6. Heimavinnandi fólk hefur ekki sama rétt til sjúkradagpeninga og aðrir.

7. Hafi einstaklingur varið mestum hluta ævi sinnar til heimilisstarfa en kýs síðan að halda út á vinnumarkaðinn að nýju er fyrra starf mjög lítils metið í launum eða starfsaldurshækkunum.

8. Heimavinnandi konur sitja ekki við sama borð og útivinnandi hvað varðar fæðingarorlof sem greitt er úr almannatryggingum. - Hér er hið opinbera að skipta konum í verðflokka.

9. Heimavinnandi fólk, sem er í hlutastarfi á vinnumarkaði, missir einnig ýmis félagsleg réttindi.

Hér að framan hafa verið nefnd nokkur atriði sem sýna ljóslega réttleysi heimavinnandi fólks sem vert væri að hafa í huga við úttekt þessa. Auðvitað kemur margt annað til greina, svo sem menntunarmál heimavinnandi fólks, en staðreynd er að atvinnumöguleikar kvenna eru takmarkaðri en annarra þegar þær koma á vinnumarkaðinn eftir langa fjarveru við heimilisstörf og barnauppeldi. Mikið skortir á að þessu hafi verið mætt með skipulagðri fullorðinsfræðslu, endurmenntun og starfsþjálfun sem opni heimavinnandi fólki fleiri möguleika til atvinnu.“

Í sjálfu sér, herra forseti, mætti hafa mörg orð um hvern þessara liða sem ég hef hér tilgreint og fram koma í grg. með þáltill. Ég tel þó, herra forseti, að þeim skamma tíma sem ég hef hér til umráða til að mæla fyrir þessari þáltill. sé best varið með því að gefa orðið konu sem í 40 ár hefur verið heimavinnandi húsmóðir, konunni sem ég greindi frá hér áðan og þarf nú að svara spurningum barnabarnanna sinna sem spyrja í forundran: Amma, af hverju hefur þú aldrei unnið? Þessi kona hélt stutta ræðu á ráðstefnu sem Samband Alþýðuflokkskvenna gekkst fyrir á s.l. ári um réttindaleysi heimavinnandi fólks. Með leyfi forseta vil ég lesa stutta ræðu hennar sem hún hélt á þessari ráðstefnu. Orð hennar skulu vera mín lokaorð í framsögu fyrir þessari till. um réttarstöðu heimavinnandi fólks því ég tel rétt að reynslusaga konu með 40 ára störf að baki sem heimavinnandi húsmóðir, við störf sem ekki eru virt eða metin á borði í þjóðfélaginu, verði skráð í Alþingistíðindi. En hún sagði svo, með leyfi forseta:

„Rauður þráður þeirra hugleiðinga sem fara hér á eftir er þessi spurning: Er heimavinnandi fólk réttindalaus þjóðfélagshópur? Heimili, hvað er heimili? Það má e.t.v. líkja því við fyrirtæki þar sem tveir starfa, þ.e. annar á heimavígstöðvum, hinn úti að afla fyrirtækinu misjafnlega mikilla tekna. Þar sem ég hef unnið á heimaslóð eins þessara fyrirtækja í 40 ár, eða eins og sagt er með munnherkju „heimavinnandi húsmóðir“, hlýtur að liggja nær mér að tala um húsmóður, enda koma heimavinnandi heimilisfeður vart við sögu fyrr en á síðari árum eða með jafnréttishreyfingunni. En hvað hefur nú kona, húsmóðir, þ.e. ég, gert heima í 40 ár? Það er ekki að furða þó einhver spyrji, enda spyrja nútímabörnin: Hefur þú aldrei unnið neitt?

Fyrir 40 árum, þegar ungar stúlkur gengu í það heilaga, voru þær þar með komnar í hóp hinna heimavinnandi húsmæðra. Annað þekktist ekki í þá daga nema við sérstaklega erfiðar aðstæður. Já, en hefur þá nokkur tekið eftir verkum húsmóðurinnar? Hefur nokkur veitt eftirtekt ómældum vinnutíma þar sem hvorki er greitt skv. eftir- eða næturvinnutaxta, vökunóttum yfir veikum börnum, matseld, þvottum, uppþvottum, saumaskap, oft úr gömlum flíkum þegar efni voru lítil, hefur nokkur tekið eftir strauningu, bakstri, gólfþvotti, bóningu, ryksugun, innkaupum, líka hjá þunguðum húsmæðrum og hvort sem borið er barn á armi eða það hangir í pilsi? Svo skyldu menn spyrja hvort menn hafi veitt eftirtekt allsherjarhreingerningunum sem fóru fram á hverju vori og öllu var bylt og borið út svo að lemja mætti úr því rykið. En þótt enginn hafi tekið eftir þessu, þá voru þessi verk á ábyrgð og á herðum húsmóðurinnar og svo er enn. Og þó hef ég aðeins talað um brot af húsverkunum. Flest ykkar gætu vafalaust bætt tugum og hundruðum atriða við þessa bunu. Við skulum t.d. ekki gleyma umsjá aldraðra inni á heimilunum, móttöku gesta eða áhyggjum þegar auraleysi steðjaði að. Og hvað hefur svo hin heimavinnandi húsmóðir borið úr býtum? Lítið er það á stundum nema kannske sú ánægja ein að fá að sjá heilbrigð börn sín vaxa úr grasi. En þið skuluð ekki ætla eitt augnablik að orð þessi séu mælt af einhverri biturð. Ég er aðeins að draga fram örfáar staðreyndir.

Nú skulum við aðeins líta á hvernig ríkisvaldið hegðar sér gagnvart húsmóðurinni. Það lætur ekkert heimili í friði og sækir sitt. Þegar fyrirvinnan er búin að mata apparatið er oft ansi lítið eftir handa húsmóðurinni og í flestum tilvikum verður hún út undan. Hún er ekki með í köldum útreikningum hagfræðinga og fjármálaspekúlanta. Þjóðfélagið hefur líklega gleymt hinum heimavinnandi því að húsmæður verða að sækja allt til fyrirvinnunnar. En réttlætinu vil ég fullnægja, gleyma því ekki að húsmóðirin fær þriggja mánaða fæðingarorlof, en lægstu fáanlegu upphæð ef hún hefur unnið það til saka að starfa bara heima.

Einhver nefndi það einhverju sinni að það ætti að greiða húsmóðurinni kaup. En hver á að gera það? Ríkissjóður í gegnum almannatryggingar? Ætli sú hugmynd dytti ekki niður um götin á fjárlagadæminu? Kannske á fyrirvinnan að greiða þetta kaup eftir að búið er að greiða skatta, hita, rafmagn, síma, útvarp, sjónvarp, bensín á bílinn, svo að ég tali nú ekki um húsaleigu. Auðvitað er sannleikurinn sá að húsmæður hafa þurft og þurfa enn að neita sér um fleira en almennt gerist þegar peningar eru ekki til nema fyrir brýnustu lífsnauðsynjum, eins og t.d. grjónum í grjónagraut, sleppum rúsínunum. Og hvað er svo gert þegar börnin biðja um aura fyrir bók eða bíó?

Enn er ekki komið að því að svara spurningunni: Er heimavinnandi fólk réttlaust í þjóðfélaginu? En nú skal ég gera það. Heimavinnandi fólk er algerlega réttlaust í þjóðfélaginu eða í sjóðakerfinu almennt. Það hefur engin samtök, nýtur nánast engra trygginga nema ef fyrirvinnan kaupir t.d. heimilistryggingu og tryggir húsmóðurina eins og hvert annað húsgagn. Þessar konur eru ekki til fyrr en þær slasast eða veikjast og einhver saknar heimilisverkanna eða verður að fara að vinna þau sjálfur eða sjálf. Eða greiðir kannske tryggingakerfið húsmóðurinni sem veikist eða slasast? Það fer lítið fyrir því, en sá sem kemur í hennar stað getur fengið greitt.

Ég fletti bæklingum frá Tryggingastofnun ríkisins um sjúkrabætur fyrir þá sem eingöngu - takið eftir eingöngu stunda heimilisstörf. Falli störf á eigin heimili niður vegna veikinda skal greiddur 1/4 hluti fullra dagpeninga, auk þess 3/4 hlutar af kostnaði við aðkeypta heimilishjálp skv. kvittuðum reikningi. Á reikningi skal vera nafnnúmer og heimilisfang þess sem greiðslu fær: En sjúkrasamlag má ekki greiða hærri fjárhæð en nemur óskertum dagpeningum ásamt barnabótum. Þessar fjárhæðir mætti kannske leggja saman og þá fengju menn séð hvers virði líf og heilsa húsmóður er talið í krónum í velferðarsamfélagi nútímans. Sem sagt: það er hægt að fá bætur frá Tryggingastofnuninni út á örorku, slys, veikindi, fæðingarorlof, til ekkna, ekkla og einstæðra foreldra, svo og ellilífeyri, en á meðan heimavinnandi fólk er heilt heilsu og stendur sig fær það ekkert í sinn hlut, er launa- og réttindalaust. Ef þetta fólk hins vegar stígur aðeins léttilega á hinn almenna vinnumarkað opnast möguleikar á ýmsu, aðgangur að sjóðum og félagasamtökum.

Þessu til viðbótar má nefna að fái kona, sem hefur unnið að heimilisstörfum í 20-30 ár, kann vel til margvíslegra verka, a.m.k. til eldhússtarfa, starfa t.d. í mötuneyti, þar sem reynsla hennar nýtist vel, lendir hún ávallt í lægsta launaflokki. 30 ára reynsla og þekkingarsöfnun er ekki metin eyris virði. Þetta er einn þátturinn í þeirri staðreynd hve launalágar konur eru.

Mig langar um leið að skjóta því að ykkur að ríki og sveitarfélög greiða hundruð millj. kr. á hverju ári til dagvistarstofnana, barnaheimila og leikskóla af öllu tagi, en að þeim detti í hug að greiða heimavinnandi húsmæðrum fyrir að gegna sama hlutverki er fjarlægt eins og norðurpóllinn. Þessar konur spara þó ríkinu miklar fjárhæðir með því að vera „bara húsmæður“.

Mig langar enn að víkja að konum sem hafa verið heimavinnandi í 20-30 ár. Þegar börnin hafa flogið úr hreiðri þessara kvenna og hjónakornin orðin ein eftir langar konuna kannske á vinnumarkaðinn - og hvernig gengur henni, kominni yfir fimmtugt? Hún reynir kannske að bæta stöðu sína með því að fara á endurmenntunarnámskeið hjá Námsflokkunum. Ríkið hefur ekki séð ástæðu til að lögbinda slíka endurmenntun. Síðan sækir hún um vinnu full bjartsýni. Nafnið er skrifað niður og biðin hefst, en það hringir hvorki síminn né berst bréf. Hún hefur verið dæmd úr leik. En kannske á hún smugu að komast í fisk eða vera á símaborði. Í fiskinum tekur við áframhaldandi réttindaleysi og öryggisleysi. Það má senda hana heim með viku fyrirvara. Kannske er henni bara sagt að fara í spilaklúbb eða hún sé liðtæk í góðgerðarfélag. Ekki geri ég lítið úr því. En hver er uppskera allra áranna? Hvar er rétturinn til þess sem er afrakstur ævistarfs? Líti hver og einn í eigin barm. Kannske má dunda í garðinum, ef eignin leyfir slíkt. Svo má sitja og prjóna og láta útlendinga græða á vinnunni og þannig dútla ýmislegt þangað til þjóðfélagið loks veitir heimavinnandi húsmæðrum athygli og fer að senda þeim ellistyrkinn. Um þetta leyti fer hringurinn að lokast.

Meira var það ekki frá mér. Ég vona aðeins að fyrr en síðar verði staða okkar hóps þannig að þjóðfélagið minnist okkar áður en við komumst á ellilaun eða í minningargrein í Mogganum.“

Ég legg til, herra forseti, að till. þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.