07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

14. mál, réttarstaða heimavinnandi fólks

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma hér til að lýsa yfir stuðningi okkar Kvennalistakvenna við þessa till. og fagna því að hún er hér fram komin. Sérstaklega vil ég fagna því að hér er lagt til að gerð verði úttekt á því hvernig félagslegum réttindum heimavinnandi og mati á heimilisstörfum er háttað og hvernig þjóðhagslegt gildi heimilisstarfa er metið.

Það er ekki vanþörf á því að slík úttekt sé gerð því að sannleikurinn er sá að þeir aðilar í þessu þjóðfélagi sem heimilisstörf stunda eru nokkurs konar huldufólk. Það er fólk, oftast konur, sem hvergi eru til í reikningum, á plöggum og koma hvergi fram í þeim gögnum sem við alþm. t.d. vinnum úr þegar við setjum saman tillögur til að bera fram hér á hv. Alþingi. Á það hef ég oft rekið mig við tillögu- og frumvarpasmíð að það er mjög erfitt að ná til þessa þjóðfélagshóps, til þeirra sem heimavinnandi eru, vegna þess að þessi hópur kemur hvergi fram í opinberum gögnum sem slíkur. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hér skuli lagt til að gerð verði úttekt á því hversu fjölmennur þessi hópur er og hvernig mati á störfum hans er háttað. Það ætti að auðvelda alla vinnu sem hv. þm. vilja leggja af mörkum í þá átt að bæta réttarstöðu þeirra sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil einnig benda á að ýmislegt af því sem fram kemur í grg. með þessari till. hefur komið fram hér á hv. Alþingi, bæði á þessu þingi og á síðasta, mér liggur við að segja nýliðnu þingi því að það var stutt á milli þinga í ár. Ég vil t.d. minna á að fyrir um það bil tveimur vikum mælti ég fyrir þáltill. um að meta störf heimavinnandi til starfsreynslu þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Einnig höfum við Kvennalistakonur lagt fram á tveimur umliðnum þingum frv. til l. um lengingu fæðingarorlofs þar sem gert er ráð fyrir því að sú skerðing sem heimavinnandi búa við í dag hvað varðar fæðingarorlofsgreiðslur verði afnumin á þann veg að heimavinnandi konur njóti fullra fæðingarorlofsgreiðslna.

Einnig gerðum við Kvennalistakonur í umræðum og við afgreiðslu síðustu skattalaga skömmu fyrir jól á síðasta þingi tillögu um að í staðinn fyrir að mökum heimavinnandi væri veittur nokkurs konar afsláttur fyrir að hafa heimavinnandi á framfæri, þ.e. að svokölluð samsköttun yrði tekin upp, fengju heimavinnandi greiddar þær krónur sem um væri að ræða beint úr ríkissjóði og hefðu þannig sjálfar umráðarétt yfir þeim krónum sem þarna væru á ferðinni.

Þannig hefur ýmislegu af því sem tiltekið er í greinargerðinni hefur því verið hreyft hér á hv. Alþingi. Það hefur stundum verið töluvert erfitt að smíða frambærilegar tillögur um þetta, m.a. vegna þess að svo margt er á huldu um þennan hóp, og þess vegna fagna ég því sérstaklega að þessi till. gerir ráð fyrir því að upplýsingum verði safnað og mat lagt á þau störf sem heimavinnandi inna af höndum.