07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

25. mál, málefni aldraðra

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þessi tillaga spannar vítt svið, flesta þá þætti sem snerta lífsafkomu og aðstöðu aldraðra. Þar kallar margt á. Hækkandi meðalaldur hefur sín áhrif, breyttar fjölskylduaðstæður og breytt fjölskylduform kallar á viðbrögð og þótt margt hafi verið gert er enn fleira óunnið. Ég lýsi fullum stuðningi við þessa tillögu, vænti þess aðeins að sú könnun sem er aðalatriði hennar verði ekki að velkjast of lengi í meðförum og niðurstöður megi liggja fyrir sem fyrst og að í framhaldi af því verði þá unnt að taka til hendi sem fyrst og best jafnhliða þessu og í framhaldi af því.

Ég vildi koma aðeins tvennu að við þessa umræðu. Annars vegar tillöguflutningi sem ég hef verið með uppi um ákveðna lausn fyrir aldrað búandfólk, lausn sem reynd hefur verið á Norðurlöndum með góðum árangri og sem raunar er komin í framkvæmd hér á Suðurlandi fyrir framtak einnar konu og hefur reynst með miklum ágætum. Hér á ég við tillögu mína, sem ég hef flutt nokkrum sinnum án þess að hún fengi hér undirtektir, undirtektir að vísu í umræðum en ekki á þann hátt að hún væri samþykkt, tillögu um að nýta bújarðir, vel hýstar, m.a. og sér í lagi í eigu ríkisins, jarðir í nánd við heilsugæsluþjónustu, þar sem búandfólk gæti dvalið í ellinni, haft smábúskap og notið þar til vissrar aðstoðar, en yfirbygging í mannahaldi yrði í lágmarki, enda hugsað fyrir sæmilega frískt fólk. Ég hef m.a. bent á að margt fólk býr lengur og heldur lengur í óeðlilega stóran bústofn vegna óttans við hin algeru umskipti. Þetta fyrirkomulag er hugsað sem aðlögun fyrir það fólk um leið og því væri séð fyrir verkefnum við hæfi. Ég hef ekki trú á því að lausn af þessu tagi, ef að henni væri skipulega unnið, yrði mjög dýr, a.m.k. ekki eins dýr og margar þær lausnir sem hingað til hafa verið reyndar. Þessa hugmynd á ég ekki sjálfur. Þessari hugmynd var að mér skotið af öldruðu sveitafólki eystra sem þarf að dveljast í þéttbýli og hefði gjarnan viljað hafa annað umhverfi og annað við að vera en það hefur nú. Ég held að ómaksins vert væri að kanna þessa leið til hlítar og líta þá m.a. austur til Blesastaða á Skeiðum og hagnýta þá góðu reynslu sem húsfreyjan þar býr yfir af því myndarheimili sem þar er rekið fyrir aldraða á hennar eigin vegum.

Hitt atriðið, sem ég vildi koma að enn einu sinni, lýtur að möguleikum eldra fólks og aðstandenda þess til að aldraðir megi búa sem lengst að sínu eða hjá sínum. Ég veit að með heimilishjálp og umönnunargreiðslum frá tryggingunum hefur þetta verið auðveldað mjög, en betur má ef duga skal. Ég hef oft sagt það og segi það enn úr þessum ræðustól, og ég fullyrði það, að það er með ólíkindum hvað mín kynslóð t.d., ef ég tæki hana út úr, hún er manni næst, er gjörn á að vilja sem fyrst losna við gamla fólkið á stofnanir og heimili, óeðlilega gjörn á það að vilja losna við gamla fólkið á stofnanir og heimili og þurfa ekki að annast það. Ég held að þetta fari ekki batnandi með nýrri kynslóð eða öðrum kynslóðum sem á eftir koma nema síður væri. Það er að vísu rétt, og það skal tekið fram sem viss afsökun og ekkert úr því dregið, að lífsbaráttan er hörð hjá mörgum, báðir heimilisaðilar útivinnandi og lengur oft en venjulegan lögboðinn vinnutíma, mikil ósköp. En inn í þetta mál kemur yngsta kynslóðin líka, umönnun hennar og lifandi samband við þá sem nenna að hlusta og segja frá og vera hlíf og skjól þegar á bjátar einnig. Þessi þáttur gleymist mörgum, allt of mörgum að ég hygg. Ég held því að enn betur eigi að huga að því af samfélagsins hálfu, bæði sveitarfélaga og ríkis, að tryggja gamla fólkinu sem best að það geti sem lengst, eins og ég hef sagt, búið að sínu eða hjá sínum. Inn í þetta koma fjölmörg atriði sem snerta þetta fólk, einsemdin máske verst, öryggið eða öryggisleysið kannske og lífshamingjan sjálf vitanlega, ekki aðeins þá fyrir þennan aldurshóp heldur ef vel er að staðið fyrir alla aldurshópa. Þetta er spurning um lífsfyllingu fyrir alla aldurshópa og ekki yngstu kynslóðina þá síst.

Á þetta vildi ég leggja áherslu enn einu sinni. Ég tala af eigin reynslu sem ég hygg að sanni mál mitt mjög vel og það eru ábyggilega fleiri sem geta sagt af svipaðri reynslu sem hefur verið þeim á sama jákvæða veginn.

Um meginþætti tillögunnar skal ekki frekar fjölyrt hér, en aðbúnaður og kjör þessa fólks segja kannske meira en flest annað um samfélagsgerð, áherslur samfélagsins, bæði í fjármagni sem öðru, en ekki síður það hugarfar sem kannske skiptir mestu.