21.04.1986
Efri deild: 85. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4261 í B-deild Alþingistíðinda. (3993)

332. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Helgi Seljan) (frh.):

Virðulegi forseti. Það er spurning hvers konar afþreyingarefni á að hafa fyrir þessa hv. deild á meðan hún er aðgerðarlaus í þeim verkum sem meira skipta máli en þetta efni. Ég sé mikið eftir því, úr því að þetta á að vera afþreyingarefni, að maður skyldi ekki útvega sér öllu skemmtilegri texta til að fara með en þann dapurlega texta sem maður verður að fara með varðandi bjórinn.

En ég skal verða við þeim tilmælum virðulegs forseta að drepa tímann í þess orðs fyllstu merkingu þangað til mál koma hér á dagskrá sem þurfa að fá og eiga að fá afgreiðslu. Ég var þar kominn máli mínu að ég hafði vitnað annars vegar í nýlega grein eftir dr. Tómas Helgason - og hefði þó mátt gera það miklu nákvæmar og betur - og í öðru lagi í yfirlækninn á Vogi, Óttar Guðmundsson. Ég hlýt að endurtaka það sem hann segir um þetta mál sérstaklega, með leyfi forseta, í grein sinni í síðasta SÁÁ-blaði:

„Umræða um bjór tröllríður dagblöðum svo mánuðum skiptir og í mörgum greinum eru það talin eðlileg mannréttindi að geta drukkið áfengan bjór við öll hugsanleg tækifæri. Þessi afstaða gerir alkóhólistanum erfitt um vik. Vímugjafinn, sem er að leggja líf hans í rúst, er hafinn til skýjanna í fjölmiðlum og nánustu vinir og félagar telja reglubundna áfengisneyslu eðlilega og sjálfsagða. Þetta getur valdið mikilli firringu þess sem ekki ræður við það að drekka áfengi. Hann telur að hann skeri sig úr á einhvern hátt og sé ekki eins gjaldgengur þjóðfélagsþegn og hinn sem getur lifað eðlilegu lífi samkvæmt þeim áfengisstaðli sem þjóðfélagið viðurkennir.

Þannig skapast mikill tvískinnungur“ - af því að hér var rætt um tvískinnung í kvöld er gott að það komi fram hér hjá Óttari - „varðandi áfengið. Menn eru á einu máli um það tjón og þá manneskjulegu harmleiki sem skapast geta af þessum völdum, en jafnframt vilja menn að áframhaldandi neysla sé leyfð og sem frjálsust. Svo að þetta megi samrýmast verður að horfa með blinda auganu í báðar áttir og segja, eins og einhvers staðar stendur í Lísu í Undralandi: „Hlutirnir eru það sem ég segi að þeir séu.“ Þess vegna er heppilegast að telja þá menn einungis alkóhólista sem bera sjúkdóminn augljóslega með sér og allir geta séð að eru komnir í þrot á öllum sviðum. Þá er búið að skapa ákveðinn hóp sökudólga sem eru fulltrúar áfengisvandamálsins og þá eru hinir, sem ekki eru komnir í daglega drykkju kardimommudropa, stikkfrí og geta drukkið áfram að vild.

En vandamálið er auðvitað miklu stærra en þetta. Rónar eru einungis lítill hluti þeirra sem eiga við áfengisvandamál að stríða og þeir byrjuðu eitt sinn feril sinn sem hófdrykkjumenn en þróunin varð þessi hjá þeim. Skítugi róninn í gráa frakkanum, sem gengur um og betlar peninga á torginu, var einu sinni glæsilegur unglingur, vel klæddur og snyrtilegur, á leiðinni á árshátíð með vasapela í hendinni.“

Ég held að ég láti þetta nægja úr þessari annars athyglisverðu grein Óttars Guðmundssonar. Ég geri það sérstaklega að vitna í grein hans vegna þess að því hefur oft verið haldið fram að þeir, sem standa í forsvari fyrir SÁÁ og hafa þar helst forustu á hendi, vilji ekki taka afstöðu til bjórdrykkjunnar eða þess að leyfa bjórinn sem algera viðbót hér á landi. Hér held ég að Óttar taki af öll tvímæli um það því að hann hefur reynsluna af því að taka við því fólki sem til hans kemur og veit mætavel um hvað hann er að tala bæði af sinni eigin reynslu og reynslunni í öðrum löndum þar sem bjórdrykkja er böl.

Ég held að það hefði verið hollt fyrir alla að lesa Tímann nú um helgina þar sem greint var frá ástandinu á Grænlandi þar sem bjórinn og áfengið flýtur eins og þar er greint frá og raun ber vitni svo engu tali tekur. Bjórinn er sannarlega þar hrein viðbót ofan á allt það hrikalega vandamál sem áfengisneysla er á Grænlandi.

Það er ástæða til að hugleiða hvað aðrar þjóðir - og ekki ómerkilegar - eru að gera í þessum efnum, fara yfir það hvað hjá þeim er að gerast, jafnvel í þeim löndum sem við erum nú kannske ekki alltaf hrifin af hvað eru að aðhafast, þ.e. stórveldin, Bandaríkjamenn og Rússar. En ég vitna nú orðrétt í það sem þar hefur verið sagt um þau mál alveg nýlega. Ég ætla að benda á eftirfarandi sem er byggt á greinargóðum upplýsingum, raunsönnum tíðindum en ekki því sem menn láta oft frá sér fara í hita leiksins.

Hin merkustu tíðindi, sem hafa gerst í áfengisvörnum, eru í Bandaríkjunum þau að lögaldur til áfengiskaupa þar er nú 21 ár í flestum fylkjum. Stjórnin í Washington leggur áherslu á að þau fylki, sem enn hafa lægri lögaldur, hækki hann. Að öðrum kosti verði felld niður framlög ríkisins til vegamála.

Refsingar fyrir ölvun við akstur eru þungar. Í New York eru veitingastaðir skyldaðir til að hengja upp á áberandi stað viðvörun frá borgarstjórn þar sem ófrískar konur eru minntar á að áfengisneysla kunni að skaða barnið sem þær ganga með.

Dregið hefur úr neyslu áfengis, einkum öls og brenndra drykkja, en neysla óáfengra drykkja aukist. Talað er um nýbindindi þar vestra. Rúmur þriðjungur fullorðinna Bandaríkjamanna er bindindisfólk.

Ráðamenn lýsa yfir að áfengisneysla sé hættulegri framtíð þjóðarinnar en Sovétmenn og er þá mikið sagt. Í Sovétríkjunum hefur lögaldur til áfengiskaupa verið

hækkaður eins og í Bandaríkjunum. Áfengisveitingum hefur verið hætt þar við opinberar athafnir í stórum stíl, áfengissölustöðum hefur verið fækkað, opnunartími styttur og reynt að beina neyslunni að óáfengum drykkjum. Refsingar fyrir ölvun eru hertar. Sérstaklega ber að athuga að fyrir nokkrum árum ætluðu Sovétmenn að bæta ástandið með því að hvetja fólk til að drekka áfengt öl í stað sterkra drykkja. Sú tilraun fór út um þúfur, gerði slæmt ástand enn verra. Ráðamenn þar lýsa því yfir þegar þeir eru að berjast gegn þessu mikla böli að áfengisneysla þar sé hættulegri framtíð þjóðarinnar en jafnvel sjálf Vesturveldin og er þá mikið sagt einnig þar.

Í Bretlandi gerðist það, sem ekki þarf reyndar að tíunda hér, ætti ekki að þurfa að gera a.m.k., að í kjölfar hörmulegra slysa og óeirða við íþróttavelli hefur sala áfengs öls í grennd við þá verið bönnuð.

Þetta læt ég nægja um það sem verið er að gera í þessum málum í þeim ríkjum heims sem við lítum nú gjarnan til af eðlilegum ástæðum hvernig haga sér gagnvart þegnum sínum til þess að þegnar þeirra séu sem best undir það búnir að verja hagsmuni ríkisins og sækja fram á öllum sviðum.

Ég vil þessu næst koma á framfæri nokkrum minnisatriðum sem ég veit að áfengisvarnaráð afhenti ásamt öðrum gögnum allshn. Nd. á sínum tíma og full ástæða er til að ítreka hér. Með leyfi virðulegs forseta les ég þau hér orðrétt upp.

„1. Undanfarin misseri hefur mjög gætt áróðurs þeirra, sem ábata hafa af áfengissölu, fyrir auknu frjálsræði í dreifingu áfengis og aukinni neyslu. Á sama tíma og talið er rétt og skylt að lögbjóða notkun bílbelta af öryggisástæðum og takmarka tóbaksreykingar af heilsufarslegum ástæðum láta æ fleiri sefjast af andróðri hagsmunaafla gegn takmörkun þar sem vímuefnið áfengi á í hlut. Þó látast a.m.k. þrefalt fleiri af völdum áfengisneyslu en í umferðarslysum. Aðeins fjórðungur þeirra sem látast vegna drykkju er úr hópi er kallast ofdrykkjumenn. Samt er sífellt reynt að kenna þeim um allt tjón sem áfengið veldur.“

Áfengisvarnaráði, sem reynir að gæta skyldu sinnar sem hlutlaus ríkisstofnun, hefur ekki tekist að finna neitt land í heiminum þar sem neysla áfengs öls hefur orðið til að draga úr drykkju og tjóni af hennar völdum. Það væri raunar gaman að fá upplýsingar frá þeim, sem flytja þetta mál af ofurkappi hér inn í þingið ár eftir ár, hvaða reynslu þeir hafa til þess að benda á frá öðrum þjóðum þar sem ástand í þessum málum hefur batnað vegna þess að áfengt öl flýtur þar yfir allt.

Marktækar kannanir á viðhorfum til áfengismála eru vandasamar og ekki á færi annarra en hlutlausra kunnáttumanna er beita vísindalegum aðferðum af ýtrustu nákvæmni. Það er því barnalegt að gera ráð fyrir því að í almennum könnunum komi fram óvefengjanleg sannindi um raunverulega afstöðu þjóðarinnar til áfengismála. Það sagði ég raunar í fyrra hér, þegar rætt var um hvort við ættum að efna til þjóðaratkvæðis um þetta mál, að ég væri í raun og veru ekkert hræddur við það þjóðaratkvæði þegar öll gögn lægju fyrir og ef, og það er auðvitað stórt ef, áfengisauðmagnið, sem auðvitað stendur á bak við þetta meira og minna, fengi ekki að leika lausum hala í því áróðursstríði, sem óneitanlega yrði þarna háð, því að við vitum að um leið og þessi smuga er opnuð kemur það til sögunnar þar eins og alls staðar annars staðar.

Ég gæti haldið hér áfram og nefnt dæmi sem áfengisvarnaráð hefur látið frá sér fara og ég tel að mönnum sé skylt að koma a.m.k. inn í þingtíðindi.

Samkvæmt könnun er það staðreynd að um 70% barna í 7. bekk grunnskóla í Reykjavík neyta ekki áfengis. Hlutfallið kann að vera svipað í grunnskólum annars staðar. Hætt er við að hlutfallið yrði óhagstæðara ef áfengt öl yrði lögleyft.

Í þeim nágrannalöndum vorum þar sem bjórdrykkja er mikil, svo sem í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi og Írlandi, er neysla annarra vímuefna en áfengis mjög mikið og vaxandi vandamál. Það er lögmál vímuefnamisnotkunar að vímuefnaneytandinn byrjar yfirleitt á veikum vímuefnum en fer yfir í sterkari og hann byrjar á smáum skömmtum og fer yfir í stærri skammta. Áfengur bjór inniheldur vímuefnið vínanda og áhrif þess eru jafnskaðleg fyrir flesta vefi líkamans, hvort heldur það kemur inn í hann blandað miklu eða litlu vatni.

Varðandi tvískinnung í þessum málum, varðandi innflutning og ýmsar undanþágur varðandi áfengt öl, þá er bent á það af áfengisvarnaráði að prófessor Sigurður Líndal álítur að innflutningur áfengs öls sé ólöglegur. Lögfræðingarnir Finnur Torfi Stefánsson og Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri komust að sömu niðurstöðu er þeir rannsökuðu lögmæti innflutnings áfengs öls að tilhlutan fyrrv. dómsmrh.

Fjölgun vínveitingahúsa er ekki náttúrulögmál, en ráðherra veitir leyfin og hefur heimild til að afturkalla þau eða takmarka, bæði hvað snertir veitingatíma og hvaða tegundir má veita. Borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórnir og sýslunefndir geta synjað ráðherra um heimildir til að gefa út vínveitingaleyfi. Það er rétt að fara sérstaklega ofan í þetta núna þegar við erum að fjalla um frv. hér í hv. deild, sem um eru býsna miklar deilur hér, hvort sem hægt er nú að setja þær niður eða ekki, um hver skuli hafa endanlegt ákvörðunarvald um vínveitingaleyfin. Hingað til hefur dómsmrh. haft þessi leyfi í sínum höndum endanlega til úrskurðar, en nú er spurning um hvort sveitarstjórn eigi alfarið að hafa hér úrslitavald eða hvort viðkomandi lögreglustjóri á hverjum tíma á að hafa þetta lokavald.

Ég hef lýst því yfir í umræðum um þetta mál og geri það enn þá að ég tel eðlilegt að sá aðili sem á að hafa umsjón með því að þetta leyfi sé haldið, að það sé farið eftir settum reglum, að sá hinn sami sem getur svipt vissan aðila og vissa aðila leyfum eigi einnig að hafa veitingarvaldið í sínum höndum. Þá er það eðli málsins samkvæmt lögreglustjóri, bæjarfógeti eða sýslumaður á hverjum stað sem á að fara með þetta vald. Annars er hann, eins og lögreglustjórinn í Reykjavík sagði á nefndarfundi í morgun, í raun og veru óþörf skrautfjöður sem best er að sleppa þá út úr þessu frv. með öllu. En þetta snertir nú annað mál sem hér á eftir að koma á dagskrá eflaust í framhaldi af nefndarstörfum um endanlega gerð þess máls.

Þá held ég að það sé rétt að víkja að þeim kafla sem gæti orðið býsna langur ef mikinn tíma þarf að drepa í kvöld, eins og mér skilst á virðulegum forseta, um ákveðnar staðreyndir um áfengt öl sem komið hefur verið á framfæri við alla alþm. af því ráði sem Alþingi sjálft kýs til að leita til umsagnar um hin ýmsu atriði sem varða þessi mál. Ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni af þeim einföldu ástæðum að áfengisvarnaráð hefur orðið fyrir óréttmætum ásökunum um að það sé ekki óvilhallur aðili, það sé ekki aðili sem fari eftir vísindalegum niðurstöðum. Maður hefur jafnvel séð greinar í blöðum eftir annars ágæta greinda doktora sem hafa reynt að gera starfsemi þessa ráðs tortryggilega og reynt að snúa út úr ákveðnum staðreyndum sem það hefur borið á borð. Það er hryggilegt að svo skuli vera um annars greinda menn að þorsti þeirra skuli gjörsamlega blinda þeim sýn. Nóg er nú að það fari í önnur skynfæri líkamans.

En áfengisvarnaráð hefur látið frá sér fara ákveðnar staðreyndir um áfengt öl og ég tel líka skylt að koma þeim hér á framfæri, með leyfi virðulegs forseta:

„Sala milliöls var leyfð í Svíþjóð 1965. Þeir sem fengu því til leiðar komið héldu því fram að ölneysla drægi úr neyslu sterkra drykkja. Reynslan varð þveröfug. Unglinga- og barnadrykkja jókst gífurlega og sænska þingið bannaði framleiðslu og sölu milliöls frá 1. júlí 1977. Á fyrsta árinu eftir milliölsbannið minnkaði áfengisneysla Svía um 10% miðað við hreinan vínanda. Neysla öls allra tegunda minnkaði um 24% miðað við áfengismagn. Á milliölsáratugnum í Svíþjóð jókst áfengisneysla um 39,5%. Á sama tímabili jókst neyslan á Íslandi, og þykir okkur þó nóg um, um 26,1%.

Félmrh. Svía segir m.a. um þetta mál: Ég er eindregið þeirrar skoðunar að á nýliðnu tíu ára tímabili milliöls í Svíþjóð hafi grunnur verið lagður að drykkjusýki sem brátt muni valda miklum vanda.

Gunnar Ågren í Stokkhólmi, doktor í félagslækningum, segir nýlega í blaðaviðtali að hörmulegar afleiðingar barna- og unglingadrykkjunnar á milliölsáratugnum séu nú að koma í ljós. Afleiðingar öldrykkjunnar sem dr. Gunnar Ágren minnist á eru einkum heilaskemmdir. Þær gerast nú miklu tíðari meðal fólks á þrítugsaldri en verið hefur, einkum þó meðal þeirra sem komnir eru undir þrítugt. Einkennin eru minnisleysi og ýmsar taugatruflanir. Lifrarmein, skorpulifur og flogaveiki koma nú oftar fyrir í þessum aldursflokkum en fyrr. Svíar sjá þó fram á betri tíð að áliti dr. Gunnars. Eins og fyrr segir drekka unglingar nú æ minna og byrja seinna en áður var og munu þessar hörmungar væntanlega ganga yfir á álíka mörgum árum og milliölsdrykkjan stóð. Dr. Gunnar Ågren telur að til að draga svo að um muni úr tjóni af völdum drykkju þurfi að koma til auknar hömlur á dreifingu þessa vímuefnis og jafnvel skráning áfengiskaupa á nafn.

Í Finnlandi var sala áfengs öls gefin frjáls 1968. Þá var áfengisneysla Finna minni en annarra norrænna þjóða að Íslendingum undanskildum. Eftir að sala áfengs öls hófst hefur keyrt um þverbak hvað drykkju snertir þar í landi. Nú drekka Danir einir Norðurlandaþjóða meira áfengi en Finnar. Margir telja drykkjuvenjum Finna svipa að ýmsu leyti til drykkjusiða Íslendinga.

Á tímabilinu frá 1969 til 1974 jókst áfengisneysla Finna um 52,4%. Á sama tíma jókst neyslan hérlendis um 35% og þótti mörgum nóg. Þegar sala áfengs öls hafði verið leyfð í rúm tvö ár í Finnlandi hafði ofbeldisglæpum og árásum fjölgað um 51% og hinum alvarlegustu þeirra glæpa, morðum, um 61,1%.

Danir eru mestu bjórdrykkjumenn meðal norrænna þjóða. Þar eykst ofneysla sterkra drykkja jafnt og þétt. Þeir drekka allt að þrisvar sinnum meira en Íslendingar. Þar er öldrykkja ekki einungis vandamál á fjölmörgum vinnustöðum heldur einnig í skólum. Ofneysla bjórs er algeng meðal barna þar í landi og ofdrykkja skólabarna stórfellt vandamál. Meðalaldur við upphaf áfengisneyslu mun um það bil fjórum árum lægri en hérlendis. Í helmingi sjúkrarúma í Kaupmannahöfn og á Norður-Sjálandi er fólk sem þangað er komið vegna drykkju.

Samkvæmt nýrri könnun, sem samband amtsráða í Danmörku hefur gengist fyrir, kemur í ljós að meðalaldur neytenda kannabisefna hefur farið hækkandi undanfarin ár eða úr 18-19 árum 1970 í 25-26 ár nú, hefur farið hækkandi undanfarin ár. Við hefur tekið meðal unglinga misnotkun á áfengu öli og pillum og virðist slík ofneysla nú nánast faraldur og að ýmsu leyti jafnvel erfiðari viðfangs en kannabisneyslan.

Við rannsókn sem Karsten Börup geðlæknir í Slagelse hefur nýlega staðið fyrir kom í ljós að danskir unglingar drekka nú meira en nokkru sinni fyrr. Ekki er óvanalegt að 14-15 ára börn drekki heila brennivínsflösku á dag, oft ásamt sterkum taugalyfjum. Niðurstaðan veldur sérfræðingum þungum áhyggjum. Þeir gera af þessum sökum ráð fyrir að 10% úr hverjum aldursflokki muni verða fyrir alvarlegum heilaskemmdum.

Vestur-Þjóðverjar ásamt Tékkum neyta meira bjórs en aðrar þjóðir Evrópu. Þar jókst heildarneysla áfengis á árunum 1950-1967 um 196%. Á sama tíma jókst neyslan hérlendis um 70% og þótti flestum meira en nóg. Þýska blaðið Der Spiegel, sem vart verður vænt um bindindisáróður, helgar nýlega drykkjusýki unglinga forsíðu og verulegan hluta eins tölublaðs. Háskólarnir í Hamborg, Frankfurt og Mainz rannsökuðu fyrir nokkrum árum áfengisneyslu ökumanna og ölvun við akstur í Þýskalandi. Rannsóknin leiddi í ljós að aðalskaðvaldurinn er bjórinn, en um helming allra óhappa á vegunum mátti rekja til hans. Ef við bætast þau tilfelli þar sem bjór var drukkinn með víni eða sterkari drykkjum hækkar hlutfallið í 75%.

Í Belgíu er yfir 70% alls áfengis sem neytt er sterkt öl. Þar eru það um það bil 95% allra drykkjusjúklinga öldrykkjumenn, þ.e. menn sem drekka ekki aðra áfenga drykki en öl.

Formaður samtaka æskulýðsheimila, forstjóri í Stokkhólmi, segir: Öldrykkja er mesta og alvarlegasta vandamál æskulýðsheimilanna. Auðveldara hefur verið að fást við vandamál af völdum ólöglegra fíkniefna.

Vitað er að unglingar og börn hefja áfengisneyslu oft og tíðum með öldrykkju. Hún veldur m.a. því hversu margir unglingar og jafnvel börn þjást af drykkjusýki í ölneyslulöndum.

Aðgát sú sem sjálfsögð þykir gagnvart sterkara áfengi nær síður til ölsins. Það hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér aukna hættu á áfengisneyslu unglinga og jafnvel barna. Sú hefur orðið raunin á í löndum sem leyfa bruggun og sölu á áfengu öli.

Hætta er á að auðveldur aðgangur að áfengu öli leiði til aukinnar drykkju á vinnustöðum og þar með til meiri hættu á vinnuslysum, lélegum vinnubrögðum og til tíðari fjarvista. Nýjar rannsóknir sýna að því fleiri áfengistegundir sem eru á boðstólum og því víðar, þeim mun meira er drukkið. Drykkjusjúklingum fer fjölgandi er drykkja eykst.

Jafnslæmt er fyrir drykkjusjúkling að drekka eina ölkrús og viskístaup. Á þennan sannleika ber að leggja megináherslu, en það er líka jafnhættulegt fyrir barnið eða unglinginn og börn eiga ábyggilega greiðari aðgang að öli en viskíi eða sú er a.m.k. raunin meðal nágrannaþjóða okkar.

Eina raunhæfa leiðin til að koma í veg fyrir fjölgun drykkjusjúkra er að draga úr neyslunni. Til þess eru ýmis ráð og þótt góðra gjalda sé vert að lækna drykkjusjúka og gefa þeim að nýju þrek og sjálfstraust er hitt þó mikilvægara að leitast við að koma í veg fyrir að menn verði áfengi að bráð.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hina dönsku drykkjusiði Grænlendinga. Flestir hafa heyrt um afleiðingar þeirra. Ég vitnaði áður til ítarlegrar greinar í Tímanum sem lýsti þeim hörmungum sem öldrykkjan kannske öllu öðru fremur hefur leitt yfir Grænlendinga.

Þá kem ég að hinum fjárhagslega ábata sem ég held að sé rétt að leggja hér áherslu á.

Ölgerðir eyða hundruðum milljóna kr. í áróður, beinan og óbeinan. Óafvitandi gerast ýmsir sakleysingjar áróðursmenn þeirra afla sem hafa hag af því að sem flestir verði háðir því fíkniefni sem lögleyft er á Vesturlöndum, áfengi. Því má bæta við að samtök bruggara greiða hinum lakari blöðum stórfé fyrir að birta staðleysur um áfengismál, oft undir yfirskini vísindamennsku.

Ef enginn hefði fjárhagslegan ábata af drykkju annarra og þar með þeim hörmungum sem af henni hljótast væri áfengismálastefna þjóðarinnar raunsærri og heiðarlegri, sbr. baráttu gegn öðrum vágestum, svo sem holdsveiki, lús og berklum.

Nú er að störfum nefnd sem skipuð var af heilbr.- og trmrh. í samræmi við þál. sem samþykkt var samhljóða á Alþingi 7. maí 1981. Sú nefnd vinnur að undirbúningi tillagna um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum. Vart er svo brýnt að bæta fleiri tegundum áfengis á sölulista ÁTVR og vínsöluhúsa í landinu að ekki megi bíða þess að nefndinni gefist kostur á að ljúka störfum og leggja tillögur fyrir ríkisstj."

Ég læt þessum lestri frá áfengisvarnaráði lokið þó að ég gæti haldið býsna lengi áfram enn því að margt er það sem ber að hafa í huga og okkur er í raun og veru skylt að láta ekki tilfinningarnar einar ráða í þessum efnum eða spurningu um skoðun með eða móti. Við eigum að líta hlutlaust á þetta mál, afla okkur sem bestrar vitneskju um það frá öllum hliðum. Ég hef reynt að verða mér úti um þau rök sem fyrir því eru að leyfa áfengt öl. Við þekkjum þau rök býsna vel. En rökheld eru þau ekki. Það hefur t.d. hvergi komið fram, svo að ég viti til, að þeir sem mæla með áfengu öli reikni í alvöru með því að það verði hægt að draga að neinu marki úr neyslu sterkari drykkja.

Ég held að það sé öllum ljóst sem vilja um þessi mál hugsa af einhverri alvöru að áfengt öl getur aldrei orðið annað en hrein viðbót við það sem þegar er fyrir og sem við erum öll að tala um sífellt að sé eitthvert mesta böl þjóðfélagsins, böl sem við eigum að snúast við með öllum ráðum. Þess vegna hef ég sett fram þá kenningu, sem ég held að sé orðin býsna vinsæl hjá mörgum, að setja hlutina í mjög einfalt samhengi. Þegar menn eru að berjast gegn vímuefnum eiga þeir við vondu vímuefnin, þ.e. þau ólöglegu, þau vímuefni sem við köllum eiturlyf oft einu nafni, en um leið og þetta er gert eru önnur vímuefni sem ekki flokkast þar undir. Það er áfengið. Ég tala nú ekki um svo saklaust efni sem bjórinn eins og hann er túlkaður af þessum aðilum. Þetta eru góð vímuefni og sem ber að sjálfsögðu að taka fullt tillit til að megi vera sem víðast og frjálsast á boðstólum hvar sem er.

Það er nefnilega svo að mörgum þykir býsna gott að veifa því ranga tré að segja: Ég er á móti vímuefnum. Ég vil herða baráttuna gegn vímuefnunum - og meina í raun og veru þeim vímuefnum sem þeir neyta ekki sjálfir, þeim vímuefnum sem óneitanlega ógna okkur í allri sinni eyðileggingu, sem við vitum að þau hafa í för með sér fyrir fjölda fólks, en um leið segja menn í raun og veru: Það er allt í lagi með efnin sem ég neyti sjálfur. Þau eru saklaus. Þau leyfum við. Þau skulum við jafnvel auka og margfalda eins vel og við mögulega getum.

Í framhaldi af þessu er rétt að ég lesi yfir það nál. sem ég hef látið frá mér fara um þetta mál, þannig að það komist einnig inn í þingtíðindin eins og það er undirritað 16. apríl, þó að það hafi ekki verið tekið hér á dagskrá fyrr, einkanlega vegna þess að ágreiningsmál sem þm. hafa verið með hér almennt hafa hreinlega ekki fengist rædd í þinginu af þeirri ástæðu að menn hafi verið nokkuð sammála um að frv. ríkisstj., þau sem hún vildi láta ná fram að ganga, kæmu hér til umræðu. Þar hafa stjórnarliðar alveg sérlega verið iðnir við að tefja tímann og staðið oft lengi í ræðustól alveg óvænt fyrir okkur stjórnarandstæðinga sem höfum reynt á alla vegu að flýta fyrir málum þeirra.

Ég verð að segja að þegar maður stendur andspænis því að þingi er rétt að verða lokið og það er greinilega meining ríkisstj. og þeirra nefndarformanna sem þar eru í verkum að sjá til þess að næstum ekkert af málum stjórnarandstöðunnar nái fram að ganga, hversu hlynntir sem þeir kunna nú að vera þeim og hversu góð sem þeim þykja þessi mál, að hver till. á fætur annarri fær að daga uppi í nefndum þingsins af þeirri ástæðu að einhverjir aðilar hafa ákveðið það, eins og einn nefndarformaðurinn ku hafa orðað það, að það skyldi hreinlega ekkert af því ná fram að ganga, þá vekur það býsna mikla furðu að þetta þmfrv. skuli þó vera afgreitt úr nefnd með ágreiningi og tekið svo til umræðu hér þegar vitað er að það er útilokað að það fái afgreiðslu, enda aldrei verið til þess ætlast af flm. vegna þess hversu síðbúið það var fyrir þetta þing, kom seint fram og vitað var að um það yrðu deildar meiningar nákvæmlega eins og hefur verið á síðustu þingum.

En látum það vera þó þau vinnubrögð hafi verið viðhöfð að taka þetta þmfrv. svo fram yfir ýmis önnur þmfrv., miklu fyrr fram komin í þessari hv. deild og miklu fyrr fram lögð, úr því þetta er það áhugamál sem menn hafa brýnast á Alþingi Íslendinga, a.m.k. sumir hverjir.

Í nál. mínu á þskj. 883 segir svo, með leyfi forseta: „Undirritaður getur af eðlilegum ástæðum ekki stutt frv. þetta. Megintilgangur þess er að dómi undirritaðs sá að bæta enn við þá ofneyslu vímuefna sem alls staðar blasir við þó hann efi ekki að önnur muni ætlan flm. Í þessu efni ber fyrst og fremst að taka tillit til álits þeirra sem af ýmsum ástæðum þekkja gleggst hér til og hafa kannað þessi mál út frá vitrænu og vísindalegu sjónarmiði. Um þeirra álit velkist enginn í vafa sem kynnt hefur sér málið.

Vá vímuefna hvers konar er nú mjög umrædd og ekki að ástæðulausu. Gegn þeirri vá vilja menn snúast af alefli og alvöru, en enn þá fást menn að mestu við illar afleiðingar. Fátt gerist í fyrirbyggjandi starfi enn sem komið er.

Á sama tíma og talað er um sérstakt heilbrigðisátak fram til næstu aldamóta, sem ekki hvað síst snýr að átaki og forvarnarstarfi í vímuefnamálum, er löggjafarþing Íslendinga að fjalla um leið til aukningar vandans, viðbót ofan á allt sem fyrir er og öllu hugsandi fólki þykir meira en nóg um. Þetta er í senn dapurleg og umhugsunarverð staðreynd.

Í þessu nál. kemur undirritaður á framfæri nokkrum ábendingum og áliti merkra aðila á málum þessu frv. tengdum. Skal þó aðeins örfátt talið.

Meðal þeirra aðila, sem látið hafa í ljós álit á „bjórmálinu“, skal fyrst fræga telja, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. - Einn framkvæmdastjóri hennar í Sviss hefur látið svo um mælt að það yrði ekki aðeins áfall fyrir Íslendinga ef áfengt öl yrði lögleyft heldur einnig fyrir áætlun stofnunarinnar um heilbrigði öllum til handa um aldamót. - Það er því í hæsta máta undarlegt, ef við ætlum að stefna að þessu marki, að byrja ferðina í átt að því með lagasetningu sem dregur mjög úr möguleikum okkar á að komast á leiðarenda.

Rétt er að minna á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur til að þjóðir dragi úr áfengisneyslu, a.m.k. um fjórðung (25%) fyrir árið 2000.

Rannsóknastofnun Ontario-fylkis í vímuefnamálum er þekktasta stofnun sinnar tegundar í heimi og vinnur náið með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Tvisvar hefur verið leitað álits þeirrar stofnunar á hverjar afleiðingar líklegast sé að samþykkt ,ölfrumvarps“ hefði á Íslandi. Svörin eru ótvíræð: Neysla áfengis mun aukast og þá einnig tjónið sem af henni hlýst.

Nýlegar rannsóknir, sem gerðar hafa verið í háskólanum í Mainz, í hinu mikla bjórdrykkjulandi, Þýska sambandslýðveldinu, leiða í ljós að bjórdrykkja er skaðvænlegri fólki sem þjáist af magasári en neysla víns og brenndra drykkja, og eru slíkar veigar þó engir heilsudrykkir að flestra dómi.

En því er þessa getið hér að þeir, sem láta hafa sig til að tala eða skrifa um „hollustu“ áfengs öls, vitna tíðum í Þjóðverja. Vill þá oft gleymast að bruggarar hafa í sinni þjónustu mýgrút „sérfræðinga“ sem birta það eitt sem er húsbóndanum í hag.

Öldrykkja hefur hvergi aukist meira á síðustu árum en í þróunarlöndum Afríku. Þá neyta Grænlendingar áfengis mestan part í bjór. Flestir vita hvernig ástandið í áfengismálum er þar. Rannsóknir, sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum (Detroit), benda til að bein tengsl séu milli öldrykkju og neyslu sterkra vímuefna. Það kemur í rauninni heim og saman við það að vandræði vegna ólöglegra vímuefna eru hvergi í Evrópu meiri en í þeim löndum þar sem ölneysla er almennust, t.d. Danmörku, Þýskalandi og Bretlandseyjum.

Þuríður Jónsdóttir félagsráðgjafi hefur bæði starfað hér á landi og í Kanada. Hún sagði í blaðaviðtali í fyrra:

„Í Halifax leitaði yngra fólk hjálpar en hér vegna vímugjafaneyslu árum saman. Þar var um tvær tegundir að ræða, áfengt öl og hass.“

Meðal þekktra erlendra sérfræðinga, sem hafa tjáð sig um tjón af völdum öldrykkju, má nefna dr. Gunnar Ågren í Stokkhólmi, sem ég vitnaði til hér áðan sérstaklega, sem bendir m.a. á að hörmulegar afleiðingar barna- og unglingadrykkju á milliölsáratugnum (1965-1977) séu enn að koma í ljós (heilaskemmdir, lifrarmein, flogaveiki).

Þeir vísindamenn íslenskir, sem gerst þekkja til þessara mála, leggjast eindregið gegn því að áfengt öl verði lögleyft hér. Má þar tilnefna prófessorana dr. Tómas Helgason og dr. Þorkel Jóhannesson og Jóhannes Bergsveinsson yfirlækni. Einnig er rétt að minna á ummæli læknanna Guðsteins Þengilssonar, Jóseps Blöndals, Óttars Guðmundssonar, sem ég vitnaði til hér í kvöld, greinar hans í SÁÁ-blaðinu, Péturs Péturssonar og Þórarins Tyrfingssonar.

Að lokum mætti minna á eftirfarandi orð úr ræðu Vilmundar heitins Jónssonar landlæknis hér á hinu háa Alþingi þegar fyrsta ölfrv. var til umræðu 1932:

„Ég verð því að segja það, að þegar verið er að brigsla um blindni í áfengismálunum, getur það ekki átt við aðra en þá, sem eru svo blindir á þá reynslu, sem við höfum fengið með öllum tilslökununum, að þeir ætla sér að bæta ástandið með því að gera eina tilslökunina enn.“ -

Síðan segi ég að undirritaður muni rekja ítarlega í framsögu fyrir þessu nál. þau ummæli sem vitnað er til hér á undan. Um önnur atriði, svo sem form frv. og fleira því um líkt, áskilur undirritaður sér allan rétt til athugasemda í framsögu. Undirritaður leggur til að frv. sem slíkt með sínum megintilgangi verði fellt.

Þetta er mín niðurstaða og hún er byggð bæði á skoðun og eins á því að ég geng ekki blindandi til þessa leiks. Ég geng ekki blindandi til þess að bæta við þá vímuefnavá sem allir segja að sé orðin allt of mikil. Ég ætla flm. þessa frv. það ekki heldur. Það eru einhver önnur sjónarmið, einhver þrákelkni, sem veldur því að þeim finnst þeir endilega verða að þóknast einhverju ímynduðu almenningsáliti og flytja þetta frv. hér inn ár eftir ár. Jafnágætur maður og fyrri flm. þessa frv., sem er vel að sér í næringarfræði og ýmsu sem að því lýtur, ætti a.m.k. að vita betur áður en hann leggur slíkt frv. á borð. Þó er kannske kátlegast af öllu að þeir aðilar sem greiddu atkvæði á móti því að þjóðin fengi að dæma um þetta mál skuli nú sjá það helst til bjargar að skjóta þessu máli engu að síður til þjóðarinnar eins og nú er gert. Ég átta mig hreinlega alls ekki á því hvað þeir hv. flm. eru að fara. Ég veit ekki í raun og veru hvað þeir eru að gera - og nú geri ég hlé á máli mínu svo að hv. 4. þm. Vesturl. geti talað við hæstv. sjútvrh., þannig að virðulegur forseti getur líka látið drepa tímann með þeim hætti að láta hv. 4. þm. Vesturl. skamma hæstv. sjútvrh. hér inni einnig. (Forseti: Ég held að hv. þm. og hæstv. ráðherra séu nú komnir í sátt.) Þeir eru örugglega ekki komnir í sátt en það hefur lægt mikið á þeim miðum.

Ég vil hins vegar óska eftir því og þætti það viðkunnanlegast fyrir þessa hv. deild að meðan við erum að reyna að koma hér í gegn ýmsum málum, málum sem við erum kannske ekki öll sammála um, en málum sem þó er samkomulag um að þoka í gegnum þingið, meðan við bíðum t.d. eftir því að fá húsnæðismálafrv. til meðferðar, mál sem getur skipt sköpum fyrir húsbyggjendur og húskaupendur næstu ára, séum við ekki að skemmta skrattanum með því að vera með umræður um þetta mál, jafntilgangslausar og ég tel þær vera, í ljósi þess að hvort sem við greiðum atkvæði um þetta mál í framhaldi af þessu eða ekki er hitt alveg dagljóst að í gegnum Nd. fer þetta mál ekki. Það strandar því hér og fer ekki lengra og það vita flm. betur en allir aðrir. Ég vona því að hv. þingdeild beri gæfu til þess að fella þetta frv. þannig að það þurfi aldrei að láta reyna á það.

Umr. frestað.