21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4271 í B-deild Alþingistíðinda. (3997)

421. mál, framhaldsskólar

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég flyt frv. til l. um framhaldsskóla ásamt tveimur öðrum þm. Alþb., Helga Seljan og Skúla Alexanderssyni. Ég vil taka það fram að allur þingflokkur Alþb. stendur að flutningi þessa frv. Það er samið af nefnd á vegum Alþb. sem lagt hefur mikla vinnu af mörkum til að koma saman þessu ítarlega og vandaða frv. Við áttum sæti í þessari nefnd, ég og hv. þm. í Nd., sem einnig á sæti í menntmn., Hjörleifur Guttormsson.

Eins og ég nefndi er þetta býsna ítarlegt frv. Það er 44 greinar auk bráðabirgðaákvæða og í því eru satt best að segja fjöldamargar nýjar hugmyndir og stefnumarkandi nýmæli sem ég mun rekja hér.

Til að auðvelda skilning á þessu frv. ætla ég að gefa fyrst stutt yfirlit yfir meginatriði þess.

Í fyrsta lagi er í frv. afnumin sú mismunun sem verið hefur milli verknáms og bóknáms að því er varðar þátttöku ríkisins í fjármögnun skólahalds. Sömu kostnaðarákvæði gilda skv. frv. um allt nám á framhaldsskólastigi ef frá eru taldir sérgreinaskólar sem starfræktir eru fyrir landið allt.

Lagt er til að ríkið kosti slíka skóla að öllu leyti og það sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, til viðbótar við að verið er að afnema þessa mismunun, sem verið hefur milli verknáms og bóknáms, er að kostnaðarákvæðin eru algjörlega sambærileg gagnvart öllum sveitarfélögum í landinu.

Í öðru lagi er rétt að benda á að með þessu frv. er reynt að tryggja sem greiðastar leiðir fyrir nemendur milli skóla og milli námsbrauta.

Í þriðja lagi er það áberandi einkenni frv. að dregið er verulega úr ákvarðanavaldi menntmrn. og völdum þess er dreift til fræðsluumdæmanna. Þetta lýsir sér í því að fræðsluráðum eru ætluð mikil völd í þessu samhengi og fræðsluráðin eru kosin beinni kosningu af kjósendum í tengslum við sveitarstjórnarkosningar þannig að úr verður valdastofnun sem sækir vald sitt beint til kjósendanna og hefur endanlegt ákvörðunarvald í fjölmörgum málum sem varða rekstur og uppbyggingu framhaldsskólanna í hverju fræðsluumdæmi. Fræðslustjórar verða framkvæmdastjórar fræðsluráðanna. Raunar er rétt að geta þess að við gerum ráð fyrir því að þessum fræðsluráðum, þótt þau yrðu kosin á allt annan hátt en núverandi fræðsluráð eru kosin því að þau eru kosin af landshlutasamtökum sveitarfélaga, væri ætlað það hlutverk að hafa með höndum yfirumsjón með grunnskólum í sínu fræðsluumdæmi undir yfirstjórn menntmrn. eins og grunnskólalögin gera ráð fyrir.

Í fjórða lagi er rétt að benda á það nýmæli frv. að skólastjórn skal skipuð fulltrúum kennara, nemenda og annarra starfsmanna skólanna eftir nánari reglum sem fræðsluráð setur. Skólastjórn fer með málefni hvers skóla skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Nýmælið sem í þessu felst er að sjálfsögðu það að skólastjórnin er kosin af kennurum, nemendum og öðrum starfsmönnum skólanna.

Þá er rétt að nefna það nýmæli að skólastjórnin kýs skólastjórann en skólastjórar framhaldsskólastigsins eins og grunnskólastigsins eru í dag skipaðir af menntmrh.

Í fimmta lagi vil ég nefna það nýmæli sem í þessum lögum felst að það er skólastjóri sem ræður kennarana, sbr. 26. gr. frv., en í því felst veruleg valddreifing því að í dag eru allir kennarar skipaðir af menntmrn.

Í sjötta lagi vil ég nefna það nýmæli að gert er ráð fyrir að sveitarfélögin myndi svokallaðan framhaldsskólasjóð í hverju fræðsluumdæmi og standi hann undir greiðslum til fræðsluráða vegna kostnaðar við framhaldsskólana. Framhaldsskólasjóðurinn er sem sagt í vörslu fræðsluskrifstofunnar í umdæminu og skv. 30. gr. er gert ráð fyrir því að tillög sveitarfélaga til sjóðsins greiðist úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, af framlagi hans til viðkomandi sveitarfélags þannig að innheimta þessa fjár ætti að vera tiltölulega einföld.

Þá vil ég í sjöunda lagi nefna kostnaðarskiptingarákvæði frv. en í þeim felast veruleg nýmæli. Gert er ráð fyrir því að ríkissjóður greiði 80% stofnkostnaðar en 100% kostnaðar við heimavist. Hins vegar greiðir ríkissjóður allan launakostnað og skv. 32. gr., sem fjallar um kostnaðarskiptingarákvæði, greiða svo aftur á móti sveitarfélögin, eða fræðsluráðið fyrir þeirra hönd, 20% stofnkostnaðar á móti og 40% af rekstrarkostnaði.

Ég vil láta þess getið án þess að fjölyrða frekar um það að kostnaðarákvæði þessi eru í fullu samræmi við tillögu sem fjölmennur hópur sveitarstjórnarmanna sendi menntmrh. á s.l. hausti. Hópur þessi hafði starfað um skeið og í honum voru fulltrúar ýmissa framhaldsskóla víðs vegar að af landinu ásamt nokkrum sveitarstjórnarmönnum. Það má því víst heita að kostnaðarákvæði frv. séu í fullu samræmi við viðhorf og skoðanir sveitarstjórnarmanna um land allt, eftir því sem best er vitað.

Í áttunda lagi vil ég sérstaklega nefna ákvæði frv. um fullorðinsfræðslu og fjarnám. Það eru 21. 24. gr. frv. sem fjalla um það efni. Í 24. gr. er gert ráð fyrir því að Námsgagnastofnun gegni hlutverki fjarkennslumiðstöðvar og annist öflun og gerð námsefnis til fjarkennslu, svo sem myndbanda, hljóðbanda, tölvuforrita og prentaðs máls, en að Ríkisútvarpið annist útsendingu efnis til fjarkennslu eftir því sem þörf krefur, og í hverju fræðsluumdæmi sé starfrækt ein fjarkennsluútstöð þar sem best hentar að mati fræðsluráðs.

Í níunda lagi vil ég svo nefna ákvæði frv. um eftirlitsnefnd, en þau eru í 39. gr., þar sem gert er ráð fyrir því að komið sé á fót óháðri eftirlitsnefnd þriggja manna með sérþekkingu á skólamálum til að fylgjast með starfi framhaldsskóla og afla hlutlægra og almennra upplýsinga um þá starfsemi. Eftirlitsnefndin á að beita sér fyrir úttekt á starfi og stöðu a.m.k. fimm framhaldsskóla árlega og skila niðurstöðum til menntmrn., hlutaðeigandi fræðsluráðs og skólastjórna.

Áreiðanlega er ekki ofmælt að dregist hefur úr hömlu að setja heildarlöggjöf um framhaldsskólastigið. Nú er liðinn rúmur áratugur frá því að hafist var handa um þær breytingar á skólakerfinu sem áttu að mynda undirstöður fyrir úrbætur í framhaldsmenntun hér á landi. Setning laga um grunnskóla, nr. 63/1974, var vissulega áfangi að þessu marki. Haustið 1974 skipaði þáv. menntmrh. nefnd til að gera tillögur um breytta skipan náms á framhaldsskólastigi og skilaði sú nefnd áfangaáliti í júlí 1976 og í febrúar 1977 í frv. til laga um framhaldsskóla. Þetta frv. var svo fyrst flutt á árinu 1977 og hefur síðan verið lagt fram fimm sinnum með ýmsum breytingum án þess að ná fram að ganga.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum alla tíð reynt að þrýsta eins fast á það og okkur hefur verið unnt að löggjöf um framhaldsskóla yrði sett. Við studdum á sínum tíma þá meginstefnu, sem fyrrnefnt frv. um framhaldsskóla byggðist á, og satt best að segja þá vantaði ekki nema herslumuninn á það á sínum tíma, þegar Alþb. átti sæti í ríkisstjórn á árunum 1978 og 1979, að frv. um þetta efni yrði lögfest því að frv. var komið til 3. umr., búið að ganga í gegnum töluverðan hreinsunareld, en þingslit urðu þess valdandi og annríki á seinustu dögum þingsins að ekki tókst að afgreiða málið.

Á landsfundi Alþb. 1983 var gerð ítarleg ályktun um uppeldis- og fræðslumál. Þar var m.a. hvatt til þess að hraðað yrði setningu laga um framhaldsskóla. Veturinn 1984-85 helgaði hópur flokksmanna og áhugamanna utan flokksins sig þessu verkefni. Hópurinn gekkst fyrir opinni ráðstefnu um framhaldsmenntun í október á s.l. hausti og kynnti þar hugmyndir sínar, þar á meðal efnispunkta í frv. um framhaldsskóla. Mörg atriði í þessu frv. eru byggð á tillögum þessa starfshóps.

Ég hef látið það koma hér fram og vil nú ítreka það að ein veigamesta breytingin í þessu frv. frá fyrri frv., sem flutt hafa verið um þetta mál, er sú að dregið er mjög úr einhliða ákvörðunarvaldi menntmrn. og að sama skapi eru aukin áhrif fræðsluumdæmanna á stefnumótun og stjórnun framhaldsmenntunar. Í þessu efni er frv. ætlað að ýta undir þróun, sem verið hefur að gerast, í þá átt að fræðsluumdæmin og hvert skólasamfélag axli aukna ábyrgð á þessu málasviði. Stefnt er að verulegri valddreifingu í málefnum framhaldsskólans og stjórneiningum í hverju umdæmi ætlað að taka við mörgum verkefnum sem áður voru á hendi menntmrn.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að stjórnkerfi framhaldsskólans eins og hann er hugsaður í þessu frv. Við gerum ráð fyrir því að menntmrn. hafi yfirstjórnina með höndum en fræðsluráðin fari með stjórn í hverju fræðsluumdæmi og undir þau heyri skólastjórnir.

Við gerum ráð fyrir því að menntmrn. standi fyrir lágmarkssamræmingu náms í framhaldsskólum og gefi út svokallaða rammanámsskrá þar sem skilgreind væru helstu markmið námsins og kveðið á um meginatriði varðandi námsbrautir, markmið þeirra og inntak.

Síðan gerum við ráð fyrir því að landinu sé skipt í níu fræðsluumdæmi sem yrðu í meginatriðum byggð á kjördæmum landsins, þó þannig að Reykjavík væri í fræðsluumdæmi með nálægum sveitarfélögum eins og Seltjarnarnesi, Mosfellssveit, Kjalarnesi og Kjós, en Hafnarfjörður, Garðabær, Bessastaðahreppur og Kópavogur yrðu saman um fræðsluráð. Þó er það tekið fram að sveitarfélag með 10 þús. íbúa eða fleiri getur myndað sérstakt fræðsluumdæmi eins og er í sambandi við grunnskólann.

Við gerum ráð fyrir því að í leynilegum almennum kosningum, sem fram fara um leið og sveitarstjórnarkosningar fara fram, séu kosnir níu menn í fræðsluráð og það sé yfirkjörstjórn í viðkomandi kjördæmi við kosningar til Alþingis sem taki að sér þessa sérstöku kosningu í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar. Eftir að fræðsluráð hefur verið kosið ræður það fræðslustjóra sem sinn framkvæmdastjóra.

Að lokum vil ég geta þess að markmið framhaldsmenntunar er hér skilgreint á nokkuð annan veg en verið hefur í þeim frv. sem fram hafa verið lögð um þetta efni. Markmiðin eru víkkuð til muna með hliðsjón af breyttum viðhorfum til menntunar og hlutverks skóla í lýðræðisþjóðfélagi. Lögð er áhersla á tvo meginþætti, í fyrsta lagi að skólinn þurfi að búa einstaklinga undir virka og ábyrga þátttöku í lífi og starfi í þjóðfélagi sem er stöðugt að breytast, og í öðru lagi að skólinn þurfi einnig og ekki síður að vera vettvangur félagslegra samskipta þar sem rík áhersla er lögð á persónu- og tilfinningaþroska hvers einstaklings.

Ég vil svo að lokum ítreka það, sem ég hef þegar sagt, að ég álít það mjög mikla vanrækslu löggjafans að framhaldsskólafrv. skuli ekki enn hafa verið afgreitt hér á Alþingi. Þessi vanræksla hefur tafið æskilega þróun framhaldsmenntunar og jafnframt valdið margs konar vandkvæðum og óvissu varðandi starfsemi og rekstur framhaldsskólanna. Frekari töf á því að hafist verði handa um skipulega uppbyggingu framhaldsmenntunar mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir skólastarf í landinu og þá sem leggja stund á framhaldsnám. Þess vegna er það skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna að með löggjöf þurfi nú þegar að marka helstu skipulagsdrætti framhaldsskólastigsins. En síðan þarf að sjálfsögðu að fylgja þessu starfi á löggjafarsviðinu eftir með auknum fjárveitingum og markvissum áætlunum um bættan aðbúnað skólastarfs.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.