07.11.1985
Sameinað þing: 13. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

104. mál, endurskoðun gjaldþrotalaga

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Þingforseti. Á þskj. 114 leyfi ég mér að flytja ásamt þm. Alþfl. tillögu til þingsályktunar um frestun nauðungaruppboða, neyðaraðstoð og ráðgjöf við húsbyggjendur. (Menntmrh.: Það var búið að flytja framsögu fyrir þessu máli í útvarpi og sjónvarpi.) Eins og hæstv. fyrrv. iðnrh., núverandi menntmrh. og væntanlegur ég veit ekki hvaða ráðherra tók fram hefur málið áður verið kynnt í opinberri umræðu og er það út af fyrir sig alveg rétt. Ástæðan fyrir því að það var kynnt í opinberri umræðu með þeim hætti er m.a. sú að hæstv. ríkisstj. sem átti að leysa þetta mál og hafði lofað að gera það hefur ekki hafst að enn. Það er enn beðið eftir því að hæstv. ríkisstj. efni þau fyrirheit sem hún hefur gefið húsbyggjendum um að leysa úr þessum vandamálum.

Bara sem dæmi um neyðina sem ríkir í þessum málum get ég sagt ykkur frá því að fyrir réttum tveimur klukkutímum var ég að ræða við fulltrúa lítils sveitarfélags í mínu kjördæmi á Vestfjörðum. Þeir skýrðu mér frá því að á aðeins einu ári hefði íbúum í þessu litla sveitarfélagi fækkað úr 460 niður í 420. Talsverður hópur þeirra, sem flust hefur í burtu á þessu eina ári, hefur orðið að skilja eignir sínar eftir án þess að geta selt og nokkur hópur manna hefur misst allt það sem þeir áttu á nauðungaruppboði. Lífeyrissjóðir, bankar og aðrar lánastofnanir eiga nú þó nokkrar íbúðir á þessum litla stað sem þessir aðilar hafa leyst til sín á nauðungaruppboði þar sem boðnar hafa verið upp eigur fólks og það hefur síðan flutt í burtu eignalaust, eignalausara en það var þegar það kom á staðinn. Þetta hefur gerst á því eina ári sem nú er liðið frá því að ríkisstjórnin gaf fyrirheit um að leysa vandamál þessa fólks. Þetta fólk reyndi að hanga á sínum íbúðum eins lengi og það gat í þeirri von að hæstv. ríkisstj. stæði við loforð sín. Það varð eins og fleiri að gefast upp. Fyrst ástandið er orðið svona í litlu sjávarþorpi úti á landi, hvernig halda menn þá að það sé orðið ef litið er á landið í heild?

Það vildi svo til að sama dag og þessi þáltill. var lögð fram á Alþingi kom út sérstök aukaútgáfa af Lögbirtingablaðinu. Hvers vegna? Var það vegna þess að uppboð var í aðsigi á eigum einhvers atvinnufyrirtækis? Nei, það var vegna þess að uppboðsauglýsingar voru orðnar svo margar á íbúðarhúsnæði einstaklinga að það varð að gefa út sérstaka aukaútgáfu af Lögbirtingablaðinu til þess að koma nauðungaruppboðsauglýsingum fyrir. Og ýmis Reykjavíkurblöðin hafa af þessari neyð miklar tekjur í formi auglýsingatekna af nauðungaruppboðsauglýsingum af eigum einstaklinga.

Fjöldinn allur af fólki sem tekið hefur lán til íbúðakaupa eða íbúðabygginga á síðari árum hefur átt og á enn við sívaxandi greiðsluerfiðleika að etja. Þetta á bæði við um þá sem tekið hafa íbúðalán hjá opinberum lánastofnunum og hálfopinberum stofnunum, svo sem eins og lífeyrissjóðum, en ekki síst hina sem tekið hafa til viðbótar skammtímalán hjá bönkum og öðrum lánastofnunum. Hvers vegna skyldi fólk hafa verið neytt til að taka þessi skammtímalán? Það var neytt til þess vegna þess að ekki var staðið við þau fyrirheit og þær ákvarðanir, sem teknar voru í sambandi við verðtryggingu lána, að slíkri aðgerð yrði að fylgja lánalenging þannig að fólki væri gert kleift að standa undir greiðslubyrði þeirra lána sem þannig hafði verið breytt úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð. Þau fyrirheit voru ekki efnd og hafa ekki enn verið efnd og það er meginskýringin á því að húsbyggjendur og húskaupendur hafa orðið að vera á höttunum eftir skammtímalánum hjá bönkum og öðrum aðilum, en það hefur orðið til þess að smátt og smátt hefur greiðslugetu þeirra verið ofboðið uns svo er komið að hundruð fólks eiga á hættu að missa allar sínar.

Það er e.t.v. einkennandi fyrir afstöðu hæstv. ríkisstj., sem glögglega kemur fram í dag í umræðu um þetta mál, að þegar málið kom á dagskrá var einn ráðherra í salnum. Þegar umræða hófst um það gekk hann úr sal. Meiri er ekki áhugi hæstv. ríkisstj. á að leysa þessi vandamál. Eina skiptið sem þessari hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar brugðið í brún út af þessum málum var þegar samtök húsbyggjenda tóku sig til og birtu heilsíðuauglýsingar í dagblöðum landsins. Og hvað skyldi hafa verið auglýst í þessum auglýsingum? Það var hvorki meira né minna en ríkisstjórnin sjálf. Þessi auglýsing var einnar síðu myndbirting af hæstv. ríkisstj. með ábendingum um að þessir menn, sem þarna voru myndaðir, hefðu ekki staðið við þau fyrirheit sem þeir gáfu. Það hafa þeir ekki gert enn. Sennilega er ráðið til þess að láta þá kippast aðeins við að birta eina auglýsinguna enn með myndum af þessum heiðursmönnum. Hætt er við því, ef heldur fram sem horfir, ef marka má allar þessar uppboðsauglýsingar um nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði einstaklinga, að innan tíðar standi fjölmargar fjölskyldur uppi eignalitlar eða eignalausar og breytir þá engu fyrir þessar fjölskyldur þótt þær hafi lagt nótt við dag í vinnu.

Slíkur vinnuþrældómur hefur ekki einu sinni getað komið í veg fyrir að þær eignir sem sumar fjölskyldur lögðu upp með þegar þær hófu húsbyggingu sína hafa rýrnað á þeim tíma sem liðinn er síðan. Það er ekki aðeins að fólk eigi í erfiðleikum með að standa undir greiðslubyrði afborgana og vaxta, það þarf einnig að horfast í augu við þá staðreynd að þó það hafi tekist, þó fólk hafi getað staðið undir greiðslum afborgana og vaxta, þá hefur eignarhlutur margra í íbúðarhúsnæði sínu samt sem áður stöðugt farið minnkandi. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að skuldirnar, og hvaða aðferð notuð er til að verðtryggja þær, hafa vaxið langt umfram markaðsverð og matsverð íbúðarhúsnæðisins, þannig að hlutur einstaklinganna í íbúðareigninni fer stöðugt minnkandi, jafnvel þó að viðkomandi aðilar hafi getað staðið í skilum með greiðslur afborgana og vaxta.

Það er m.a.s. svo komið að mörg lán sem veitt hafa verið eru orðin svo há og hafa hækkað svo mikið umfram matsverð íbúðanna að veð sem upphaflega var veitt í íbúðunum dugar ekki lengur. Lánið er komið að verðmæti umfram þau mörk sem sett hafa verið til þess að íbúðarhúsnæði teljist veðhæft. Og margir sem óska eftir því að breyta lánum til skamms tíma í lengri lán gegn fasteignartryggingu geta það ekki lengur - ekki vegna þess að þeir hafi ekki burði til að standa undir afborgununum, heldur vegna hins að stefna ríkisstjórnarinnar hefur valdið því að það er ekki lengur til veð. það er ekki lengur hægt að bjóða upp á það veð í íbúðareign viðkomandi manns að það dugi til þess að standa undir frekari lánveitingum þó í boði væru og þó að skuldunauturinn gæti staðið undir greiðslunni.

Veð sem upphaflega nam kannske 30% af verði fasteignar er núna hækkað upp í yfir 50% og slíku fólki eru allar bjargir bannaðar. Eignarhluti þess í viðkomandi íbúð brennur upp frá degi til dags og frá mánuði til mánaðar uns svo verður komið að fólkið stendur uppi eignalítið eða jafnvel eignalaust.

Slæmt er þetta ástand hér á höfuðborgarsvæðinu en miklum mun verra er það þó úti á landsbyggðinni þar sem svo háttar til að ekki aðeins matsverð íbúðanna hefur hlutfallslega farið lækkandi, heldur er markaðsverð þeirra nánast núll vegna landflóttans frá þessum smærri stöðum til höfuðborgarsvæðisins, sem veldur því að það eru ekki lengur neinir til þess að kaupa íbúðarhúsnæðið, jafnvel þó reynt væri að selja það. Þannig er ástandið hjá mörgum húsbyggjendum úti á landi orðið svo að þeir rísa ekki lengur undir greiðslubyrði af lánunum sem þeir hafa tekið. Þeir eiga ekki lengur veð til þess að geta framlengt þessi lán, jafnvel þó lánaframlenging væri í boði, og þeir geta ekki heldur selt eignina, jafnvel þó þeir vildu, til þess að losa sig þá út úr vandanum með eitthvað í aðra hönd. Þeir verða hins vegar að standa hjá og horfa í vonleysi sínu upp á eignina verða nákvæmlega að ekki neinu án þess einu sinni að geta bjargað sé undan vandanum með því að selja eign sína og halda þó einhverju eftir.

Þetta er slíkt neyðarástand að það er ekki hægt að lýsa því með orðum. Og þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, hafa horfst í augu við skelfilegan mannlegan vanda sem ekki aðeins lýsir sér í eignatjóni og eignatapi heldur í hjónaskilnuðum, upplausn fjölskyldna, vonleysi og örvæntingu einstaklinga sem hlut eiga að máli. Það er lærdómsríkt. Og ég endurtek það að þegar umræða fer fram um svona mál þá er kaldhæðið að hún skuli hefjast að viðstöddum einum ráðherra og um leið og umræðan hefst þá skuli sá ráðherra ganga úr salnum.

Herra forseti. Við höfum tíu ráðherra hér sem nú eru allir þingmenn. Hæstv. forseti hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að koma málum í gegnum afgreiðslur, gegnum atkvæðagreiðslur hér á þessum fundi og öðrum fundum. Mér finnst ekki hlýða að ræða þessi mál án þess að geta lagt svo mikið sem eina spurningu fyrir svo mikið sem einn ráðherra. Því vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta að hann kanni: Er hæstv. forsrh. tiltækur? (Forseti: Hæstv. forsrh. boðaði fjarvist og það var tilkynnt í upphafi fundarins.) Er hæstv. fjmrh. og formaður Sjálfstfl. tiltækur? (Forseti: Forseti ætlar sér ekki að standa endalaust fyrir svörum í þessu efni vegna þess að hann getur ekki svarað. Við sjáum að þessir menn eru ekki í þingsalnum. Hins vegar skal athugað hvort fjmrh., - hann er ekki í húsinu, hann tjáði mér rétt áðan að hann þyrfti að sinna áríðandi starfi og tilkynnti að hann færi af fundi. Hver var þriðji ráðherrann, með leyfi?) Það eru tveir ráðherrar sem þetta mál varðar sérstaklega fyrst að þessir hvorugir eru viðstaddir, formenn stjórnarflokkanna, það er annars vegar hæstv. félmrh. og hins vegar hæstv. dómsmrh. Ætli annar hvor þeirra sé tagltækur? (Forseti: Ég skal athuga hvort þessir menn eru í húsinu og hv. ræðumaður getur gert hlé á ræðu sinni ú meðan ef hann óskar. - Það er upplýst að bæði dómsmrh. og félmrh. hafa yfirgefið húsið.)

Hæstv. forseti. Forseti hefur marguppálagt þm. að það hafi verið gert samkomulag um gang þingstarfa sem geri ráð fyrir því að hér séu menn að störfum frá klukkan tvö til klukkan fjögur þegar fundir Sþ. standa yfir og undirbúi sig þá undir það að þingið geti starfað á þeim tíma. Það er alger ógerningur að ræða þetta mál að fjarverandi formönnum beggja stjórnarflokkanna og að fjarverandi báðum þeim ráðherrum sem málið heyrir undír, annars vegar hæstv. félmrh. og hins vegar hæstv. dómsmrh., sem á m.a. að gæta þess að lögum um bann við töku okurvaxta sé framfylgt. En menn hafa lesið það núna í blöðum hvernig að þeim málum er staðið af hálfu framkvæmdavaldsins og þeirra sem eiga að hafa eftirlit með þeim málum.

Ég óska eftir því. hæstv. forseti, að ég fái að gera hlé á ræðu minni og taka aftur til þar sem ég hverf frá nú á þá væntanlega næsta fundi Sþ. og þá verði reynt að sjá til þess að a.m.k. þessir tveir hæstv. ráðherrar verði viðstaddir svo hægt sé að bera fram við þá eðlilegar spurningar um þetta mál.