21.04.1986
Efri deild: 86. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4279 í B-deild Alþingistíðinda. (4015)

368. mál, selveiðar við Ísland

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða forseta að umræðan um gang þessa máls væri það mild að líkur ættu að vera til að ástæðulaust væri að fresta þessari umræðu vil ég endurtaka það að ég óska eindregið eftir því að umræðunni verði frestað þannig að mér gefist tækifæri til að ganga frá mínu nál.

Ég tel að engan veginn sé ástæða til að óttast það, eins og hv. 8. landsk. nefndi áðan, að málið sé komið í strand þótt umræðu verði frestað og hún fari ekki fram fyrr en á miðvikudag sem ég tel eðlilegt vegna þess að aðeins eru eftir tvær umræður. Annað eins hefur verið gert í hv. deild og að koma máli í gegnum tvær umræður á einum degi. Ég held því að það sé langt frá því, og að því stefni ég alls ekki, að þetta mál strandi í deildinni ef fyrir hendi er meiri hluti til þess að afgreiða það.

Ég ítreka sem sagt ósk mína til forseta um að málinu verði frestað og ég mun leggja fram nál. og reyna að koma því til starfsmanna þingsins um miðnættið eða svo.