21.04.1986
Neðri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4295 í B-deild Alþingistíðinda. (4025)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér fram að þegar þetta mál var til umræðu í ríkisstj. gerði ég athugasemdir við nokkur tiltekin atriði í frv. og áskildi mér allan rétt til að reyna að hafa áhrif á að það yrðu gerðar á því tilteknar breytingar. Ég skal reyna að vera mjög stuttorður því ég hef enga löngun til að lengja umræður um þetta, en ég vil benda á að endurskoðun í sjóðamáli sjávarútvegins fór fram á árinu 1975 og var lögfest með stórfelldri lækkun á útflutningsgjaldi og síðan hélst það að verulegu leyti óbreytt, en upp úr 1980 fer þetta sjóðakerfi aftur að stórhækka eða það varð meiri miðstýring og m.a. með verðbótum úr Aflatryggingasjóði.

Það sem ég hef mest út á þetta frv. að setja er í fyrsta lagi að ég er mjög andvígur því að leggja niður Aflatryggingasjóð sem slíkan. Ég er algerlega sammála því sem kemur fram í frv., að áhafnadeildin og verðjöfnunardeildin verði lagðar niður því að það má taka það upp í samninga á milli sjómanna og útgerðarmanna, en ekki almenna deildin því að hlutverk hennar er að bæta aflahluti skipa og áhafna þegar almennan aflabrest ber að höndum eða þegar brýna nauðsyn ber til að draga úr sókn til verndar mikilvægum nytjastofnum. Þessu marki hefur verið reynt að ná með því að ákveða meðalveiðimagn, kvótatímabíl, veiðisvæði, verstöðvar og skipa veiðiskipum í flokka eftir stærð og veiðarfærum, m.ö.o. að setja saman í flokka þau skip sem líkust skilyrði hafa til veiða með tilliti til stærðar, veiðibúnaðar, löndunarhafnar o.fl.

Ég tel að þessi deild hafi verið þörf frá fyrstu tíð, en í því frv. sem nú liggur fyrir er í grg. látið að því liggja að vegna nýrrar stjórnunar fiskveiða, þ.e. hins svokallaða kvótakerfis, sé ekki lengur þörf fyrir starfsemi eins og almennu deildina. Ég get ekki komið auga á að kvótakerfi geti komið í veg fyrir aflabrest. Ég vil geta þess að kvóti hefur til margra ára verið á humarveiðum og þrátt fyrir það hefur orðið aflabrestur og komið til kasta almennu deildarinnar. Ég bendi á sem nærtækt dæmi að þetta er ekki svo einfalt eins og höfundar frv. vilja vera að láta.

Þá finnst mér mjög slæmt að draga úr og kippa fótunum undan Úreldingarsjóði. Um það má deila í það óendanlega hvort hann hafi nokkurn tíma átt að verða til eða ekki. Aldurslagasjóðurinn eða aldurslagatryggingin er hreinn vátryggingarsjóður þar sem menn greiða iðgjöld og fá bætur alveg eftir ákveðnum reglum og lögum. Þar er engum mismunað. Þar fær enginn meiri bætur en annar eða borgar hærri iðgjöld en annar. Hins vegar var Úreldingarsjóðurinn upp settur með nokkuð öðrum hætti.

Ég óttast þá þróun sem er að verða í uppbyggingu fiskiskipastólsins. Ég held að núna á tveimur síðustu árum hafi bæst við flotann um 300 opnar trillur eða minni dekkbátar á sama tíma og að mestu leyti er lokað fyrir uppbyggingu fiskiskipastólsins. Á sama tíma er mikið fjör í að breyta 12, 14, 15 ára skipum í frystiskip og kaupa til þeirra ný tæki. Auðvitað er líka um vélaskipti að ræða eins og eðlilegt er. En hér er um að ræða yfirleitt verkefni upp á 100 til 120, 130, 140, 150 millj. kr. Ég tel að reglur Fiskveiðasjóðs séu allt of einstrengingslegar í þessum efnum og það beri að leggja fram meira þar sem þörf er á að byggja ný skip ef kaupendur eru fyrir hendi sem eru reiðubúnir að taka á sig að leggja verulega fram fjármagn til slíkra kaupa.

Þá óttast ég að það geti haft alvarlegar afleiðingar að Alþingi sé undir þeim kringumstæðum sem nú eru að skipta sér af skiptaverði. Það er talið af forsvarsmönnum a.m.k. sjö sjómannafélaga á landinu að tekjutap sjómanna á frystitogurum geti numið allt að 5,6% þegar selt er fob, en 5,8% þegar um sif-sölu er að ræða og séu tímabundnar verðbætur undanskildar nemur þessi skerðing, að þeir telja, 3,43%. Ég held að það sé ákaflega hættulegt að fara inn á þessa braut.

Ég er alveg sammála því að það eigi að leggja niður Tryggingasjóð fiskiskipa, en mér finnst það að sumu leyti broslegt, af því að hér eru aðalfeðurnir að því nál. sem þetta frv. byggir á, sem hafa viljað halda þessu sjóðakerfi frá því að endurskoðun átti sér stað 1976, Tryggingasjóði fiskiskipa, að það hefur tekið þá 10 ár, það hefur verið 10 ára meðgöngutími hjá þeim að átta sig á þessu. Ég tel hins vegar ástæðulaust að fela einum aðila þetta að fenginni reynslu, og má þó segja að enginn sé sekari en ég því að ég flutti frv. um vátryggingariðgjöldin og þar var LÍÚ falið að koma þeim peningum áleiðis sem bankarnir héldu eftir, og að þetta hafi verið gert að æðimiklu tekjuöflunarmáli fyrir ein félagasamtök. Ég hefði talið að það hefði mátt aðgæta nánar hvort þetta sé rétt. Er rétt að lögfesta svo áfram að ákveðin samtök eigi að hafá ein með þessa úthlutun fjármuna að gera, líka fyrir þá sem kæra sig ekki um það og eru innan vébanda þeirra og sömuleiðis einnig fyrir þá sem eru ekki félagsmenn í þessum samtökum? Þetta hefði ég talið að hefði mátt vera nokkuð öðruvísi án þess að himinn og jörð færust.

Ég hefði gjarnan viljað ræða miklu ítarlegar um þetta mál, en ég vil ekki á nokkurn hátt leggja stein í götu þess að málið fái þinglega meðferð. Ég bendi þó á að þegar mál eru flutt mjög seint er nauðsynlegt að gefa Alþingi, þó að stuttur sé tími, þó ráðrúm til þess að breyta þeim frv. sem talið er nauðsynlegt að gera breytingu á. Ég vil t.d. benda á að í sambandi við öryggismál sjómanna er talað hér um „að fengnum tillögum öryggisnefndar sjómanna“. Ég veit ekki annað en öryggismál heyri undir samgrn., en þá er það falið nefnd sem samgrn. skipar. Þetta fer alls ekki saman og ég trúi ekki öðru en að nefndin muni leiðrétta jafnlítilfjörlegan hlut og þetta því að það getur auðvitað ekki gengið að ein nefnd hafi fyrst og fremst umsögn um hluti en ekki æðra stjórnvald sem fer með þessi mál.

Ég hefði kosið að tala miklu ítarlegar um þessi mál því það er sannarlega ástæða til, en ég ætla, eins og ég sagði í byrjun, ekki að leggja stein í götu þess. En ég vænti þess að sjútvn. þessarar hv. deildar taki tillit til þeirra ábendinga sem ég hef komið hér fram með.