21.04.1986
Neðri deild: 91. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (4026)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið umræður um þetta mál þó að það sé vissulega mál sem er þess eðlis að það hefði þurft ítarlegar umræður vegna þess að hér er um stórt mál að ræða. Það er nánast forkastanlegt að mínu viti að nú skuli málið vera hér til 1. umr. þegar rétt tveir sólarhringar eru eftir af þinghaldi hér á Alþingi. Ég dreg mjög í efa að þingmenn almennt, aðrir en þeir sem unnu þetta mál, hafi gert sér grein fyrir því hvað þetta kann að hafa í för með sér, verði þetta frv. samþykkt, miðað við það sem nú er. Ég er ábyggilega einn af þeim mörgu sem gera sér í raun og veru ekki alveg ljóst hvaða breytingar þetta frv. kunni að fela í sér til þess sem verða á frá því sem nú er.

Um þetta hljóta að hafa vaknað margar spurningar hjá mörgum, hvað kunni að vera hér á ferðinni. Ég dreg ekkert í efa að þeir aðilar sem unnu að þessu máli hafa haft vit og þor til að taka réttar ákvarðanir með því að fylgja málinu eftir stig fyrir stig, en eigi að síður hljóta að vakna spurningar um þetta mál.

Það er nú komið í ljós, sem kannske hefur verið vitað fyrr, að þetta er í raun og veru ekkert stjfrv. eins og er sagt í dagskrá t.d. Einn hæstv. ráðh. var hér að andmæla og hafði fyrirvara á ýmsum hlutum þegar málið var rætt í ríkisstj. Í reynd er ekki hér um að ræða stjfrv. í þeirri merkingu sem lögð er í það orð. En það breytir ekki miklu í þessu hvað kann að hafa gerst innan hæstv. ríkisstj. í þessum efnum.

Það eru örfá atriði sem mig langar til að fá upplýsingar um.

Hæstv. samgrh. minntist á Aflatryggingasjóðinn t.d. sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í aflaskorti víðs vegar um landið. Hvað verður, þegar búið er að samþykkja þetta frv. hér, í slíkum tilfellum að aflabrestur verður? Hvað gerist þá? Hleypur einhver undir bagga með þeim svæðum sem verða fyrir þessum vanda eða verða þau látin lönd og leið? Ef svo er að enginn er til til þess að grípa inn í þegar illa árar við sjávarsíðuna á hinum ýmsu stöðum tel ég það illa farið. Ég spyr því hvað menn hugsi sér að eigi að gerast ef aflabrestur á sér stað á hinum ýmsu stöðum eins og við höfum mörg dæmi um, því miður, áður.

Í öðru lagi verður mér litið á 7. gr. Ég sé ekki betur, ég bið menn að leiðrétta ef ég fer með rangt mál, en með þessu frv. sé verið að fella niður fæðispeninga til smærri báta. Nú verða aðeins tveir flokkar. Áður voru þeir þrír ef ég man þetta rétt. Og hver er ástæðan fyrir því að nú á allt í einu að hverfa frá því að trillukarlar, eins og menn orða það, fái áframhaldandi greidda fæðispeninga eins og þeir hafa fengið, ef þetta er réttur skilningur hjá mér? Af hverju er það gert? Hver er meiningin?

Í þriðja lagi er það varðandi lífeyrissjóðsgreiðslurnar. Eins og frv. var, að vísu hefur því verið breytt í Ed., átti Lífeyrissjóður sjómanna að safna þessu öllu saman og líklega deila því út til annarra lífeyrissjóða sjómanna sem eru staðsettir utan Reykjavíkursvæðisins. Mín spurning er í sambandi við þetta hvenær þetta eigi að gerast, á hvaða tíma. Á t.d. mánaðarlega að skila andvirði til viðkomandi lífeyrissjóða eða á það að gerast á einhverjum öðrum tímum? Er meiningin að Lífeyrissjóður sjómanna, sem er hér í Reykjavík, fái einhverjar greiðslur fyrir að útdeila þessum peningum til annarra lífeyrissjóða? Verður það dregið af eða með hvaða hætti á að fara með það mál? Ég veit ekki. Ég óttast mjög að þetta frv. kunni að leiða til þess að hér sé verið að leggja síðustu hönd á eilífðarkvóta, eins og hæstv. sjútvrh. hefur látið í ljós, að hann teldi að öll næsta framtíð sem séð væri hlyti að lúta að kvótalögmáli að því er varðaði fiskveiðar. Mér sýnist, kannske er það vitleysa og betur færi ef svo væri, að hér sé frekar farið inn á þá braut að festa í sessi kvótafyrirkomulagið en að úr því verði dregið. Auðvitað verður það reynslan sem sker úr um það eins og annað hvað í þessum efnum kann að gerast og um það skal ég ekki fullyrða, en ég óttast eigi að síður að reynslan verði í þá átt. Mér sýnist líka að með þessu frv. minnki allar upplýsingar og aðhald að því er varðar aflaskýrslur og annað slíkt sem er auðvitað nauðsynlegt að halda, en ég sé ekki betur en úr því verði dregið.

Í þessu frv. er líka að finna að það á að skipta upp fjármunum, sem verið hafa fyrir hendi, annars vegar til öryggismála sjómanna, sem er að mínu viti fullkomlega eðlilegt, hvort það eigi að gera í gegnum þetta frv. skal ég ekkert fullyrða um, en það verkefni er fullkomlega þess eðlis að í það séu settir fjármunir. Hvort þeir eiga að koma þarna eða með öðrum hætti, um það skulum við ekki deila að sinni.

En það er annað sem er í þessu frv. sem mér þykir enn einkennilegra. Það er að hér eiga að fara 12 millj. til undirbúnings byggingar sjávarútvegshúss í Reykjavík. Trúlega er það byrjunin. Hvaðan eiga peningarnir að koma í áframhaldinu? Ekki gera menn mikið fyrir 12 millj. í þeim efnum, að ég hygg, og einhvers staðar verður meira fé að koma ef á annað borð á að reisa slíka byggingu, eins og hér er talað um, sem ég dreg mjög í efa að hafi neinn sérstakan rétt á að standa í Reykjavík. Ég er ekkert sannfærður um að sjávarútvegshús eigi endilega að vera byggt hér í Reykjavík. Ég hygg að ýmsir aðrir staðir væru betur að því komnir að eignast sjávarútvegshús en Reykjavík.

Ef ég skil þetta frv. rétt sýnist mér að verið sé að leggja niður Fiskimálasjóð. Ég hef út af fyrir sig ekkert sérstakt við það að athuga. En mér þykir einkennilegt, ef þetta er réttur skilningur hjá mér, að í sama frv. og lagt er til að Fiskimálasjóður verði lagður niður eru honum áætlaðar 4 millj. tekjur - ef ég skil þetta rétt, ég tek það enn fram. Mér finnst það einkennileg vinnubrögð að sama frv. skuli innihalda efnislega atriði um að leggja niður heilan sjóð en eigi að síður afla þessum niðurlagða sjóði þó tekna á þessu tímabili. Ég ítreka enn - ef ég skil rétt.

Ýmsar svona vangaveltur hljóta að koma upp í hugann og fleiri en ég hef nefnt þegar svo viðamikið mál, sem hér er um að ræða, kemur á borð þingmanna og ekkert, nema síður sé, við það að athuga að margar spurningar vakni um breytingar frá því sem er til þess sem verða kann.

Eins og hér var minnst á áðan var síðast 1975 breytt til varðandi sjóðakerfi sjávarútvegsins og sú breyting dugði ekki nema rétt í um fimm ár. Upp úr 1980 fóru breytingar að verða með þeim hætti að enn fór að hlaðast upp sjóða-„system“, ef svo má orða, sem er auðvitað vont orð.

Nú er komið að því aftur á 10 ára tímabili að skipta sjóðakerfi sjávarútvegsins að nýju. Vonandi kemur þessi breyting, sem nú er lagt til að gerð verði, betur út og dugar lengur en hin fyrri. En ég hygg að enn þurfi að svara ýmsum kannske mikilvægari spurningum en ég hef hér verið að velta upp frá mörgum öðrum um það til hvers þetta kunni að leiða og númer eitt hvort hér sé um að ræða að menn séu frekar að festa í sessi hið alræmda kvótakerfi, sem ég hef kallað svo og kalla enn, eða hvort hér sé verið að hliðra til til að losa um hnúta þar. Ég á ekki von á því að hæstv. sjútvrh. stígi skref núna til að létta á kvótakerfinu eftir hans ummælum bæði fyrr og nú og hér sé frekar verið að stíga skrefið til þess að festa kvótakerfið í sessi.