21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (4033)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég gat um það við 1. umr. þessa máls að ég mundi leggja fram brtt. Hún er þannig:

„1. Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Á gjaldárunum 1987, 1988 og 1989 skal lagður á sérstakur eignarskattur er renna skal að hálfu til byggingarsjóðs þjóðarbókhlöðu og að hálfu til hafnamála.

Við 2. gr. Í stað „0,25%" í a- og b-lið komi: 0,50%.“ Ég gat um það í stuttu máli hvernig ástand væri víða í höfnum landsins og hvernig þróunin hefði verið. Það er mjög lítið til framkvæmda á þessu ári og neyðarástand í höfnum víða um land.

Ég fagnaði því að hæstv. menntmrh. tók úr þessum ræðustól eindregið undir það að þessi brtt., að mér skildist, yrði samþykkt. Þess vegna er ég eiginlega undrandi á því að frsm. þeirrar nefndar, sem hafði þetta til meðferðar, skyldi ekki einu sinni sjá ástæðu til að geta um það í sinni framsöguræðu að þessi till. lægi hér fyrir.

Ég vil spyrja hv. þm. að því hvort þeir haldi í raun og veru að ætti að hafa forgang með framkvæmdaféð, hafnirnar sem eru að eyðileggjast, sem eru ónógar fyrir fiskiflota okkar, eða þjóðarbókhlaðan. Ég er alveg sannfærður um að það verður tekið eftir því hvernig þetta mál verður afgreitt hér á hinu háa Alþingi.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Þetta mál liggur það beint fyrir að það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta. Það er t.d. neyðarástand á einum fimm stöðum í því kjördæmi sem ég er fulltrúi fyrir. Þetta er þjónusta við aðalframleiðslugrein þjóðarinnar og ég taldi að það mundi vera sjálfsagt mál að leysa þetta með einhverjum hætti og a.m.k. væri ekki ástæða til að leysa hitt öðruvísi en að þetta fylgdi með.