21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4301 í B-deild Alþingistíðinda. (4035)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Alþb. hefur alla tíð stutt eindregið að staðið væri með eðlilegum og myndarlegum hætti að byggingu yfir bókasöfn hér í höfuðstaðnum og byggingu þjóðarbókhlöðu. Það var fyrir tilstuðlan Alþb. að þetta mál var tekið inn í stjórnarsáttmála í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens. Á þeim tíma var húsið steypt upp, í menntamálaráðherratíð núv. hæstv. forseta deildarinnar og var það vissulega til sóma. En ekki hefur verið framhald á þessu í tíð núv. ríkisstj. og fjárveitingar litlar sem engar til þessara mála.

Sá málabúnaður, sem hér er uppi hafður í sambandi við þetta efni, er hins vegar mjög kyndugur svo að ekki sé meira sagt. Í stað þess að standa að þessu máli með eðlilegum hætti og veita til þessa verks fjárveitingum á fjárlögum er farið að taka þetta mál sérstaklega út úr og það á tíma sem engin nauðsyn ber til. Það er eðlilegt að um þetta mál sé fjallað samhliða fjárlagagerð og það breytir engu hvort þetta frv. er samþykkt á þessu vori eða fjallað um þetta efni á síðari hluta ársins vegna þess að á þessi mál reynir ekki fyrr en á árinu 1987 í sambandi við fjáröflun skv. þessu frv.

Ég hlýt að benda á að þessi málsmeðferð er óeðlileg og ekki skynsamleg af hálfu ríkisstjórnar sem skorið hefur niður samneysluþætti í þjóðfélaginu um helming á sinni tíð og sett í svelti eitt nauðsynjamálið eftir annað um land allt. Hér eru nefndar hafnir en það mætti taka alla helstu samneysluþætti í landinu sem falla undir þennan niðurskurð.

Ég treysti mér því ekki til þess að styðja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir vegna þess að um þessi efni ber að sjálfsögðu að fjalla í samhengi. Ég mun hins vegar styðja þá brtt. sem hér hefur verið flutt af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni og hann hefur mælt hér fyrir þó að það mætti vissulega taka aðra þætti inn í þetta dæmi ef menn á annað borð vilja afgreiða þetta mál hér og nú og taka það til afgreiðslu.

Ég ítreka það að ég hvet til þess að lokið verði byggingu þjóðarbókhlöðu með eðlilegum hætti og á eðlilegum tíma. En málsmeðferð af þessu tagi er ekki samboðin Alþingi að mínu mati þegar þannig er tekið á hinum mikilsverðustu málum sem raun ber vitni í tíð þessarar ríkisstj.

Ég vænti þess að menn hverfi að því ráði að taka þessi mál upp í eðlilegu samhengi að hausti og mun með ánægju stuðla að því, eins og Alþb. hefur gert á undanförnum árum, að það verði um að ræða eðlilegt fjármagn til byggingar þjóðarbókhlöðu þannig að sú framkvæmd nái fram að ganga jafnhliða því sem tekið verði með öðrum hætti á algerum nauðsynjamálum, jafnt varðandi menningar- og menntamál vítt um land svo og aðra þætti þar sem reynir á fjárframlög úr sameiginlegum sjóði.

Það er svo sannarlega kapítuli út af fyrir sig að heyra innantökur talsmanna Sjálfstfl. í sambandi við þá skattheimtu sem hér um ræðir og er það út af fyrir sig vel að Sjálfstfl. skuli fást til þess að leggja skatta á stóreignir og hefði fyrr mátt vera.