21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4304 í B-deild Alþingistíðinda. (4037)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta frv. og fagna því að það er komið fram. Ég hef heldur ekki sem Alþýðubandalagsmaður neitt á móti því að eignamenn greiði skatta og beri kostnað af samneyslu og þjónustufyrirtækjum.

Það er auðvitað, eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði, engan veginn vansalaust að þjóðarbókhlaða skuli standa óinnréttuð eftir að Alþingi samþykkti árið 1970 svohljóðandi tillögu með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 skuli reist þjóðarbókhlaða er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.“

Allir vita að þessi ágæta tillaga er ekki komin lengra í framkvæmd en eins og öllum er kunnugt. Hið háa Alþingi og hv. þm. sem hér hafa tekið til máls hafa ekki allir verið heiðarlegir í málflutningi. Menn vísa til fjárlagagerðar. Hver hv. þm. hér inni veit ekki að menntmrh. eiga ekki alltaf sjö dagana sæla þegar komið er að gerð fjárlaga? Það vill nú einu sinni svo til að það sem hv. þm. og hæstv. ráðherrar oftast tala um á hátíðastundum, menningin og menntunin í landinu, verður ævinlega síðast á dagskrá þegar komið er að fjárlögum. Ég fagna því þess vegna að einum hæstv. menntmrh. sé þetta mál slíkt alvörumál að hann setjist niður og leiti annarra ráða. Og það er mér að meinalausu þó að hann leiti til eignamanna þjóðfélagsins. Það gerði þá ekki til þó að þeir færu loksins að borga. Þessi málflutningur sem hér hefur verið hafður í frammi er því gjörsamlega fáránlegur og út í hött. Ég harma slíkar raddir frá Alþb. vegna þess að áður hefur verið vikið að því að bygging þjóðarbókhlöðu var skilyrði fyrir samstarfi þegar ríkisstjórn hæstv. þáv. forsrh. Gunnars Thoroddsens var mynduð og ég hélt ekki að Alþb. hefði skipt neitt um skoðun í því efni.

Auðvitað er eftir að leggja mikið af þjóðvegum í þessu landi. Auðvitað er eftir að byggja hafnir. Og það er næstum eftir að byggja alla flugvelli landsins, að ég nú ekki tali um dagheimili og hvað sem er. Ef við ætlum að bíða eftir að þessu verði öllu lokið og ljúka þá við byggingu þjóðarbókhlöðu er ég ansi hrædd um að það mál verði komið í nokkurn eindaga. Vita menn t.d. að Háskólabókasafn, sem á að fá inni í þjóðarbókhlöðu, er orðið á því stigi að það sæmir engum nútímaháskóla? Hvað þýðir það? Verðandi menntamenn þessarar þjóðar vantar bókakost svo alvarlega að þess eru dæmi að deildir eru að kenna 25 ára gamlar bækur eins og hv. þm. Árni Johnsen upplýsti ekki alls fyrir löngu, meira að segja 25 ára gamlar bækur um markaðssetningu og sölumennsku.

Ég held, hv. þm., að alþýða þessa lands tapi engu á því að þjóðarbókhlaðan verði byggð. Og þeir sem vildu kannske heldur byggja dagheimili og raða öðruvísi í forgang skulu gera sér ljóst að þjóðarbókhlaða er undirstaða lífs þeirra barna sem nú eru að vaxa upp og eiga eftir að reka þetta þjóðfélag áfram. Við erum að dragast aftur úr vegna lélegs bókakosts. Háskólinn er að dragast aftur úr af sömu ástæðu. Það sæmir ekki að hv. þm. vilji hafa þetta ástand þannig og setji fyrir sig ýmist heldur lítilsigld kjördæmasjónarmið og ekki rishærri flokkspólitísk sjónarmið. Sú var tíðin að samstaða var á Alþingi um byggingu þjóðarbókhlöðu. Ég skora á hv. þingheim að samþykkja þessa tillögu og tefja ekki framgang málsins með innihaldslausu rausi.