21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4305 í B-deild Alþingistíðinda. (4038)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég var nú ekki viðstödd 1. umr. um þetta mál hér s.l. laugardag og gat því ekki lýst afstöðu Kvennalistans til málsins sem liggur raunar fyrir á þskj. 956. Þar sem nú er mikill asi á þm. og hraði í þingstörfum má búast við að einstök nál. séu ekki endilega lesin vandlega og til þess að afstaða Kvennalistans fari ekkert á milli mála mun ég vitna til þessa nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed., með leyfi forseta:

„Minni hluti nefndarinnar telur brýnt að sem fyrst komist skriður á framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu og átelur harðlega að lítið eða ekkert fé skuli undanfarið hafa verið veitt til byggingar hennar. Minni hl. bendir á hversu brýna nauðsyn beri til að ljúka þessari byggingu sem allra fyrst, svo að leysa megi óviðunandi aðbúnað höfuðbókasafna landsins og jafnframt að til skammar er fyrir stjórnvöld hversu lengi hefur dregist að afhenda þjóðargjöfina frá 1974.

Hins vegar telur minni hl. þá leið, sem farin er í þessu frv. til að fjármagna framkvæmdir við þjóðarbókhlöðu, með öllu óviðunandi. Þjóðarbókhlaða er hús þjóðarinnar allrar og hana á þjóðin að byggja, ekki eignamenn hennar eins og lagt er til í þessu frv. Í stað þess að fara þá leið sem lögð er til í þessu frv. á að veita fé til byggingar þjóðarbókhlöðu á fjárlögum ár hvert beint úr sameiginlegum sjóði landsmanna allra, ríkissjóði.

Þá ber þess að geta að ef á að leggja á sérstakan eignarskatt, eins og frv. kveður á um, væri langeðlilegast að sá skattur rynni beint til húsnæðismála og kæmi þeim til góða sem nú eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið í fyrsta sinn, við ólíkt verri aðstæður en næsta kynslóð á undan þeim. Réttmætast er að beita slíkum skatti til að jafna þá kynslóðamismunun sem átt hefur sér stað í húsnæðismálum hér á landi.

Einnig bendir minni hl. á að frv. þetta kemur ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1987 og að enn er nægur tími fyrir ríkisstj. til að undirbúa fjárveitingu til þjóðarbókhlöðu á fjárlögum ársins 1987. Því leggur minni hl. til að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.

Stefán Benediktsson hefur setið fundi nefndarinnar og er samþykkur þessu áliti.“

Undir þetta skrifar Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Herra forseti. Ég er samþykk þessu nál. og mun greiða atkvæði samkvæmt því.