21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4307 í B-deild Alþingistíðinda. (4040)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 3. þm. Vestf. vil ég taka fram að stefna Sjálfstfl. gagnvart eignarsköttum er óbreytt. Á síðasta þingi tók Sjálfstfl. þátt í því að leggja á sérstakan eignarskattsviðauka tímabundið til ákveðins verkefnis. Ég var sjálfur flm. að þeirri tillögu hér á hinu háa Alþingi. Þessi eignarskattsauki fellur úr gildi um n.k. áramót. Sá eignarskattsauki sem er til umræðu og fara á til þess að ljúka byggingu þjóðarbókhlöðunnar er beint framhald af þeirri ákvörðun sem tekin var í fyrra. Hér er ekki um að ræða viðbót við eignarskatt, hér er ekki um að ræða hækkun á eignarskatti frá því sem nú er og fyrir því get ég fellt mig við þetta frv. og staðið að samþykkt þess. En Sjálfstfl. hefur verið og er andvígur því að hækka eignarskatta umfram þetta mark eins og sakir standa.