21.04.1986
Neðri deild: 92. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (4047)

366. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. félmn. sem hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Þetta er frv. sem gerir ráð fyrir því að Innheimtustofnun sveitarfélaga sé heimilt, þegar vanskil verða á meðlagsgreiðslum, að reikna dráttarvexti af gjaldföllnum meðlagskröfum og skulu dráttarvextir reiknaðir með sama hætti og hjá innlánsstofnunum, bönkum og sparisjóðum.

Nefndin athugaði þetta frv. og mælir með því að það verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita auk mín hv. þm. Halldór Blöndal, Stefán Guðmundsson, Eggert Haukdal, Stefán Valgeirsson, Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Eins og fram hefur komið þótti nefndarmönnum eðlilegt að dráttarvextir væru reiknaðir af meðlagsskuldum.